Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   fim 28. apríl 2011 14:30
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
„Sérstök" skita
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
Jose Mourinho eyddi meiri hluta seinni hálfleiks í stúkunni.
Jose Mourinho eyddi meiri hluta seinni hálfleiks í stúkunni.
Mynd: Getty Images
Hér er ástæðan - Algeng vanvirðing hans gagnvart dómurum leiksins.
Hér er ástæðan - Algeng vanvirðing hans gagnvart dómurum leiksins.
Mynd: Getty Images
Mourinho var niðurdreginn á leiðinni í göngin eftir leik.
Mourinho var niðurdreginn á leiðinni í göngin eftir leik.
Mynd: Getty Images
Mourinho þarf á öllum gáfum sínum að halda til að koma Real í úrslitin.
Mourinho þarf á öllum gáfum sínum að halda til að koma Real í úrslitin.
Mynd: Getty Images
Þeir sem hafa gaman af fótbolta hoppuðu hæð sína af gleði þegar ljóst var að spænsku stórveldin Real Madrid og Barcelona myndu kljást hvorki meira né minna en fjórum sinnum á tæpum þremur vikum. El Clasico varð að Los Clasicos og þegar þessi grein er skrifuð er þremur af þessum fjórum leikjum lokið. Leik liðanna í deildinni lauk með 1-1 jafntefli, Madrídingar unnu spænska konungsbikarinn 1-0 og síðan unnu Börsungar 2-0 sigur í gærkvöldi í Meistaradeildinni.

Aðdragandi þessa leiks í Meistaradeildinni var í meira lagi athyglisverður. Eftir að Börsungar höfðu ráðið lögum og lofum gegn Madrídingum undanfarin ár voru lærisveinar Mourinho farnir að sækja í sig veðrið og töldu margir að með sigrinum í Konungsbikarnum væru hlutirnir farnir að snúast þeim hvítklæddu í vil. Flestir sparkspekingar spáðu annað hvort sigri Real Madrid eða jafntefli á Bernabeu í gærkvöldi, en eins og áður kom fram unnu Spánarmeistararnir sanngjarnan sigur.

Fyrir leikinn áttu knattspyrnustjórarnir Jose Mourinho og Pep Guardiola í mögnuðu orðastríði sem byrjaði með því að ,,sá sérstaki" sakaði Guardiola um að væla yfir réttum dómum dómarans í Konungsbikarnum, en Guardiola var ósáttur þegar mark Pedro var dæmt af í leiknum.

,,Fram að þessu höfum við haft tvær mismunandi tegundir af þjálfurum. Það er mjög lítill hópur sem talar ekki um dómarana en svo er stærri hópur, sem ég er hluti af, sem gagnrýna dómara þegar þeir gera stór mistök," sagði Mourinho á blaðamannafundi fyrir leikinn.

,,En með ummælum Pep hefur bæst við nýr hópur, sem hann er eini meðlimurinn í, en það er hópurinn sem gagnrýnir réttar ákvarðanir dómaranna. Ég hef aldrei séð þetta áður."

Guardiola brást óvenju illa við á blaðamannafundi og sagði: ,,Á morgun munum við hittast á vellinum. Hann hefur nú þegar unnið sigur utan vallarins. Á blaðamannafundinum er hann fo**ing maðurinn, fo**ing stjórinn, og ég nenni ekki að keppa við hann þar. Ég kann það ekki. Við sjáum til hvað gerist á vellinum."

Mourinho fór síðan inn í þennan leik með mjög sérstaka nálgun. Hann ákvað að stilla upp, á heimavelli, liði án nokkurs alvöru sóknarmanns. Ekki nóg með það, heldur byrjaði hann með miðvörðinn Pepe á miðjunni og spilaði almennt bara mjög varnarsinnaðan bolta. Ekki það sem stuðningsmenn 400 milljóna punda byrjunarliðs vilja sjá!

Það var eins og Madrídingar leggðu heldur upp úr því að fá ekki á sig mark á heimavelli heldur en að vinna heimaleikinn og vera í góðri stöðu fyrir síðari viðureignina á Nývangi. Niðurstaðan var sú að fyrri hálfleikur hið minnsta, og í raun leikurinn allur, var frekar leiðinlegur. Madrídingar fengu EITT færi, skot Cristiano Ronaldo utan teigs, en annars voru þeir ekki að skapa neitt. Það var Lionel Messi að þakka að þessa leiks verður ekki minnst sem versta undanúrslitaleiks sögunnar!

Börsungarnir mættu einnig varkárir til leiks, og var það fullkomlega skiljanlegt, enda voru þeir að spila á einum erfiðasta útivelli Spánar að frátöldum þeirra eigin (sem er auðvitað ekki útivöllur í þeirra augum). Þeir voru þó mun graðari í að komast að markinu og voru yfirvegaðir á boltanum. Þeir fengu úr miklu meiru að moða, enda bauð kellingaskapur Real Madrid ekki upp á neitt annað þó að færi Börsunga hafi ekki verið mjög mörg. Skal engan undra miðað við uppstillingu Madrídinga.

Vendipunktur leiksins var að sjálfsögðu ósanngjörn brottvísun Pepe sem gerði Börsungum auðveldar fyrir og skoraði argentínska undrið Lionel Messi tvö góð mörk í kjölfarið. Það er þó varla hægt að segja að brottvísunin hafi virkilega breytt gangi leiksins, heldur gerði hún Barcelona bara aðeins auðveldar fyrir. Hugmyndafræðin breyttist ekki, þeir héldu bara áfram að sækja og Madrídingar áfram að verjast, en manni færri.

Það er makalaust hvað Mourinho hefur verið óheppinn með brottvísanir gegn Barcelona en það afsakaði þó ekki smábarnaleg viðbrögð hans eftir leik, og í raun í leiknum sjálfum. Hann átti að hafa vit á því að loka á sér þverrifunni en lét í stað henda sér út af og sat hann í stúkunni það sem eftir var leiks. Ekki var það skárra sem beið blaðamanna á blaðamannafundinum eftir leik. Jafnvel þó að Mourinho hafi fengið nokkrar mínútur til að kæla sig niður að frumkvæði UEFA, þá varpaði hann sprengjum.

,,Það bíður okkar ómögulegt verkefni í seinni leiknum. Barcelona eru komnir í úrslitin. Stundum finnst mér þessi fótboltaheimur ógeðslegur," sagði Mourinho reiður.

,,Við ætluðum að halda leiknum í 0-0 og setja síðan framherja inn á og bæta svo við manni fyrir aftan framherjana þrjá. En dómarinn leyfði það ekki. Ég hef bara eina spurningu. Af hverju fá Barcelona alltaf gjafir frá dómurunum? Ég hef spurt mig þessarar spurningar allt mitt líf og vonast til að fá svar."

,,Af hverju eru andstæðingar Barcelona alltaf að missa menn út af? Hvaðan koma þessi völd? Er þetta til að gefa UNICEF meiri umfjöllun?"

,,Guardiola er frábær þjálfari en hann vann Meistaradeildina með skömm eftir skandalinn á Stamford Bridge. Ef hann vinnur í ár verður það þökk sé skandalnum á Bernabeu."


Eins og sjá má á þessum ummælum Mourinho beindi hann allri athyglinni frá sínu eigin liði og eyddi öllu púðri í að gagna dómgæsluna og gera lítið úr afreki Barcelona. Í stað þess að viðurkenna að hafa ráðist algerlega vitlaust inn í þennan leik taktískt séð, þá segir hann að Börsungar fái alltaf sérmeðferð í Meistaradeildinni og í raun að þeir hafi ekki átt skilið að verða Evrópumeistarar árið 2009.

Ég hef sjálfur alltaf haft miklar mætur á Mourinho og það velkist enginn í vafa um hæfileika hans, en í þessu tilfelli fannst mér hann einfaldlega skíta upp á bak og það mun líkast til kosta Real Madrid sæti í úrslitum Meistaradeildarinnar. Þegar uppi er staðið þá stóðst hann ekki prófið sem honum var sett fyrir. Hann mun hvorki vinna deildina né Meistaradeildina og hann virðist ekki ætla að líta í eigin barm hvað það varðar. Hann heldur bara áfram að vera með kjaft, og það er eitthvað sem hann er svo sannarlega góður í, en í þetta skiptið voru flestir á því að ummæli hans væru bara barnaleg og ómerkileg.

Sparkspekingar hvaðanæva gagnrýndu hann eftir leikinn fyrir þessu ummæli sín og þrátt fyrir að það hafi sjálfsagt verið mjög freistandi fyrir Guardiola að svara, þá ákvað hann að tjá sig ekki um þetta mál. Enda þarf hann þess ekki, því þegar uppi var staðið var Guardiola sannur sigurvegari þó að Mourinho hafi kannski tekist að koma með hnyttnari ummæli. En það þarf meira til en bara hnyttni og því verður það Guardiola sem leggst sáttur á koddann á meðan Mourinho veltir því sjálfsagt fyrir sér hvort að hann verði áfram á Bernabeu að ári liðnu.
banner
banner