Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   þri 26. apríl 2011 19:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Jón og Séra Jón í Pepsídeildinni
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Tryggvi Þór Kristjánsson.
Tryggvi Þór Kristjánsson.
Mynd: Aðsend
Orri Freyr Hjaltalín.
Orri Freyr Hjaltalín.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Loksins, loksins er deildin að byrja. Langur vetur er að baki, komnir sigurvegarar í allar pínulitlu smábarnakeppnirnar og árstíðarbundin spennan farinn að grípa um sig. Skríbentar hverskonar eru farnir að gera sig breiða, mæra Séra Jón og hlæja að kallgreyinu honum Jóni, sem úti í horni æfir sig þó fyrir sumarið þrátt fyrir að vera aðhlátursefni í samanburði við Sérann.

Þegar ég tala um Jón og Séra Jón þá ég að sjálfssögðu við merku og ómerku liðin í Pepsídeildinni. Ég gat nú ekki annað en skellt uppúr um daginn þegar ég las spánna fyrir mitt lið, Grindavík, á fótbolti.net. Þar var sérvalið sérfræðingagallerí sem dæmdi okkur til botnslags enn eitt árið – fullkomlega eðlileg spá miðað við allt og allt. Í sömu spá sagði sérfræðingurinn í galleríinu, Reynir Leósson, þetta:

Gaman að fylgjast með: Það verður gaman að sjá Orra Hjaltalín spila aftur á miðjunni eftir að hafa verið miðvörður undanfarin ár. Ég hef trú á því að hann geti gefið þeim mikinn kraft á miðsvæðinu.

Í þessu sambandi er rétt að benda á eftirfarandi staðreyndir: Orri Hjaltalín hefur spilað á miðjunni hjá Grindavík undanfarin ár. Í örfá skipti hefur hann hinsvegar fyllt inn í hafsent út af bönnum eða meiðslum. Að sama skapi hefur hann einnig stöku sinnum spilað frammi. Smávægileg yfirsjón hjá sérfræðingnum þarna.

Við hérna í sveitinni erum reyndar alvanir því að hlusta á bölvaða þvælu um okkar lið í hinni stórbrotnu íslensku knattspyrnuumfjöllun. Það myndi æra óstöðugan að reyna að halda öllum þeim snilldarummælum til haga sem hafa fallið um okkar lið í gegnum árin. Mitt persónulega uppáhald er þegar menn fara að tala um alla útlendingana sem hér ráða ríkjum, þegar staðreyndin er sú að Grindavík hefur teflt fram hvað flestum heimamönnum (ekki bara í hóp eða á samning, heldur í byrjunarliði) af öllum liðunum í deildinni mörg undanfarin ár. Af þessu getur Sérann sjaldan státað sig þar sem hann stendur sperrtur í borg óttans, með skríbenta skríðandi í kringum sig leitandi að molum sem falla af hans gullnu vörum.

Annað sem stingur pínulítið í augu okkar landsbyggðartúttanna þessa dagana eru stiklur sem Stöð 2 hefur látið gera fyrir komandi sumar. Þar glittir í þekkt andlit og þekkta búninga í lange baner, en eitthvað minna af greyinu honum Jóni, sem þó ætlar að vera með í sumar. Við hérna í rokinu fáum ekki einu sinni mynd af merki okkar í bílglugga, hvað þá meira. Sumir eru víst alltaf örlítið meira aðal en aðrir í þessum heimi.

Nú skal tekið skýrt fram að ég er ekki að biðja um kommúníska ölmusu fyrir okkur smáfuglana. Við eigum ennþá eftir að sanna að við séum aðal með því að ná alvöru árangri, við höfum aldrei verið miklir bógar í stigasöfnun þó að við höfum verið í forystu í flest öllu öðru sem kemur að knattspyrnunni á Íslandi, þ.á.m. aðstöðu, umgjörð og afnám vasabókhalds. Mætti ég hinsvegar biðja um, tjahh.. þó ekki nema örlitla sanngirni í umfjölluninni? Kannski trúðaskólinn eins og hann leggur sig myndi nú troða sér í VW Bjölluna sína, keyra jafnvel út fyrir borgarmörkin og kynna sér málið áður en þeir þeyta trúðahornin sín í sumar? Það væri þó ögn skárra en það sem á undan er gengið.

Það er kannski ljótt af mér að láta svona illa við hina ágætu stétt skríbenta, sem fer ört stækkandi. Þar er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé, en margir eru þeir skemmtilegir. En þrátt fyrir öll skemmtilegheitin, mætti ég biðja um að menn hafi sitt á þurru og reyni að halda sig við staðreyndir? Mætti ég biðja um að menn væru örlítið víðsýnni og gægðust stöku sinnum yfir grindverkið á okkur hina? Mætti ég biðja um réttlæti fyrir Jón kallinn á milli þess að Séra Jón er mærður? Hver veit nema tækifæri gefist á milli þess sem einhver leysir vind í Vesturbænum eða við Kaplakrika.

Gleðilegt knattspyrnusumar
Tryggvi Þór Kristjánsson
banner