Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   fös 18. mars 2011 08:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fabinho hinn fjölhæfi
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Mynd: Getty Images
Það er stuð í brasilíska boltanum.
Það er stuð í brasilíska boltanum.
Mynd: Getty Images
„hello good afternoon mr magnusson“

Á þennan eða svipaðan hátt byrja fjölmargir póstar sem má finna í tölvupósthólfi mínu. Allir þessir póstar eru frá brasilíska leikmanninum Fabinho Atleta De Cristo. Ég gat ekki annað en hugsað til vinar míns Fabinho þegar ég las þennan góða pistil frá Magga sem birtist hér á síðunni á miðvikudag.

Þannig er mál með vexti að ég sit í stjórn hjá liði KB sem leikur í 3. deildinni og flokkast sem varalið Leiknis í Breiðholti. Reglulega fæ ég tölvupósta frá leikmönnum sem lýsa yfir áhuga á að koma til Íslands og spila fyrir KB. Nokkuð skondið í ljósi þess að hjá KB tíðkast að leikmenn borgi æfingagjöld og lágmarkskröfur eru settar varðandi æfingasókn.

Fyrir tæplega þremur árum fékk ég póst frá Fabinho, reynslumiklum sóknarmanni sem var til í að halda á vit ævintýranna í Breiðholti á Íslandi. Hann sendi mér ferilskrá sem innihélt fjöldamörg mörk í neðri deildum Brasilíu, deildum sem ómögulegt er að finna upplýsingar um á netinu. Ég brosti út í annað þegar ég sá þennan póst og lét vera að svara honum... í nokkra daga.

Boltinn byrjaði að rúlla þegar ég sýndi félaga mínum póstinn. Við ákváðum að kynna okkur þennan leikmann betur, ekki vegna þess að ég taldi það raunhæft að fá hann til KB heldur aðallega því við höfðum bara ekkert betra að gera þessa stundina. Allt gert í gríni. Til að fá meira upp úr Fabinho þóttist ég hafa mikinn áhuga á að fá hann til liðsins (jájá ekki mjög fallega gert, veit það).

Þetta útspil mitt voru stór mistök. Eftir þetta fóru að hrannast til mín tölvupóstar og leikmaðurinn hafði upp á notendanafni mínu á spjallforritum. Ég reyndi að gera honum ljóst að áhuginn væri ekki til staðar en án árangurs. Allskonar karakterar og persónur fóru að dúkka upp en til að gera mjög langa sögu stutta má nefna að bróðir leikmannsins, besti vinur hans og svo umboðsmaðurinn geðþekki Wallace Diniz settu sig allir í samband við mig. Það má fylgja sögunni að þessi „virti“ umboðsmaður er með tölvupóstinn sinn hjá gmail.

Viðskiptamaðurinn í Sao Paulo
Áfram hélt þetta leikrit í marga mánuði og sama hvað ég lét það vera að svara okkar manni og hans félögum var ekkert sem benti til þess að uppgjöf væri framundan. Morgunljóst var að Fabinho þráði ekkert heitar en að koma til Íslands að spila. Hann fór ekki fram á nema nokkur hundruð þúsund krónur á mánuði, flug fram og til baka og íbúð með interneti.

Fyrir nokkrum vikum ákvað ég að reyna að binda enda á þetta bíó með öðrum hætti en þögninni. Ég svaraði honum á spjallforriti og sagði að lið mitt væri gríðarlega vel mannað í framlínunni og það væri mat þjálfarans að engu þyrfti þar við að bæta fyrir tímabilið. Eftir dálitla stund kom svo svarið frá Fabinho þar sem hann tilkynnti að hann gæti einnig leikið sem miðjumaður og vinstri bakvörður!

Hann sagði svo að hann væri til í að lækka launakröfur sínar. Ég sagði honum þá að KB gæti samt með engu móti borgað undir hann. Ekki var hann mikið að æsa sig yfir því og sagðist tilbúinn að koma til landsins og hann myndi sýna félaginu skilning meðan það væri að reyna að finna leiðir til að borga honum laun. Ég sagði honum að þær leiðir myndu ekkert finnast og ég væri búinn að gefa þetta upp á bátinn.

Það var svo í síðustu viku sem Fabinho kom með gleðifréttir til mín. Hann tilkynnti að hann væri búinn að finna viðskiptamann í Sao Paulo sem væri tilbúinn að borga launin hans. Því þurfi KB ekkert að greiða honum í laun heldur aðeins borga fyrir hann flugið til Íslands og redda honum íbúð með interneti.

Áhugasöm félög sem eru í leit að sóknarmanni, miðjumanni eða vinstri bakverði geta sent mér tölvupóst og ég skal með glöðu geði koma þeim í samband við Fabinho.
banner
banner
banner