Um helgina var komið að fyrsta KSÍ starfinu í dómgæslunni hjá mér á árinu 2011.
Ég ætla nú ekki að eyða miklu púðri í pistlunum mínum í dómarastörf, þar eru hæfari pennar sem sjá um útskýringar og vafapælingar.
Ég ætla nú ekki að eyða miklu púðri í pistlunum mínum í dómarastörf, þar eru hæfari pennar sem sjá um útskýringar og vafapælingar.
En óneitanlega tengist þetta starf mitt um helgina aðeins þeirri pælingu sem ég ætla að velta upp í þessum pistli mínum. Ég var að dæma leik Árborgar og Víðis í Lengjubikarnum og leikurinn var upphaflega settur á tiltölulega nýlagðan gervigrasvöll á Selfossi. Ég fékk svo upplýsingar um það að leikurinn hefði verið færður inn í Reykjaneshöllina og þar fór hann fram á laugardag.
Á leið minni frá leiknum og heim rann aðeins í gegnum hausinn á mér þær breytingar sem oft hefur verið rætt um hjá fótboltamönnum á Íslandi. Ég er nógu gamall til að hafa náð að spila allmarga leiki á fyrsta gervigrasvellinum hér, sundlaugarteppinu í Laugardalnum og þaðan eru margar skemmtilegar minningar.
En þó fæstar tengdar aðstæðunum. Mér finnst ég hafa spilað flesta leikina í skítakulda og vanalega tvo til þrjá daga að ná mér í skrokknum. Vissulega tengdist það að einhverju leyti þeirri staðreynd að minn knattspyrnuferill var í markinu og þar henti maður sér jú á jörðina annað slagið!
Í Reykjaneshöllinni er nú frábær gervigrasvöllur, eins og í hinum höllunum sem leikið er í hérlendis núna og þó að hallirnar séu misjafnar þegar kemur að upphitun húsanna (maður er alltaf einstaklega SVALUR á Skaganum) þá kemst það ekki nálægt þeim kulda sem ræður oft ríkjum á landinu okkar og hefur t.d. verið ansi ríkjandi nú í vetur.
Spurningin verður alltaf sú sama, eru hallirnar að skila okkur nægilegum árangri?
Þá kemur spurningin á móti. Hver er mælikvarðinn?
Árangur A-landsliðs karla? Hann er ekki betri en oft áður.
Árangur A-landsliðs kvenna? Klárlega betri en áður.
Árangur yngri landsliða? Vissulega U-21 að ná langt en við höfum á stundum náð lengra með okkar U-19 og U-17 ára lið en við gerum nú. Sérstaklega hjá konunum.
Fjöldi atvinnumanna? Við erum með mun fleiri atvinnumenn en "fyrir hallir" en á móti erum við ekki með marga sem hafa náð jafn langt og Ásgeir, Arnór, Atli, Pétur og Eiður sem allir eru "fyrir hallir" á Íslandi.
Ég er samt á þeirri skoðun að leyndur þáttur skipti mestu máli þegar kemur að fjölgun innanhússknattspyrnuhalla. Gæði þjálfunar á Íslandi hefur aukist, því satt að segja þá þarf frjórri haus á þjálfara sem fær tíma í logni við bestu aðstæður lungann úr árinu heldur en þegar maður berst í roki og snjó, jafnvel á óupphituðum velli. Trúið mér, ég hef verið í báðum hlutverkum.
Þetta tel ég vera eina aðalástæðu þess að við erum að sjá tæknilega betri lið, gegnumgangandi í gegnum allar deildirnar á Íslandi. Sennilega er mestan muninn að finna í því. Það eru stöðugt fleiri lið á Íslandi sem leggja upp úr því að láta boltann ganga á milli manna og að halda bolta.
Það var lítið um slíkt í t.d. 2.deildinni 2004 en var allt annað að sjá í fyrrasumar.
Það held ég að sé afleiðing þess að bættar aðstæður hafa kallað á bætingu þjálfarastéttarinnar í allar áttir, hjá báðum kynjum og frá yngstu flokkum og uppúr.
Ég held að hallirnar eigi þátt í öllu jákvæðu sem verður í íslenskum fótbolta og hlakka mikið til að sjá til þeirra leikmanna sem koma upp í meistaraflokka en eru vanir að æfa við bestu aðstæður allt árið frá unga aldri til fullorðinsára. Þá sjáum við held ég best hvað slík þjálfun skilar fyrir íslenskan bolta, að öllum líkindum sáum við fyrstu merkin í fyrra með sigri Breiðabliks í efstu deild karla.