Björn Már Ólafsson skrifar
Nicola Legrottaglie er ekki frægasta nafnið í ítalska boltanum. Áhugaverðari karakter er þó erfitt að finna og saga hans er nokkuð einstök fyrir atvinnumann í knattspyrnu. Hún minnir á kvikmynd þar sem söguhetjan upplifir velgengni, erfiðleika og loks velgengni á ný eftir að hafa “fundið sjálfan sig”. Eftir mikla erfiðleika fann Legrottaglie ekki bara sjálfan sig heldur Guð. Byrjum á byrjuninni.
Ein helsta ástæðan fyrir velgengni Chievo árið 2001 var frammistaða Legrottaglie í vörn liðsins. Við hlið hans lék fyrst hinn ágæti Salvatore Lanna og síðar hinn ungi ungur Andrea Barzagli (núverandi leikmaður Juventus) og áttu Legrottaglie og Barzagli báðir eftir að leika landsleiki fyrir Ítalíu (auk þess sem Barzagli varð heimsmeistari 2006).
Eftir því sem frægðin jókst og aðdáendurnir urðu fleiri fór Legrottaglie að leika verr og verr. Hann hafði verið kosinn fallegasti leikmaður deildarinnar og segir sjálfur um þetta tímabil í lífi sínu að hann hafi verið með nýrri stúlku á hverju kvöldi. Slíkt hlýtur að hafa áhrif á einbeitingu leikmanns og leyfi ég mér að segja að Tiger Woods sé í þessu tilviki undantekningin sem sannar regluna.
Legrottaglie var þó keyptur til Juventus eftir að mörg félög höfðu verið á eftir honum. Ekki fór egó leikmannsins minnkandi við það og hélt hann áfram í sínu persónulega “Tour de fisse”. Árangur hans hjá Juventus á þessum tíma bar þess augljós ummerki. Hann stóð engan veginn undir væntingum hjá Túrinarliðinu og við tók tveggja ára dvöl á láni, fyrst hjá Bologna og síðar Siena.
Hjá Siena urðu hins vegar kaflaskil í lífi hans. Hann kynntist öðrum leikmanni sem einnig var á láni frá Juventus, Thomas Guzman. Guzman þessi hefur átt stuttar dvalir hjá nokkrum ágætum liðum á Ítalíu en leikur nú í Serie-B að ég held. Guzman hafði átt við svipuð vandamál að stríða og Legrottaglie en hafði komist í gegnum þau með hjálp Guðs. Legrottaglie var orðinn örvæntingarfullur því ferill hans var á hraðri niðurleið og fór að kynna sér hina kaþólsku trú af fullum krafti. Áhrifin létu ekki standa á sér á knattspyrnuvellinum.
Hann fór að leika betur og svo virtist sem hann hefði gott af því að lifa skírlífi. Hann fékk að koma aftur til Juventus þegar félagið var dæmt niður um deild og var hann einn þátttakenda í átakinu að koma liðinu upp aftur undir stjórn Deschamps. Hann er einn helsti talsmaður trúarlegra skoðana meðal knattspyrnumanna (aðrir sem hægt er að nefna í snatri eru Pato, Kaká og Tim Howard) og hefur hann fagnað mörkum með því að sýna nærbol sinn með áletruninni “Gesu vive” eða “Jesú lifir”.
Þegar nafn hans er youtube-að býst maður við því að sjá myndbönd af honum leika listir sínar á knattspyrnuvellinum en þess í stað koma ógrynni af viðtölum við hann á ítölskum trúarsjónvarpsstöðum. Einnig er þar myndband úr týpískum ítölskum spjallþætti þar sem þáttastjórnandinn kemur honum að óvörum, því allt í einu birtist kjöltudansmær sem gaf Legrottaglie meðferð sem hann gleymir líkast til seint. Slíkt hlýtur að skapa vandamál hjá manni sem hefur lifað skírlífi í um 4 ár. Hann hefur einnig reitt marga til reiði á Ítalíu vegna neikvæðra ummæla í garð samkynhneigðra.
Hjá Juventus var Legrottaglie í fyrra orðinn þriðji miðvörður á eftir þeim bráðefnilegu Chiellini og Bonucci. Eftir komu Andrea Barzagli nú í janúar færði hann sig um set yfir í elliheimilið í AC Milan. Legrottaglie er 34 ára sem þýðir að hann á um 6 ár eftir á hæsta leveli hjá Milan, lágmark! Saga ferils hans er gleðisaga því mjög margir leikmenn sem eyðileggja fyrir sjálfum sér með þeim hætti sem Legrottaglie gerði, finna enga leið tilbaka, en með dyggri aðstoð er allt hægt.