Mánaðarmótin mars-apríl. Þetta árið verður það helsta að frétta hjá mér að ég fer að dæma leik um helgina, en svoleiðis var það nú ekki í langan tíma.
Þegar ég klæddist þjálfaraúlpunni voru þessi mánaðamót yfirleitt þau þar sem maður fann aukinn hnút í maganum. Grasið aðeins farið að dökkna, fimm mánaða undirbúningstímabil að baki og maður einhvern veginn farinn að átta sig á styrkleikunum, sem mann langar til að vinna með.
En kannski ekki síður að sjá veikleika sem stöðugt styttri tími er til að laga.
Ég held að íslenska undirbúningstímabilið kalli á aðra tegund þjálfara heldur en þar sem leiktímabilið er 3/4 af starfi þjálfarans. Á Íslandi má segja að "alvöru" tímabilið standi í mesta lagi helminginn af starfinu. Það þýðir að við höfum lengri tíma til að kenna, en stundum má líka búast við að einbeiting leikmannanna sé styttri en hjá öðrum þjóðum.
Auðvitað hafa vetrarmótin verið gerð öflugri, en þau eru alltaf æfingamót fyrir Íslandsmót og bikarkeppni.
Það sem ég hef séð af boltanum finnst mér benda til þess að liðin séu einbeittari í vetrarleikjunum en oft áður, vonandi skilar það sér svo inn í sumarið fyrir okkur sem fylgjumst með. Endalaust er hægt að finna lið sem lítur vel út á undirbúningstímabili og svo illa á leiktímabili og svo öfugt. En mér finnst þó minna um það en áður.
Leikaðferðir hafa verið fínpússaðar og nú eru komnar fastmótaðar hugmyndir fyrr um leikskipulag og leikstíl. Frá 1.apríl fram að 15.maí er svo leikmannamarkaðurinn á fleygiferð þar sem í flestum tilvikum "minni" liðin fara að eltast við þá leikmenn sem ekki eru inni í plönum "stærri" liðanna. Þeir leikmenn hafa oft skipt sköpum fyrir sín nýju lið og ég er sannfærður um að við sjáum slík tilvik í ár, þar sem það fjölgar stöðugt leikmönnum sem halda dampi þó að þeir séu ekki í byrjunarliðum sinna liða.
Svo á morgun byrjar apríl og þá greinir maður önnur hljóð hjá þeim vinum mínum sem ennþá eru "löglegir" í þjálfaraúlpunum. Jafn mikið og ég sakna þess stundum að vinna sem þjálfari öflugra knattspyrnumanna og/eða knattspyrnukvenna þá viðurkenni ég alveg að hnúturinn í maganum á vorin er eitthvað sem ágætt er að vera laus við!