Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   fim 24. febrúar 2011 08:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Miðja án meistaratakta
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Ekki lengur ungur og efnilegur.
Ekki lengur ungur og efnilegur.
Mynd: Getty Images
Hver tekur við hlutverki Scholes þegar hann fer?
Hver tekur við hlutverki Scholes þegar hann fer?
Mynd: Getty Images
Manchester United trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir að flestir séu á því að liðið hafi leikið undir getu í vetur. Liðið mallar áfram sem vél og halar inn stigum en skemmtanagildi þess er með allra minnsta móti miðað við undanfarin ár og áratugi.

Didier Deschamps hitti naglann á höfuðið á blaðamannafundi fyrir einvígi Marseille og United. Hann sagði að af United væri mun minni stjörnuljómi en áður. Hann lét þó fylgja að liðið væri vissulega mjög erfitt viðureignar. Staðreyndin er sú að úrval leikmanna sem krakkar vilja hafa myndir af upp á vegg er með minnsta móti á Old Trafford um þessar mundir.

Stórstjörnur eins og Carlos Tevez og Cristiano Ronaldo hafa horfið á braut síðustu ár og í staðinn mætt menn eins og Gabriel Obertan og Bébé. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera á vellinum þegar Obertan lék sinn fyrsta leik á Old Trafford. Hann fékk boltann á miðjum vellinum stuttu eftir að hann kom inn á og tók af skeið... skyndilega flaggaði annar aðstoðardómarinn. Obertan hafði hlaupið með boltann beint útaf vellinum óáreittur. Obertan í hnotskurn.

Byrjunarlið Man Utd er gríðarlega sterkt en breiddin alls ekki nægilega góð eins og sást síðast í bikarleiknum gegn utandeildarliðinu Crawley. Mennirnir sem eru við byrjunarliðið fengu tækifæri til að sanna sig en eina sem þeir sönnuðu eru að þeir eru ekki nægilega góðir til að klæðast búningi félagsins.

Hefðin er svo sannarlega til staðar á Old Trafford og þar þekkja menn varla annað en sigur. Man Utd er með besta stjóra heims, ómetanlegan markvörð, einn allra besta varnarmann heims í Vidic, góða bakverði, hættulega kantmenn í Nani og Valencia, markahæsta leikmann úrvalsdeildarinnar og mikla reynslu. En hvað með miðjuna?

Arftaki Scholes ekki fundinn
Langbesti miðjumaður liðsins verður 37 ára á árinu og getur varla spilað heilan leik í dag. Það er eitthvað rangt við það hjá sigursælasta félagi Englands undanfarna áratugi. Paul Scholes er farinn að láta á sjá, áður fyrr taldi maður eina ókost hans að hann kann ekki að tækla en nú er aldurinn farinn að segja til sín.

Í leiknum gegn Marseille í gær voru það Michael Carrick, Darren Fletcher og Darron Gibson sem skipuðu miðjuna. Þegar Scholes var kallaður til hefðu þeir allir geta farið af velli miðað við frammistöðuna. Hellingur af misheppnuðum sendingum og töpuðum boltum. Þeir voru ekki að ná að skila boltanum frá sér.

Carrick virðist vera að nálgast á endastöð á sínum ferli hjá félaginu miðað við hvernig hann hefur leikið í vetur. Hefur afskaplega lítið fram að færa í sóknarleiknum þar sem hann leitar alltaf til baka. Ef hann á að virka verður hann að spila með sóknarsinnuðum miðjumanni með sér. Fletcher fer ekki í þann flokk. Fletcher hefur reynst United vel en býr ekki yfir nægilega miklum gæðum til að vera miðjumaður númer eitt.

Darron Gibson ætti að flokkast sem C-leikmaður í Excel-skjali Sir Alex. Sem betur fer eru flestir farnir að átta sig á því að hann er aldrei að fara að fylla skarð Scholes því hann er löngu hættur að vera efnilegur. Hann verður 24 ára á árinu, þreytti frumraun sína fyrir United fyrir fimm árum. Hann hefur lítið fram að færa þó hann nái af og til að þrusunegla boltanum í markið. Þess utan er hann nánast bara fyrir. Hann hefur fengið of mörg tækifæri á þessu tímabili, kannski helst því úrvalið er ekki mikið. Sagan er bara þannig að þegar hann byrjar er hann tekinn af velli snemma í seinni hálfleik eða jafnvel fyrr.

Svo er það blessaður Anderson. Þessi dúllulegi Brasilíumaður getur sýnt heimsklassatilþrif en maður veit aldrei við hverju má búast við frá honum. Hann er alltof misjafn, stundum er hann meðal bestu manna á vellinum, stundum er hann lélegastur.

Liðinu sárvantar afgerandi miðjumann í heimsklassa. Hann verður liðið að eignast við fyrsta tækifæri... sem er í sumar. Það er efni í annan pistil að telja upp hugsanlega kosti fyrir Man Utd en ég trúi ekki öðru en að Sir Alex nagi sig í handarbökin yfir því að hafa sofið á verðinum þegar Rafael van der Vaart skráði sig í þjónustu Tottenham.

Svo ég endi þennan pistil á jákvæðum hlut fyrir aðdáendur Manchester United: Hrikalega var Chris Smalling öflugur í gær.
banner
banner
banner