Vilhjálmur Pétursson skrifar
Ég man þá tíð þegar maður vaknaði fyrir skóla á mánudagsmorgnum og þurfti að slást um íþróttablaðið í Mogganum til þess að lesa um enska boltann og skoða stöðuna í deildinni. Samt telst ég varla gamall.
Svo kom internetið. Internetið gjörbylti öllu upplýsingaflæði og ekki kvarta fótboltaáhugamenn undan því. Fótbolti.net hefur verið fastur liður í internet-rúntinum síðustu sjö eða átta árin. Ég man eftir því þegar maður fór heim í hádegishléum í sumarvinnunni og skoðaði nýjasta félagsskiptaslúðrið og svo var það rætt í þaula eftir hádegi. Góðir tímar.
Þá kom facebook. Helvítis facebook, sem ég (og eflaust margir aðrir) hata en get ekki lifað án. Facebook er að gera okkur öll að hálfvitum. Við erum mötuð af upplýsingum, bæði sem við höfum gerst áskrifendur að og upplýsingum sem aðrir (facebook „vinir” okkar) vilja endilega troða í okkur. Facebook hefur skapað ákveðið vandamál. Facebook býður fávita velkomna og þeir mega deila öllu því efni sem þeir vilja með vinum sínum.
Ég er haldinn þeim sjúkdómi að halda með Liverpool (Púlisti eins og Daníel vinur minn kallar það) og margir vinir mínir þjást af þeirri andlegu fötlun að halda með öðrum liðum. Flestir þeirra eru ágætir, en því miður eru þarna svartir sauðir. Fólkið sem fagnar ekki sigrum síns liðs eða deila fréttum um sitt lið heldur fagna þeir ósigrum annarra liða, sem er augljóslega óþolandi fyrir mig þessa dagana. Þetta væri allt í lagi ef ég bæri ekki sterkar taugar til Liverpool.
Ég get alveg tekið því þegar ég sé þessar uppfærslur á facebook:
„Rúmlega tveir sólarhringar í Arsenal - Barcelona. 12 þúsund krónur á öruggan 1.”
„Hello! Hello! We are the Busby boys.”
„Suddalegt mark hjá Rooney!“
...og svo framvegis.
Eftirfarandi eru svo dæmi um það sem er að gera mig stjörnuvitlausan:
„finnst annsi hart af liverpool manni að tala um að chelsea sé aðhlátursefni,,,hvar er "sigursælasta" lið englands nuna ?? Liverpool hefur verið aðhlátursefni i mörg ár og ein besta skemmtidagskrá sem er i sjónvarpinu þessa daganna”
„Gary Neville að hætta? Gott að losna við þetta ofmetna gerpi!”
„Hahaha.. Arsenal að skíta á sig gegn Hnjúkaseli!”
Í hvert skipti sem ég verð fyrir þeirri hræðilegu lífsreynslu að lesa komment og færslur eftir svona fótboltaáhugamenn á facebook missi ég smá trú á mannkyninu. Sérstaklega þegar ég les skrif vanvitanna sem kommenta á fréttir um fótbolta eða uppfærslur hjá Sunnudagsmessunni (sem er by the way besti sjónvarpsþátturinn í íslensku sjónvarpi).
Ég held með Liverpool, ég er með facebook, ég fylgist með fótboltafréttum og ég á vini sem halda með öðrum liðum. Þetta skapar hræðileg vandamál fyrir geðheilsu mína.
Lausnir?
1. Ég gæti flutt til Kína, þar sem facebook er bannað.
2. Ég gæti hætt á facebook og hætt að skoða fréttir um fótbolta.
3. Ég gæti slitið sambandi við vini mína sem halda ekki með Liverpool.
4. Ég gæti slitið tilfinningaböndum mínum við Liverpool.
5. Facebook gæti gert kröfu um að fólk þurfi að taka greindarpróf áður en það fær aðgang að facebook og þar með hverfa fávitarnir.
Sjálfur er ég hlynntastur lausn númer 5. Lausn númer 4 er bara ekki inn í myndinni.
Vilhjálmur Pétursson
Lesendur Fótbolta.net geta sent inn sína pistla á netfangið [email protected]. Fullt nafn verður að vera með pistlinum og ekki er verra ef að mynd af pistlahöfundi fylgir með.
Ef pistillinn stenst okkar kröfur verður hann svo birtur hér á síðunni undir „Aðsendir pistlar."