Það var ljóst í kvöld hvaða fjögur lið eru komin í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu og hvaða lið mætast - Real Madrid - Barcelona (27. apríl/3. maí) og Schalke - Manchester United (26. apríl/4. maí). Mér segir svo hugur að nýtt nafn verður skráð á Evrópubikarinn eftirsótta á Wembley laugardaginn 28. maí - nafn þýska liðsins Schalke 04 frá Gelsenkirchen í Ruhr-héraðinu.
Þá koma stuðningsmenn hins blá hvíta liðs til með að syngja hástöfum: Blau und Weiss, wie lieb ich Dich, eða: Blátt og hvítt - hvað ég elska þig!
Hvers vegna hef ég trú á sigri Schalke? Jú, ég hef trú á að tími sé kominn til að brjóta upp hefðina. Schalke hefur ekki orðið Evrópumeistari, en það hefur oft komið í hlut Real Madrid, Barcelona og Manchester United að hampa Evrópubikarnum.
Ekki skemmir það fyrir að Schalke er skipað afar sterkri liðsheild, sem hefur sýnt styrk sinn í Meistaradeildinni - nú síðast með því að senda Evrópumeistara Internazionale (Inter Mílanó) út úr Evrópukeppninni. Fyrst með fræknum sigri í Mílanó, 5:2, en síðan góðum sigri í kvöld, 2:1.
Sir Alex Ferguson, hinn kunni refur og leiðtogi Manchester United var á meðal hinna 61.672 áhorfenda í Gelsenkirchen í kvöldi. Hann tuggði tyggjóið af sinni alkunnu snilld -
sló ekki feilnótu!
Meistari Ferguson sá í kvöld, að hans menn verða að hafa góðar gætur á einum leikmanni. Spánverjanum frækna Raúl Gonzalez, sem hefur orðið þrisvar Evrópumeistari með Real Madrid.
* Fyrst árið 1998 þegar Real lagði Juventus í Amsterdam, 1:0.
* Síðan í París 2000, þar sem hann skoraði mark fyrir Real í sigri á Valencia, 3:0.
* Síðast í Glasgow 2002, þar sem hann skoraði fyrir Real í sigurleik gegn Bayer Leverkusen, 2:1.
Það skildi aldrei verða svo að Raúl verði Evrópumeistari í fjórða sinn - eftir sigur á sína gamla félagi Real Madrid á Wembley?
Ég hef trú á því – mér segir svo hugur! Real Madrid var búið að afskrifa þennan 33 ára leikmann, sem hefur komið, séð og sigrað í Evrópukeppninni í vetur. Hann skoraði sitt 71. mark í Evrópukeppninni í gærkvöldi. Hefur skorað flest mörk í keppninni, frá upphafi.
Raúl lætur verkin tala. Það er annað en margar puntudúkkur á ofurlaunum gera!
Þess má geta að síðasta nýja nafnið sem var ritað á Evrópubikarinn var nafn Borussia Dortmund. Það var í München 1997, þegar leikmenn Dortmund lögðu Juventus óvænt að velli, 3:1.
Auf Wiedersehn,
Sigmundur Ó. Steinarsson