Um helgina hafa miklar umræður spunnist um atvik í leikjum í enska boltanum þar sem spurning hefur vaknað um hvort að leikmenn hafi verið rændir augljósum marktækifærum og hinum brotlega skuli þar með vísað af leikvelli.
Í knattspyrnulögunum 12. grein heitir þetta að: Leikmaður hefur augljóst marktækifæri af mótherja, sem er á leið að marki leikmannsins, með leikbroti sem refsað er fyrir með aukaspyrnu eða vítaspyrnu.
Hvað er það sem dómarinn þarf að hafa í huga þegar svona atvik koma upp. Það eru nokkur atriði sem skipta máli varðandi það hvort vísa skuli leikmanni af velli eða ekki fyrir umrætt brot.
• Fjarlægð frá brotstað og að marki
• Líkurnar á því að ná eða halda valdi á knettinum
• Hver er stefna leikmannsins og knattarins
• Staðsetning og fjöldi varnarmanna
Lykilatriðið í þessu er þó og verður alltaf spurningin um það hvort það sé AUGLJÓST að marktækifæri hafi verið rænt. Ef það er ekki augljóst verður leikmanni ekki vísað af leikvelli á þessum forsendum.
Núna um helgina komu a.m.k. tvö svona atvik upp í enska boltanum. Það fyrra átti sér stað í leik Tottenham og Bolton þar sem Gary Cahill leikmanni Bolton var vikið af velli á 18. mínútu fyrir að ræna Scott Parker leikmanni Tottenham augljósu marktækifæri. Þetta brot átti sér stað úti við hliðarlínu, nálægt miðju vallarins. Ef við skoðum skilyrðin sem nefnd voru hér að framan þá er það mín skoðun að það sé verulega vafasamt að augljósu marktækifæri hafi verið rænt í þessu tilviki.
Brotið á sér stað langt frá marki. Stefna knattarins og leikmannsins sem brotið var á er frekar í átt að hornfána en að marki og ekki er útilokað að aðrir varnarmenn hafi getað blandað sér í málið, vegna vegalengdarinnar sem hann átti eftir að fara með knöttin. Það er því alls ekki augljóst að hann hafi verið rændur marktækifæri og því tel ég að það hafi verið rangt að vísa honum af velli fyrir að ræna andstæðing augljósu marktækifæri.
Hitt atvikið sem átti sér stað var í leik Newcastle og Chelsea. Á upphafsmínútum leiksins er Demba Ba leikmaður Newcastle að fá stungusendingu upp miðjan völl ekki svo fjarri vítateig Chelsea. David Luiz varnarmaður Chelsea brýtur á honum og knötturinn rennur aftur til markmannsins.
Skoðum skilyrðin. Hér er brotstaður ca 30 metra frá marki, jafnvel nær. Stefna leikmanns og knattar er beint á mark. Það eru engir aðrir varnarmenn sem geta blandað sér í málið og það er mín skoðun að ef ekki væri brotið á sóknarmanninum þá væri augljóst að hann sé í leikfæri við knöttinn og myndi ná valdi á honum. Að mínu áliti er hér augljóslega verið að ræna marktækifæri af sóknarmanni og refsa hefði átt með brottvísun í stað áminningar sem var veitt í þessu tilfelli.
Við dómararnir setjum svona atvik stundum upp í ímynduðum heimi, þegar við erum að skoða atvik úr leikjum, til að átta okkur betur á samhengi hlutanna. Segjum að við tökum einfaldlega David Luiz út úr dæminu, sóknin væri að öðru leyti alveg eins og Demba Ba væri í sama séns. Þá væri Demba Ba, að mínu mati, að fá knöttinn í hlaupalínuna sína og stefna óáreittur í átt að marki með augljóst tækifæri til að skora mark.
Enn og aftur legg ég áherslu á að það verður að vera algjörlega augljóst að það sé verið að ræna marktækifæri til að refsa með brottvísun í svona tilviki. Að þessu sögðu þá er það mat dómarans hverju sinni hvort um augljóst “rán” er að ræða eða ekki..
Að mínu mati.
Jóhannes Valgeirsson
Knattspyrnudómari