Arnar Smárason skrifar
Það eru ekki nægilega margir Íslendingar sem fylgjast með þýska boltanum. Það þarf auðvitað að laga það með því að negla honum á dagskrá hjá RÚV og fá Lárus Guðmundsson og Guðmund Hreiðarsson með þýsku derhúfuna sína til að lýsa leikjum um helgar.
Ég ritaði smá pistil um ungar og upprennandi stjörnur Þjóðverja sem spila í Bundesligunni. Þettu eru leikmenn sem fróðlegt verður að fylgjast með í framtíðinni. Leikmennirnir eru allir fæddir á bilinu 1993-1988.... með einni undantekningu.
Mario Götze (1992) - 18 ára sókndjarfur miðjumaður sem spilar fyrir Dortmund.
Það má með sanni segja að þetta sé næsta vonarstjarna Þjóðverja. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hann náð að festa sig vel í sessi sem byrjunarliðsmaður hjá toppliði Dortmund. Frammistaða Götze hefur ekki farið framhjá stórliðunum og er Manchester United meðal liða sem hafa verið orðuð við piltinn. En hann er hinsvegar ekki á leið frá Dortmund að eigin sögn og vill spila með liðinu í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Hefur nú þegar spilað þrjá A-landsleiki fyrir Þjóðverja og þeir verða eflaust fleiri í framtíðinni.
Mats Hummels (1988) - 22 ára hafsent hjá toppliði Dortmund.
Var lánaður til Dortmund tímabilið 08-09 frá FC Bayern, var svo endanlega keyptur til félagsins 2009. Hann hefur átt fast sæti í vörninni hjá Dortmund á þessu tímabili og skorað fimm mörk að auki. Dortmund hefur fengið á sig langfæst mörk á tímabilinu, aðeims átján stykki. Hummels var fyrirliði u-21 liðs Þjóðverja í undankeppninni fyrir EM í Danmörku. Hann hefur leikið fjóra A-landsleiki fyrir hönd Þjóðverja.
Kevin Großkreutz (1988) - 22 ára miðjumaður sem spilar með Dortmund.
Þeir hjá Dortmund hafa verið duglegir að spila á ungu og skemmtilegu liði og hafa uppöldu leikmennirnir verið í sviðsljósinu. Hann hefur skorað sjö mörk og átt sjö stoðsendingar það sem af er tímabili. Talið er að United og Arsenal séu að fylgjast vel með þessum dreng sem er með samning hjá Dortmund til 2014. Hann á að baki þrjá A-landsleiki fyrir hönd Þjóðverja.
Sidney Sam (1988) - 23 ára kantmaður sem spilar fyrir Bayer Leverkusen.
Leikmaður sem hefur heillað mig upp úr skónum. Eftir frábært ár á láni hjá Kaiserslautern í Bundesligu 2 þar sem hann var maðurinn, fór hann til baka til Hamburg. Þar sögðust menn ekki hafa not fyrir drenginn og var hann þá seldur til Leverkusen. Hann hefur farið á kostum í Bundesligunni með Leverkusen sem er sem stendur í öðru sæti deildarinnar. Löw þjálfari Þýskalands fylgist grannt með þessum dreng og telja sparkfræðingar að ekki verði langt í það að hann fái kallið. Hann spilaði með u-21 landsliðinu gegn Íslandi þar sem hann náði þó ekki að sýna sínar bestu hliðar. Skúli Jón hélt honum gjörsamlega í rassvasanum allan leikinn (að eigin sögn).
Konstantin Rausch (1990) - 21 árs gamall bakvörður sem spilar fyrir Hannover.
Hannover hefur komið öllum á óvart í vetur og situr í þriðja sæti deildarinnar. Rausch hefur verið fastamaður í bakverðinum hjá liðinu í vetur og hafa nokkur stórlið fylgst vel með honum, þar á meðal Juventus. Hann er yngsti leikmaður í sögu Hannover til að spila leik fyrir aðalliðið og það gerði hann 18 ára. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hann leikið 81 leik í Bundesligunni. Hann hefur spilað alla leiki liðsins á þessu tímabili og skorað þrjú mörk og lagt upp fjögur.
André Schürrle (1990) - 20 ára sóknarmaður sem spilar fyrir Mainz.
Mainz er eitt af þeim liðum sem margir bjuggust ekki við miklu frá á þessu tímabili enda þekkt fyrir að vera í basli í neðri hlutanum. Schürrle hefur farið á kostum og skorað þrettán mörk í vetur fyrir Mainz og á stóran hlut í velgengni þeirra. Bayer Leverkusen var fljótt að sjá hæfileika hans og hefur tryggt sér þjónustu hans eftir þetta tímabil. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort Schürrle eigi eftir að höndla pressuna í stóru félagi eins og Leverkusen. Hann hefur leikið yvo A-landsleiki fyrir hönd Þjóðverja.
Oliver Baumann (1990) - 20 ára markmaður sem spilar fyrir Freiburg.
Baumann kom inn í lið Freiburg í þriðju umferð vegna meiðsla hjá Pouplin, aðalmarkverði Freiburg. Hann hefur þakkað traustið og varið mark Freiburg síðan. Hann hefur haldið markinu hreinu sjö sinnum í vetur og margir vilja meina að hann sé búinn að vera besti markmaður tímabilsins ásamt Manuel Neuer.
Felix Bastians (1988) - 22 ára kantmaður sem spilar með Freiburg.
Þrátt fyrir ungan aldur þá fer hann að nálgast Íslandsmet Halls Ásgeirssonar í félagaskiptum. Bastians hefur spilað fyrir átta lið á sínum stutta ferli. Eftir að hafa spilað með unglingaliði Bochum og Dortmund hélt hann til Englands og spilaði fyrir Nottingham Forest, þar fór hann í bakpokaferðalag um neðri deildir á Englandi. Hann var svo keyptur til Young Boys en er mættur til Freiburg. Hann hefur verið orðaður við stórliðin West Bromwich Albion og Lazio undanfarið.
Julian Draxler (1993) - 17 ára miðjumaður sem spilar fyrir Schalke.
Hinn ungi Draxler er strax farinn að vekja athygli þrátt fyrir að vera nýkominn inn í lið Schalke. Hann hefur einungis tekið þátt í ellefu leikjum með liðinu. Hann hefur skorað tvö mörk fyrir Schalke á þessari leiktíð. Mæli með því að fólk leiti uppi mark hans gegn Nurnberg í bikarnum sem hann skoraði á 119. minútu. Hann er næst yngsti leikmaður í sögu Bundesligunnar til að byrja leik. Leggið þetta nafn á minnið, hann verður stórstjarna.
Thomas Muller (1989) - 21 árs miðjumaður/framherji Bayern Munchen.
Það þarf varla að kynna einn efnilegasta leikmann heims. Muller hefur farið á kostum síðustu tvö tímabil í ógnarsterkri framlínu Bayern. Hann kom inn sem nýliði í hóp Þjóðverja fyrir HM 2010 og blómstraði þar. Hann skoraði fimm mörk á HM og var valinn besti ungi leikmaður mótsins, ásamt því að enda sem markakóngur mótsins. Það gætu öll lið í heiminum haft not fyrir Thomas Muller en ég efast stórlega um það að hann fari frá Bayern í bráð.
Toni Kroos (1990) - 21 árs sókndjarfur miðjumaður Bayern Munchen.
Kroos hefur verið eitt mesta efni Bayern í mörg ár. Þegar hann var yngri þá lofaði Uli Hoeneß honum treyju númer 10 hjá Bayern þegar hann væri kominn með meiri reynslu, engin pressa… Hann var lánaður til Leverkusen á síðasta tímabili til að ná sér í smá reynslu. Þar lék hann 43 leiki og skoraði í þeim tíu mörk. Löw tók hann með á HM og þar tók hann þátt í fjórum leikjum. Hefur alls leikið þrettán landsleiki fyrir hönd Þýskalands og munu þeir eflaust verða fleiri í framtíðinni. Kroos hefur spilað 23 leiki á þessu tímabili með Bayern og er með samning til ársins 2015, þannig að hann er ekki á leið þaðan í bráð.
Holger Badstuber (1989) - 22 ára varnarmaður Bayern Munchen.
Badstuber hefur verið inn og út í liði Bayern og spilað tuttugu leiki á þessu tímabili. Hann hefur komið sér þægilega fyrir hjá Löw landsliðsþjálfara og spilaði fyrstu tvo leikina á HM. Hann datt svo úr liðinu, enda vantaði aðeins uppá reynsluna í svona stórum leikjum. En hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir Þjóðverja gegn Azerbaijan með flottum skalla. Hann hefur leikið alls níu leiki og skorað eitt mark fyrir þjóðverja.
Philipp Bargfrede (1989) - 22 ára miðjumaður Werder Bremen.
Bargfrede hefur spilað 24 leiki á þessu tímabili með Werder Bremen. Hann hefur þó ekki komist á blað fyrir liðið. Það mun sennilega mæða mikið á honum á komandi tímabilum enda ætlar Torsten Frings að leggja skóna á hilluna í sumar. Bargfrede spilar með u-21 liði Þjóðverja og hefur ekki enn heillað Löw til að fá kallið í A liðið.
Marko Marin (1989) - 22 ára kantmaður sem spilar fyrir Werder Bremen.
Marin kom til Bremen árið 2009 eftir að hafa verið hjá Gladbach frá því 2005. Honum hefur verið farið að leiðast það að vera stór fiskur í lítilli tjörn í Gladbach. Hann hefur átt ágætt tímabil í slöku liði Bremen. Lítið sem ekkert hefur gengið upp hjá liðinu sem er loksins að ná að slíta sig burt frá neðri hlutanum. Marin var í HM hópi Þjóðverja í Suður Afríku og kom þar tvisvar við sögu. Marin hefur verið orðaður við flest stórlið í Evrópu, meðal annars Liverpool og Man United. Hann á á bakinu sextán landsleiki með Þjóðverjum og eitt mark.
Benedikt Howedes (1988) - 23 ára varnarmaður sem spilar fyrir Schalke.
Howedes hefur spilað flesta leiki Schalke á þessari leiktíð og skorað eitt mark í deildinni. Hann var á skotskónum gegn Inter í Meistaradeildinni um daginn. Hann er sterkur í loftinu og einn af lykilmönnum í þessu Schalke liði sem hefur þó ekki gengið nógu vel í deildinni til þessa. Liðið er þó komið í 8-liða úrslit í Meistaradeildinni og í úrslit í þýsku bikarkeppninni. Howedes hefur verið orðaður við ýmis lið í Evrópu undanfarið.
Marco Reus (1989) - 21 árs miðjumaður/framherji sem spilar með Mönchengladbach.
Reus hefur farið á kostum í annars slöku liði Gladbach sem situr þægilega á botni Bundesligunnar. Reus kom til Gladbach 2009 frá Rot Weiss Ahlen og hefur fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður. Hann hefur spilað alla leiki Gladbach á þessu tímabili og skorað átta mörk og lagt upp önnur átta. Hann hefur verið orðaður við mörg stórlið og ber þá helst að nefna Dortmund og Man Utd. Það eitt er víst að Reus mun ekki stoppa lengi hjá Gladbach enda alltof góður til að fara niður í B-deildina.
Miroslav Klose (1978) - 32 ára framherji Bayern Munchen.
Hinn "ageless" Miroslav Klose hefur einungis skorað eitt mark fyrir Bayern í deildinni á þessu tímabili, en Klose féll alls ekki í náðina hjá Louis Van Gaal. Klose hefur samt verið iðinn við kolann með þýska landsliðinu í undankeppni EM 2012 og skorað þar átta mörk í fimm leikjum. Samningur hans við Bayern rennur út í sumar og þá er spurning hvaða lið mun hreppa þjónustu hans. Hann vill ekki útiloka það sjálfur að halda áfram hjá Bayern, enda kemur nýr stjóri eftir tímabilið. En Dortmund, Hoffenheim og Kaiserslautern hafa öll verið sögð á eftir þessum sjóðheita framherja.