Patrice Evra braut augljóslega á Ramires fyrir tæpri viku síðan umkringdur af dómurum í gríðarlega mikilvægum fótboltaleik. Þrátt fyrir auglýsingaherferð þar sem áhorfendum er tilkynnt af Pierluigi Collina að nú sjái dómararnir meira var ekkert dæmt.
Þetta fimm dómara kerfi sem notað er í Evrópukeppnunum fer í taugarnar á mér. Vissulega verður að teljast líklegt að þessir endalínudómarar, sem ég kýs að kalla sprotadómara, hafi gert ágætis gagn í einhverjum leikjum.
En ég tel að þegar heildarmyndin sé skoðuð sé það svo lítilvægt að það taki því ekki að vera með alla þessa dómara. Ég hef horft á leiki þar sem ég get nánast fullyrt að þessir sprotadómarar hafi ekki þurft að taka eina ákvörðun allan leikinn.
Vafaatriðin eru enn til staðar eins og dæmið með Evra í síðustu viku sýnir skýrt. Jermain Defoe gat lagt boltann fyrir sig með hendi í forkeppni Meistaradeildarinnar án þess að nokkuð var gert og svo mætti áfram telja. Dómarar gera auðvitað mistök en það þarf ekki fleiri til að gera þau.
Eykur það ekki bara pressuna á dómarana að taka réttar ákvarðanir með því að hrúga inn öllum þessum dómurum? Ef ég ætti að fá augljósa vítaspyrnu en enginn af fimm dómurum sæi það yrði ég enn pirraðri.
Það er eitthvað svo kjánalegt við að sjá þessa menn dandalast með sprotana eins og boltasækjar við mörkin. Ég fæ líka nettan kjánahroll að sjá her manna í dómarabúningum ganga á undan liðunum út á völlinn. Það þarf ekki svona marga menn til að dæma einn fótboltaleik. UEFA á víst nóg af peningum og eitthvað verður að nota þá í.
Það á að spila fótbolta eins allstaðar. Í Reykjavíkurmóti 2. flokks er spilað með dómara og tvo línuverði í 90 mínútur og þannig á það líka að vera í Meistaradeildinni. Það mun aldrei gerast að Neisti Djúpavogi sé að fara að manna leiki í yngri flokkum með fimm dómurum. Neisti er heldur ekki að fara að setja upp myndatökubúnað til að skera úr um vafaatriði.
Ég hélt að maður myndi ná að venjast því að hafa þessa sprotadómara en það fer eiginlega í hina áttina. Einn maður með flautu og tveir með flögg eru mennirnir sem eiga að dæma fótboltaleiki. Burtu með þessa gaura sem halda á sprotunum.
Í lokin má kannski koma með smá útskýringu því ég veit að margir hafa velt því fyrir sér hvað sprotarnir gera og af hverju sprotadómararnir sýna ekki neinar bendingar. Sprotadómararnir eru í talsamskiptum við aðaldómarann og á sprotunum er hnappur til að gefa honum merki.