Í bikarnum á allt að geta gerst
Í síðustu viku var dregið í fyrstu tvær umferðir VISA-bikars karla. Verið er að færa bikarkeppnina aftur til vegs og virðingar eftir að vinsældir hennar höfðu dalað mikið og hafa orðið margar mjög jákvæðar breytingar á fyrirkomulagi hennar síðustu ár.
Tilfærsla á úrslitaleiknum ásamt því að undanúrslitin hafa verið færð af Laugardalsvellinum hefur breytt miklu.
Fyrir nokkrum árum var keppnin sniðin fyrir úrvalsdeildarliðin og möguleikinn á að bikarævintýri gæti átt sér stað var lítill sem enginn.
Sem betur fer koma úrvalsdeildarliðin nú inn í 32-liða úrslitum en ekki 16-liða úrslitum eins og fyrir nokkrum árum. Það var ferlegt fyrirkomulag. Það sem gerir bikarkeppni heillandi er að þar eiga minni liðin að geta notið sín. Englendingar hafa vinsælustu bikarkeppni í heiminum og þar er framundan leikur milli utandeildarliðsins Crawley Town og Manchester United um næstu helgi.
Stöð 2 Sport tók við réttinum á bikarkeppninni í fyrra og á stöðin hrós skilið fyrir hvernig stöðin tæklaði keppnina með beinum útsendingum og markaþáttum. Einn af leikjum ársins var viðureign Víkings frá Ólafsvík og Stjörnunnar sem sýndur var í beinni útsendingu frá Ólafsvík. Hefði þessi viðureign farið fram 2009 efast ég um að leikurinn hafi yfir höfuð verið myndaður af sjónvarpsvél.
RÚV hélt að bikarkeppnin myndi hefjast í undanúrslitum en því fer víðs fjarri. KB, 3. deildarlið sem ég tengist mikið, afrekaði það árið 2008 að slá út 1. deildarlið á dramatískan hátt og fékk svo draumadráttinn þar á eftir, KR á KR-velli. Þar var tekið á það ráð að pakka í vörn og treysta á langskot og skyndisóknir.
KR-ingum gekk bölvanlega að brjóta varnarmúrinn á bak aftur þrátt fyrir að vera mjög vel mannaðir, það var þjóðhátíð í vítateig KB eins og Logi Ólafsson orðaði það í viðtali eftir leik. Í stöðunni 0-0 komst KB óvænt inn í vítateig KR, bakvörður KR-inga reyndi að stöðva kantmann andstæðingana en var of seinn í tæklinguna. Klárt brot og víti. KR-ingurinn hélt um andlit sitt enda vissi hann upp á sig sökina. En dómarinn hafði ekki kjark til að flauta. Hann var í flokki C-dómara og taldi líklega að það borgaði sig ekki að ergja KR-inga ef hann ætlaði sér að hækka í stiganum.
Markalaust í hálfleik en KR tókst loks að brjóta múrinn í þeim seinni þegar Björgólfur Takefusa skoraði. Héldu margir að þar myndu flóðgáttirnar opnast en KB hélt sínu striki þrátt fyrir ólýsanlega þungar sóknir KR-inga á köflum. KB fékk þó sín færi og það fór um stuðningsmenn KR stuttu fyrir leikslok þegar langskot KB fór í þverslánna. KR vann 1-0.
Fjallað var um leikinn af blaðamönnum Fréttablaðsins og Fótbolta.net auk þess sem DV gerði bikarævintýrinu góð skil. Sjónvarpsrétthafinn, Ríkissjónvarpið, var þó hvergi sjáanlegur á hvorugum leiknum og heimildir um hann því aðeins til á prenti.
Skiptir máli hvar á landinu liðið er
Bikarkeppnin er öll á réttri leið en það er þó enn einhverjir hlutir við fyrirkomulag hennar sem má bæta. Við skulum líta aðeins í reglugerðir KSÍ. Þar má finna eftirfarandi klausu þegar kemur að bikarkeppninni góðu:
„Í undankeppni taka þátt öll lið nema þau, sem taka þátt í Pepsi-deild. Svæðakeppni skal viðhöfð í undankeppninni og keppni liðanna hagað svo, að 20 lið komist áfram í aðalkeppnina. Skal undankeppni lokið fyrir miðjan júní.“
Auk úrvalsdeildarliðanna tólf eru það 20 lið sem komast í aðalkeppnina, 32-liða úrslitin. Í undankeppninni er drátturinn svæðaskiptur. Það þýðir einfaldlega að lið á Reykjavíkursvæðinu geta ekki dregist gegn liðum fyrir norðan og þar fram eftir götunum.
Í bikarkeppninni eiga allir að geta mætt öllum að mínu mati. Það er eitt af einkennum keppni með þessu fyrirkomulagi. Þitt lið getur mætt stórliði eða utandeildarliði, þetta fer bara allt eftir því hvort lukkan sé í liði með þér. Þegar þú skráir þig til leiks í bikarkeppni áttu að geta átt von á öllu, jafnvel ferðalagi sem tekur meira en klukkustund.
Með því að svæðaskipta undankeppninni sitja nefnilega ekki öll lið við sama borð. Drátturinn í síðustu viku fór þannig að þrjár innbyrðis viðureignir milli liða í 1. deild verða í 2. umferð. Helmingur liðanna í 1. deild á því erfiðan leik fyrir höndum gegn liði í sömu deild og verður að vinna til að komast í 32-liða úrslitin.
KA er eitt af þeim liðum sem slapp við 1. deildarlið í þessum drætti. Staðreyndin er nefnilega sú að KA gat aldrei mætt liði í 1. deild á leið sinni í 32-liða úrslitin heldur aðeins liðum í neðri deildum. Það er nefnilega ekkert annað 1. deildarlið á þeirra svæði. Þar með eiga þeir mun meiri möguleika en 1. deildarlið á höfuðborgarsvæðinu að fá auðveldari leið áfram.
Hægt er að nefna fleiri dæmi en þetta. Það á að vera opinn dráttur í bikarnum, allir eiga að geta mætt öllum. Liðin eiga að sitja við sama borð en ekki hagnast eða tapa á því hvar á landinu þau spila heimaleiki sína. (Staðfest)