Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 16. maí 2012 14:45
Magnús Már Einarsson
Bestur í 3. umferð: Sagði að ég væri algjör aumingi
Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Kjartan Henry á punktinum í gær.
Kjartan Henry á punktinum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
,,Ég hef ekki skorað þrennu áður á Íslandsmótinu þannig að þetta var mjög gaman," sagði Kjartan Henry Finnbogason framherji KR við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 3. umferðar í Pepsi-deildinni eftir að hafa skorað þrennu í 3-2 sigri á ÍBV í gær.

,,Pétur Péturs (Aðstoðarþjálfari KR) sagði við mig í fyrra að ég væri algjör aumingi að vera ekki búinn að skora þrennu. Ég minnti hann á þetta í gær að ég væri búinn að afgreiða það. Þó að það hafi verið allt úr vítum þá gildir það líka og ég er mjög ánægður með þetta," sagði Kjartan sem býst við að Pétur haldi áfram að skjóta á leikmenn KR.

,,Hann finnur eitthvað annað. Hann segist hafa skorað fimm í hverjum leik og það er gaman að honum. Við erum aumingjar, hann segir að þeir hafi spilað í snjó í stuttum buxum. Það var allt betra þegar Pétur var að spila, ætli það sé ekki rétt hjá honum."

Æfir vítin með Hannesi:
Kjartan Henry skoraði öll mörk sín í gær úr vítaspyrnum en hann hefur verið duglegur að æfa sig á punktinum.

,,Ég og Hannes (Þór Halldórsson) höfum æft þetta saman. Ég tek alltaf nokkur víti daginn fyrir leik og ég kláraði fjögur víti í fyrra og þrjú í gær. Ég segi Hannesi oft í hvaða horn ég er að fara að skjóta og leyfi honum að reyna að verja og það hefur greinilega borgað sig fyrir okkur báða í gær," sagði Kjartan sem er með mismunandi útgáfur af spyrnum.

,,Ég er ekki með neitt sérstakt horn. Það er bara það sem mér dettur í hug þegar ég fer á punktinn. Það var erfiðara að taka annað og þriðja vítið en það fyrsta, maður fer að hugsa hvort maður eigi að breyta eða setja hann aftur á sama stað. Þetta heppnaðist fullkomlega í gær. Í þriðja vítinu ætlaði ég að segja hann í sama hornið en þegar ég var búinn að taka tvö skref að boltanum sá ég að Abel (Dhaira) var búinn að skutla sér og setti hann í mitt markið í staðinn."

Skemmtilegra að spila frammi:
Kjartan Henry er komnin með fimm mörk í fyrstu þremur umferðum sumarsins og hann er ánægður með að vera að fá tækifæri til að spila í fremstu víglínu eftir að hafa verið á kantinum í fyrra.

,,Ég get alveg viðurkennt það. Ég hef verið senter frá því að ég byrjaði að æfa fótbolta. Í fyrra vorum við með Gaua sem hjálpaði liðinu gríðarlega mikið og ég var að finna mig ágætlega á kantinum. Ég skoraði helling af mörkum og lagði upp líka. Það er alveg jafn gaman að leggja upp líka, sérstaklega eftir að þessi Fantasy deild er kominn."

,,Stundum hentar betur að ég sé á kantinum og Rúni (Rúnar Kristinsson) verður að taka ákvörðun um það. Ég var á kantinum á móti Akranesi og það gekk ágætlega líka en ég viðurkenni alveg að mér finnst skemmtilegast að spila frammi. Þetta er ekki bara spurning um það sem er skemmtilegt, maður verður að leggja á sig og hjálpa liðinu og ef ég á að vera á kantinum er ég ánægður með að líka."


Vill ekki bregðast vinum sínum í Fantasy deildinni:
Kjartan Henry skilaði 17 stigum fyrir þá sem eru með hann í sínu liði í Fantasy deild Fótbolta.net og hann hefur fengið hrós frá vinum sínum fyrir það.

,,Ég fæ reglulega klapp á bakið og þakkir frá fólki sem er í sérdeildum. Það er skemmtilegt, ég er hættur að fá gul spjöld og Fantasy er að hjálpa mér aðeins í því, ég vil ekki bregðast vinum mínum," sagði Kjartan Henry léttur í bragði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner