Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   lau 12. febrúar 2011 12:09
Magnús Þór Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Tippklúbburinn minn
Saumaklúbbar fótboltaspekinganna
Magnús Þór Jónsson
Magnús Þór Jónsson
Skyldi Cole tryggja manni vinning í dag?
Skyldi Cole tryggja manni vinning í dag?
Mynd: Getty Images
Á maður að festa leik hjá liði sem spilar í svona búningi?
Á maður að festa leik hjá liði sem spilar í svona búningi?
Mynd: Getty Images
Vildi að Chesterfield væri oftar á seðlinum, svínvirka alltaf þar!
Vildi að Chesterfield væri oftar á seðlinum, svínvirka alltaf þar!
Mynd: Getty Images
Laugardagsmorgun, styttist í hádegi.

Víðs vegar um Ísland sitja nú hópar sparkspekinga sem eru handvissir að dagurinn í dag sé DAGURINN sem gerir þá ríka. Loksins sé komið að því að öll viskan um boltann, sem sumum (yfirleitt fjölskyldu manns) finnst fullkomlega gagnslaus skili manni nú peningum í kassann.

Að tippa er frábær skemmtun sem kryddar hverja helgi. Það er einfaldlega allt annar fílingur að sjá Cardiff City jafna í blálokin í Doncaster og tryggja manni 11 rétta sem kannski gefa manni 437 krónur í vasann, en miklu meira talið í "Egó-krónum".

Maður stendur upp réttari í bakinu, segir kærustunni drjúgur: "jæja, nú fékk maður vinning". Þegar spurt er um upphæðir er ég með staðlað svar.

"Við erum svo margir í hópnum að ég veit nú ekki alveg hvað það verður, en þetta er allavega að skila!"

Fyrst man ég eftir mér að tippa austur á Héraði. Ákveðinn hópur í skólanum mínum, Alþýðuskólanum á Eiðum, ákváð að reyna að safna peningum fyrir félagsstarfið með sölu getraunaseðla. Þetta var afskaplega merkilegt, ef ég man rétt voru þetta fjórar mismunandi gerðir af blöðum, ein fyrir "einfalda röð" og svo voru seðlar sem voru öðruvísi á litinn sem innihéldu eitthvað kerfi. Langt fyrir daga "opins seðils". Maður varð að vera búinn að svara fyrir hádegi á miðvikudag því þá voru seðlarnir sendir suður með löturpósti. Those were the days maður minn! ´

Ég var áskrifandi Shoot! og Match-blaðanna og fékk ágætis hlutverk þegar kom að litlu liðunum á seðlinum.

Síðan þá hef ég haft þörf fyrir að t.d. lesa um lið eins og Aldershot og Maidstone. Stend alltaf upp í kaffistofunni þegar slík lið villast á seðilinn og læt menn hlusta á þekkinguna mína!

Með tölvukössum og tölvukerfum tók þetta á sig nýja mynd. Hópleikirnir réðu. Fyrsti hópurinn minn samanstóð af mér og Smára Sig á Sigló. Þar stjórnaði Bigga Páls hópleiknum eins og herforingi og við vorum sjaldan í sénsum á stórum vinningum og titlum. Unnum samt Habbó alltaf!

Við Bjössi Gunn urðum hörkulið þegar ég varð ÍR-ingur. Unnum auðvitað hópleikinn árið 2004-2005 en þá breyttu stjórnendur leiksins reglum og alveg sama hvað við reyndum að kæra, þá gekk það ekkert. Eins mikill ÍR-ingur og ég er þá blossa ennþá upp bitrar tilfinningar þegar ég kíki til þeirra í getraunakaffi á laugardagsheimsóknum mínum í bæinn.

Við unnum leikinn og það er ósanngjarnt að taka upp einhverja úrslitakeppni upp eftirá Óli Gylfa!!!

Svo flutti ég vestur á Snæfellsnes og þar hófst sigurgangan. Tipphópurinn minn samanstendur af föstum kjarna sem stýrt er af alræmdum Liverpoolhöfðingja, Atla Alexanders og ljóðskáldinu og kerfissnillingnum Sveinbirni, sem reyndar fjarstýrir hópnum núna alla leið frá Súðavík.

Það verður alveg að viðurkennast að eftir þessi fimm ár sem hópurinn hefur starfað þá erum við ekki alveg búnir að ná í vinningsupphæðir sem koma okkur til útlanda ennþá. En við höldum að við séum að ná því að komast á tveim bílum í Borgarnes!

Það er allavega byrjun! Sérstaklega núna þegar yfirmennirnir eru búnir að taka ákvörðun um nýtt kerfi sem er "aðeins dýrara en alveg pottþétt". Heyrði ég það einhvern tíma áður?

En þó við værum til í að vinna meiri peninga höfum við unnið "VíkingsÓl-titilinn" nokkrum sinnum og yfirleitt náð okkur í ársmiða, nokkra, á völlinn. Sem er nú ekki amalegt!

Við erum klárlega með mikinn virðingarstatus á meðal annarra sparkspekinga hér sem er auðvitað MIKLU MIKILVÆGARA en einhver peningur!

Veturinni í vetur hefur verið erfiður. Ótrúlega öflugt Liverpoolliðið hikstar og erfitt að stóla á einhverja. Síðasta seðil eyðilögðu Burnley. Þar á undan einhver annar. Alltaf vitum við það félagarnir að seðillinn var eins og hann átti að vera, bara einhver "fáránleg úrslit" sem eyðilögðu hann.

Ég pirra mig mest á West Ham þessa dagana, ekkert á þá að stóla! Fyrirgef okkur ekki þá vitleysu að festa Evertonsigur þennan veturinn. Hótaði úrsögn síðast þegar það klikkaði, varð hálf fúll hvað lítið var gert til að reyna að vinna mig til baka.

En svo þegar ég skoða það að í 9 manna hópnum er ég jafn í neðsta sæti í innbyrðiskeppninni og rifja það upp að ég er sá eini í klúbbnum sem hef náð þeim árangri að vera með 0 rétta af 13 þá kannski er það skiljanlegt!

En ég var að skella á Atla, við erum sammála um það að Roy Hodgson vinnur aldrei heimaleik og nú er West Ham að hrökkva svo í gang að Gústi píp og Gylfi Orra brosa hringinn. Við erum klárir á því að sá sigur Hamranna tryggir okkur stóran vinning í dag og við svífum í vinnunni á mánudag!!!

Here's for hoping.......again!
banner
banner