Sigurður Ragnar Eyjólfsson skrifar
Hvað kennum við leikmönnunum okkar og hvenær kennum við þeim það?
Orðin hér að ofan eru það síðasta sem hljómar í búningsklefa A-landsliðs kvenna áður en leikmenn liðsins halda út á völl að spila landsleik fyrir Íslands hönd. Leikmennirnir koma saman í hring, þjálfarinn segir nokkur vel valin orð og svo er þetta heróp öskrað af lífs og sálar kröftum. Mig minnir að leikmenn hafi valið þetta heróp sjálfar þegar ég tók við kvennalandsliðinu en þó er ég ekki viss. Ég gæti átt sökina á því sjálfur.
Orðin hér að ofan eru það síðasta sem hljómar í búningsklefa A-landsliðs kvenna áður en leikmenn liðsins halda út á völl að spila landsleik fyrir Íslands hönd. Leikmennirnir koma saman í hring, þjálfarinn segir nokkur vel valin orð og svo er þetta heróp öskrað af lífs og sálar kröftum. Mig minnir að leikmenn hafi valið þetta heróp sjálfar þegar ég tók við kvennalandsliðinu en þó er ég ekki viss. Ég gæti átt sökina á því sjálfur.
Fyrir stuttu var ég svo staddur í Kórnum og sá leik á milli FH og Breiðabliks í 5.flokki kvenna. Fyrir leikinn komu stelpurnar í FH saman í hring úti á vellinum og öskruðu: „Berjast FH berjast!“. Það fékk mig til að hugsa um hvað við kennum leikmönnunum okkar og hvenær við kennum þeim það.
Ég held að það sé ríkt í okkur Íslendingum að berjast fyrir okkar. Þannig hefur A-landslið karla í gegnum tíðina oft verið skipað miklum baráttujöxlum sem gáfust aldrei upp. Eitt af einkennum íslenskra knattspyrnumanna og knattspyrnukvenna að mínu mati hefur verið dugnaður, eljusemi og barátta. Það hefur skilað okkur visst langt. En þegar ég fer að hugsa það, þá eru bestu leikmenn í heimi og bestu landslið í heimi nákvæmlega eins, þau gefast aldrei upp og þau berjast líka fyrir sínu. Ég hef aldrei séð Barcelona eða landslið Spánar gefast upp eða ekki berjast fyrir sínu. Hvað hafa þessi lið þá fram yfir okkur? Svarið er tæknileg geta leikmanna.
Hvað meina ég með tæknilegri getu? Jú, það eru eiginleikar eins og sendingageta á ferð og undir pressu frá mótherja, móttaka á ferð og undir pressu frá mótherja, spyrnutækni með hægri og vinstri fæti í kyrrstöðu og á ferð, hárnákvæmar sendingar á réttum tíma í réttan fót með réttum snúningi eða í rétt svæði á réttu augnabliki, gabbhreyfingar og hraðar fótahreyfingar á þröngu svæði, hæfileikinn að ráða við að rekja boltann á mikilli ferð undir pressu frá mótherja, getan til að skýla boltanum undir pressu og halda bolta innan liðsins, að missa ekki sífellt boltann, skottækni (eins og við sáum þegar Ronaldo skoraði úr aukaspyrnu á móti okkur á 3. mín) o.s.frv.
Ef við ætlum að vera samkeppnisfær við bestu liðin í framtíðinni, hvort sem er karla- eða kvennamegin þurfum við að þróa þessa hæfileika hjá leikmönnunum okkar. Rannsóknir og reynsla hafa sýnt okkur að besti aldurinn til að læra tæknilega færni er á aldrinum 8-12 ára plús/mínus 1-2 ár en tækninni þarf svo að viðhalda áfram eftir það. Við vitum ekki þegar börn eru 8-12 ára hvort þau komast í meistaraflokk eða landslið, hvort þau hætti í fótbolta eða verði frábærir leikmenn. Fyrir fámenna þjóð eins og Ísland sem hefur aðeins 20.000 leikmenn hlýtur galdurinn að liggja í því að stórauka tæknilega færni hjá öllum leikmönnunum okkar, ekki bara þeim sem við höldum að skari framúr seinna meir eða eru endilega best þegar þau eru ung. Hvort sem leikmennirnir okkar munu skara framúr 5-6 ára eins og Kolbeinn Sigþórsson eða ekki fyrr en 19-20 ára eins og Alfreð Finnbogason þá þarf framtíð íslenskrar knattspyrnu að liggja í því að búa til fleiri tæknilega góða leikmenn. Betri tæknileg geta leikmanna mun auka hraða og gæði í deildunum okkar, yngri flokkunum okkar og í landsliðunum okkar og fótboltinn verður skemmtilegri fyrir áhorfendur, betri árangur mun nást á öllum stigum fótboltans. Tækni er undirstaða knattspyrnunnar. Tækni er fegurð íþróttarinnar okkar.
Knattspyrnusamband Íslands mun á næstu vikum gefa út DVD disk sem heitir Tækniskóli KSÍ. Hann er gefinn út í 20.000 eintökum og verður færður öllum börnum og unglingum sem æfa knattspyrnu á Íslandi að gjöf. Með því vill Knattspyrnusamband Íslands leggja sitt af mörkum til að efla tæknilega færni leikmanna á Íslandi. Diskurinn er stútfullur af tækniæfingum og góðum ráðum frá leikmönnum í A-landsliði karla og kvenna. Með þessu framtaki vill KSÍ hafa áhrif á næstu kynslóð knattspyrnufólks á Íslandi og undirstrika áhersluna sem við viljum leggja á tækniþjálfun. Ætlunin er að landsliðsmenn, landsliðskonur og landsliðsþjálfarar heimsæki félögin og færi börnunum og unglingunum þennan disk.
Ég mun ekki breyta herópi kvennalandsliðsins fyrir landsleiki. Að berjast er eitt af þjóðareinkennum okkar og við viljum sjá það endurspeglast í öllum leikjum landsliða okkar. Ágætur maður sagði einu sinni við mig að það er bara hægt að berjast þegar maður er í vörn. En hvað ætlarðu svo að gera við boltann loksins þegar þú ert búinn að ná honum? Þá geturðu ekki barist lengur heldur verður að nýta þá tæknilegu getu sem þú hefur til að koma boltanum í markið hinum megin. Það er einmitt sá hluti leiksins sem þjálfarar og félög landsins þurfa að sameinast um að bæta.
Mig dreymir um að eftir 5-10 ár verði herópið okkar öskrað af landsliðsfólki Íslands sem berjist fyrir hönd þjóðarinnar með dugnaði, eljusemi og gefist aldrei upp en hafi líka tæknilega getu á við bestu landsliðin. Mig dreymir um að næsta kynslóð knattspyrnumanna og knattspyrnukvenna frá Íslandi verði þekkt fyrir að vera tæknilega framúrskarandi og brjóti þannig múra sem við höfum ekki komist í gegnum ennþá. Það er hlutverk okkar kynslóðar að gefa þeim réttu verkfærin til þess. Sjáumst svo á næstu tækniæfingu.
Berjast Ísland berjast!
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ og þjálfari A-landsliðs kvenna