Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   þri 08. febrúar 2011 06:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Móðir allra íþrótta
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Mynd: Getty Images
Ef einhver íþrótt getur talist móðir allra íþrótta þá er það fótbolti, sama hvað hver segir. Hægt er að koma með ógrynni af rökum fyrir þessari fullyrðingu enda svo margir þættir fótboltans sem eru heillandi. Einn af þeim sem er í miklu uppáhaldi hjá mér er sú staðreynd að maður þarf ekki að vera góður í fótbolta til að vera góður í fótbolta.

Ef rétt hugarfar, metnaður og barátta er til staðar eiga menn möguleika á því að komast ansi langt, sama þó náttúrulegir hæfileikar í þessari göfugu íþrótt hafi ekki verið til staðar. Það er meiraðsegja lið sem er í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar sem er byggt upp á leikmönnum sem teljast í þennan flokk. Í því liði fá „betri“ fótboltamenn að dúsa á bekknum á meðan bardagamenn og spjótkastarar láta ljós sitt skína.

Hermann Hreiðarsson er einn besti varnarmaður sem Ísland hefur átt, Gary Neville verður alltaf goðsögn hjá Manchester United og Jamie Carragher er í uppáhaldi á Anfield. Menn geta komist ansi langt á hörkunni.

Ef menn eru stútfullir af hæfileikum en hausinn er ekki að dansa með þá er ekki von á góðu. Allir sem þennan pistil lesa þekkja einhvern sem spáð var bjartri framtíð í boltanum en floppaði því rétta hugarfarið var ekki til staðar.

Tíðni óvæntra úrslita er mun hærri í fótbolta en flestum öðrum íþróttum. Reglulega ná áhugamenn að leggja atvinnumenn. Þó Real Madrid og Barcelona mætist í úrslitum spænska konungsbikarsins í ár hafa þessi lið oft fengið að kynnast því að vera í hlutverki Golíats gegn Davíð í þessari keppni. Með skipulagi, öguðum varnarleik og baráttu getur Davíð gert ótrúlega hluti í fótbolta. Hluti sem hann getur ekki gert í öðrum íþróttum.

Fótbolti.net er stærsta heimasíða landsins sem sérhæfir sig í umfjöllun um móður allra íþrótta. Með þessu pistlakerfi sem nú hefur verið tekið í notkun munu umræður og skoðanaskipti um fótbolta á síðunni aukast til mikilla muna. Menn úr ýmsum kimum fótboltans á Íslandi hafa tekið vel í að skrifa fyrir okkur hugleiðingar sínar og mun bætast enn frekar í þennan hóp á næstu vikum.

Góða skemmtun!
banner
banner
banner