Það gladdi mitt geð verulega þegar Fótbolti.net bauð mér það að skrifa pistla inná þessa frábæru síðu og mig langar mikið til að byrja að þakka yfirmönnum síðunnar fyrir það.
Mig langar aðeins til að nota fyrsta tækifærið til að mæra síðuna og um leið kannski aðeins fara yfir mína tengingu við þessa frábæru íþrótt, fótboltann.
Mig langar aðeins til að nota fyrsta tækifærið til að mæra síðuna og um leið kannski aðeins fara yfir mína tengingu við þessa frábæru íþrótt, fótboltann.
Ég hóf fótboltaferilinn minn á Íslandi árið 1986 þegar ég spilaði fyrir heimaliðið mitt, KS frá Siglufirði við Skallagrím á gamla malarvellinum í Borgarnesi. Á þeim tíma var liðið í næstefstu deildinni.
Á þessum tíma voru fjölmörg dagblöð á Íslandi og öll fjölluðu þau um fótbolta. Ég man mjög vel eftir því að hafa haft samband við frænda minn sem var áskrifandi að Þjóðviljanum og kaupa Dag (Akureyrarblað) á mánudeginum, því þar var alltaf mikil umfjöllun um leikina. Árið eftir tóku bæði Mogginn og DV upp einkunnakerfi í næstefstu deildinni sem varði í nokkur ár. Að auki skrifaði Tíminn um leikina, en maður las það alltaf síðast. En öll blöðin skrifuðu töluvert um þrjár efstu deildirnar og síðan eitthvað um þá neðstu.
Smátt og smátt þurrkuðust blöðin út og á sama tíma var greinilega skorið niður á íþróttadeildum þeirra blaða sem að enn voru á lífi. Ég fór og spilaði með FH um sinn en fór aftur heim sumarið 1991. Þá vorum við KS-ingar í þriðju efstu deild og eitt af því fyrsta sem ég tók eftir var að umfjöllunin um boltann þar var eiginlega engin, alls engin. Á þeim tíma sem ég var með KS ('91-'95) var einu sinni frétt um liðið okkar, þegar við vorum sekúndur frá því að slá efstudeildarlið ÍBV út úr bikarnum. Þá kom að því að spila fyrir ÍR í næstefstu deildinni og þar var eilítil umfjöllun og ferilinn endaði ég svo í Þorlákshöfn 1997 í þriðjuefstu deild. Þá var nú svo komið að bara Mogginn birti úrslitin en engin önnur umfjöllun.
Sennilega eru þeir sem lesa þetta hérna farnir að spá í hversu upptekinn ég sé eiginlega af sjálfum mér. En það er ekki aðalatriðið. Íslenskur fótbolti skiptir tugþúsundir máli og í efstu deildunum eru tæplega helmingur allra þeirra liða sem spila leikinn. Á þessum árum þar sem umfjöllun fjölmiðla einskorðaðist við efstu deild tel ég fótboltann hafa átt undir töluvert högg að sækja á mörgum stöðum og hjá mörgum knattspyrnuliðum, því staðreyndin er einfaldlega sú að með aukinni fjölmiðlaumfjöllun þá er stöðugt verið að auglýsa þennan magnaða leik.
Fótbolti.net breytti ÖLLU. Ég veit að á íþróttadeildum fjölmiðlanna starfar frábært fólk, en þegar drengirnir á þessari góðu síðu fóru að skrifa tóku þeir strax það heillavænlega skref að fylgjast með íþróttinni frá neðstu rótum og upp á topp. Karlar og konur, frá neðstu deild að efstu. Frá yngri flokkum og uppúr.
Ekki nóg með það, því allt í einu varð í kjölfarið vakning hjá mörgum fótboltaliðum að setja upp heimasíður liða sinna, skref sem ég tel að hafi tengst aukinni umfjöllun um íslenska knattspyrnu í kjölfar fótbolta.net.
Svo ég tengi mig aftur við umfjöllunina þá fékk ég að vera í þjálfarateymi hjá ÍR í þriðju efstu deildinni um stund, frá 2003 - 2006. Semsagt, EFTIR fótbolta.net. Það varð kækur hjá mér þá að fara inn á síðuna minnst einu sinni á dag og þekking mín á íslenskum fótbolta náði allan hringinn á ný, eins og þegar ég las Þjóðviljann á sínum tíma. Þessi kækur fylgir mér enn í dag!
Það að hafa nú verið boðið að fá að skrifa á síðuna er heiður sem ég gríp með báðum höndum eins og léttu skotin frá Mark Duffield á æfingum í gamla daga. Sennilega ratar nafn Liverpool eitthvað inn í pistlana, en þó var nú hugmyndin að halda í einhverjar aðrar áttir líka.
Því útrásina fyrir ástina á Liverpool er að finna á síðunni www.kop.is þar sem ég fæ að blogga um þær tilfinningar.
Ég hlakka til og vonandi lesa einhverjir pistlana...