Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
banner
   fim 17. febrúar 2011 09:00
Hörður Snævar Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Umferðarstjórinn Jack Wilshere
Hörður Snævar Jónsson
Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Getty Images
Mynd:
Jack Wilshere var ekki leikmaður sem margir töldu að yrði einn af lykilmönnum Arsenal á þessari leiktíð. En hann er orðinn einn af bestu mönnum liðsins og stjórnar umferðinni á miðjunni ásamt Cesc Fabregas. Hann átti stórkostlegan leik er liðið vann Barcelona í gær og var besti maður Arsenal í leiknum að margra mati.

En hver er þessi Wilshere sem er fæddur árið 1992? Hann gekk í raðir Arsenal árið 2001 þá aðeins níu ára gamall. Hann hóf að leika með unglingaliðum félagsins og þegar hann var 15 ára gamall var hann gerður að fyrirliða hjá U16 ára liði Arsenal.

Þróun hans sem leikmanns hélt svo áfram og fór hann að vekja athygli fyrir vaska framgöngu með U18 ára liði félagsins. Árið 2009 var hann svo mikilvægur hlekkur í U18 liðinu sem vann FA Youth Cup sem er afar virt keppni í Englandi.

Tímabilið 2008/2009 var hann í aðalliðshópi Arsenal og í september 2008 varð hann yngsti leikmaður i sögu Arsenal til að spila í keppnisleik. Hann kom inná í sex mínútur gegn Blackburn þá 16 ára og 256 daga gamall. Hann sló þar með met Cesc Fabregas fyrirliða liðsins. Fyrsta mark hans kom svo tíu dögum síðar í deildabikarnum gegn Sheffield United.

Næsta tímabil var Wilshere aftur í hóp Wenger en tækifærin voru fá og úr varð að hann var lánaður til Bolton í janúar sem er eftir á að hyggja það besta sem gat komið fyrir hann. Hjá Owen Coyle varð hann lykilmaður og fékk þar dýrmæta reynslu til að þróa leiki sinn.

Wilshere spilaði 14 leiki fyrir Bolton og skoraði eitt mark. Hann snéri svo aftur til Arsenal um sumarið og Wenger var ekki á því að lána Wilshere aftur enda hafði hann séð hvers megnugur hann var hjá Bolton og taldi sig geta notað þennan enska miðjumann.

Það áttu ekki margir von á því að hann færi að spila jafn stórt hlutverk og hann hefur gert en hann hefur orðið betri með hverjum leiknum. Hann er orðinn fyrsti kostur Wenger sem djúpur miðjumaður og Wilshere hefur sýnt mikið hugrekki með að standast álagið jafnvel og hann hefur gert.

Hann er góður að vinna boltann og góður að skila honum af sér, hann er góður sendingarmaður og óhræddur við andstæðinga sína þrátt fyrir að vera ekki hár í loftinu.

Hann byrjaði sinn fyrsta landsleik fyrir England gegn Dönum í síðustu viku og þar sást greinilega að hann er framtíðarmaður í landsliðinu. Spurning hvort hann verði í liðinu þegar allir verða heilir en það mun tíminn leiða í ljós.

Wilshere átti svo líklega sinn besta leik fyrir Arsenal í gær er liðið mætti Barcelona sem margir telja hafa besta lið Evrópu um þessar mundir. Arsenal vann 2-1 sigur og var það frammistaða Wilshere sem vakti athygli flestra. 19 ára gamall átti hann í fullu tréi við Andres Iniesta og Xavi sem eru meðal bestu miðjumanna heims.

Ef hann heldur rétt á spöðunum er nokkuð ljóst að Wilshere verður kominn á stall þeirra allra bestu eftir nokkur ár.
banner
banner
banner