Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   fös 01. apríl 2011 11:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Jákvæður hausverkur þjálfarans
Allir þurfa að vera á tánum fyrir EM
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Eyjólfur Sverrisson.
Eyjólfur Sverrisson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Eyjólfur Sverrisson þjálfari U21-landsliðsins þarf að glíma við jákvæðan hausverk fram að fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í Danmörku í sumar. Þessi vonarkynslóð íslenska fótboltans inniheldur ótrúlega mikið magn af flottum fótboltamönnum og ekkert grín að velja á milli manna.

Þessi mikla breidd og samkeppnin sem er innan liðsins gerir það að verkum að hver einasti leikmaður sem á möguleika á að vera í lokahópnum þarf að vera á tánum fram að móti.

Mitt mat er að í raun séu það bara tveir leikmenn sem algjörlega sé hægt að bóka í byrjunarliðið; Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson. Kolbeinn Sigþórsson, Hjörtur Logi Valgarðsson, Bjarni Þór Viðarsson fyrirliði og Eggert Gunnþór Jónsson ættu einnig að eiga nokkuð öruggt sæti en annað er spurningamerki.

Síðustu vikur hef ég oft velt fyrir mér hvert sterkasta byrjunarliðið sé og jafn oft hef ég skipt um skoðun. Síðustu leikir og frammistaða leikmanna í þeim gerði það að verkum að samkeppnin jókst enn frekar og ljóst að íslenski bekkurinn verður öflugur í sumar, skipaður mönnum sem verða meira en tilbúnir þegar kallið kemur.

Að vera sonur föður síns
Það er orðið nokkuð ljóst að Eyjólfur hugsar Harald Björnsson sem aðalmarkvörð og í hópnum verða Arnar Darri og Óskar Péturs. Haraldur hefur verið flottur í vetur og eins og fleiri leikmenn í U21-landsliðinu greinilega lagt mikið á sig til að vinna samkeppnina um stöðu í liðinu. Miðað við frammistöðu í vetur tel ég að Ögmundur Kristinsson eigi að vera einn af þeim þremur markvörðum sem fara með út.

Jón Guðni Fjóluson hefur ekki spilað síðustu leiki vegna meiðsla. Í mínu liði væri hann alltaf í hjarta varnarinnar en erfiðara er að velja þann sem ætti að víkja. Hólmar Örn Eyjólfsson er mjög öflugur leikmaður en það vinnur gegn honum að hann er líklega sá eini í hópnum sem er ekki að fara að spila alvöru bolta fram að mótinu (fyrir utan Arnar Darra markvörð).

Ef Eyjólfur lætur Hólmar byrja má búast við því að einhverjir gagnrýni það að hann velji son sinn en staðreyndin er sú að hann kemur alveg eins vel til greina og hver annar í hópnum. Hólmar á allavega ekki að líða fyrir að vera sonur föður síns.

Ég ætla ekki að leggja mitt mat á hvaða byrjunarlið væri best heldur leyfi Eyjólfi algjörlega að glíma við þann hausverk. Þar að auki verð ég örugglega búinn að skipta um skoðun á morgun.

Sterkir leikmenn heima
Í öllum öðrum árgöngum væru leikmenn eins og Aron Jóhannsson, Kristinn Steindórsson og Almarr Ormarsson byrjunarliðsmenn í U21-landsliðinu. Allt mjög flottir leikmenn og sú staðreynd hversu góðir leikmenn eiga á hættu að vera skildir eftir heima sýnir styrk þessarar vonarkynslóðar.

Hugarfarið og hvernig þessi hópur fer gíraður í leiki er efni í annan pistil. Þarna eru menn fullir sjálfstrausts og fara í alla leiki til að vinna þá. Eitthvað sem virðist oft vanta hjá A-landsliðinu þar sem maður skynjar í viðtölum eftir leiki að menn hafi aldrei búist við öðru en að fara tómhentir frá borði.

Lýk þessum pistli á athyglisverðri hugmynd sem ég heyrði frá manni um daginn. Vissulega illframkvæmanleg og hefur ýmsa ókosti en ég hef svo sem alveg heyrt verri hugmyndir. Læt hana fylgja til gamans.

Íslenska U21-landsliðið á fyrsta leik á EM 11. júní og var leikurinn gegn Englandi í byrjun vikunnar síðasti undirbúningsleikur liðsins fyrir mótið. Hugmyndin hljóðar upp á að A-landsleikur Íslands og Danmerkur verði notaður fyrir U21-landsliðið sem æfingaleikur fyrir EM í ljósi þess að A-liðið á enga möguleika á því að fara áfram úr sínum riðli.

Of mörgum yrði sýnd óvirðing svo þetta yrði framkvæmt en skemmtileg pæling. Fótbolti er jú skemmtun.
banner
banner
banner
banner