Við fengum það göfuga verkefni að skrifa pistil um þetta fallega fótboltasumar og gleði-mánuðina þar á undan. Við vildum að sjálfsögðu ekki segja nei því betra er að vera í náðinni hjá fjölmiðlamönnum landsins.
Um haustið 2011 mættum við ekki félagarnir á fyrsta fund hjá nýjum þjálfara þar sem hann kynnti sig og sitt eitraða teymi ásamt því að fara yfir veturinn. Ási Arnars, Haukur „sáli“ Guðna og „King“ Kristján Finnbogason tóku við liðinu af Óla Þórðar. Eftir þennan fund hófust formlegar æfingar þar sem allir urðu vinir og er það sem einkenndi Fylkis-apparatið í allt sumar er gríðarlega góð vinátta.
Þar sem undirritaðir voru orðnir félagar og komnir í nýtt lið verð ég að þakka liðsfélögum okkar fyrir að taka vel á móti okkur þá sérstaklega Bjarna Þórði sem var okkur eins og faðir og leiddi okkur í gegnum fyrsta árið í Lautinni.
Nokkrir nýir leikmenn bættust við í Lautarferðina þetta árið ásamt okkur tveim. Þar ber helst að nefna Finn Ólafs sem kom frá ÍBV, Mr. Elebert sem kom frá Írlandi, Björgólf Hideaki Takefusa sem kom frá Víking og Stjáni Finnboga. Síðan um mitt mót bættist við gleðipinninn Sigurvin Ólafs. Áður en við komum fóru líka fullt af peyjum en við ræðum það ekki hér. Hjörtur Hermanns ákvað að fara í mennskuna og er það algjörlega hans ákvörðun. Vonum bara að hann verði landi og þjóð til sóma. Einnig ákváðu nokkrir að fara að mennta sig til Bandaríkjanna og var það voða gott hjá þeim.
Það sem stóð uppúr í þungum og leiðinlegum vetri (fyrir utan kettlebells æfingarnar hjá Völu og Guðjóni) var æfingarferðin sem farin var til Portúgal. Við fórum til Albufeira og gistum á glænýju Hótel Montechoro. Þar var líf og fjör og held ég að allir hafi skemmt sér vel og haft gott af því að komast af eyjunni góðu. Ungir gamlir spiluðu leik undir lok ferðar eins og hefð er í svona ferðum. Ekki þarf að hafa mörg orð um þennan leik en gamlir slátruðu ungum þrátt fyrir að vera með stjórnarmenn og þjálfara í liðinu. Ási coach átti leik lífs síns og var með nokkur mörk af dýrari gerðinni.
Gríðarleg eftirvænting var fyrir fyrsta leik þegar Keflavíkur-rokkararnir komu í heimsókn og ballið að fara að byrja. Okkur var spáð af flestöllum fjölmiðlamönnum og sparkspekingum fallsæti sem rættist ekki hjá þeim. Góð spá og flott hjá ykkur. Sumarið einkenndist af góðum sigrum liðsheildarinnar og nokkrum skitum sem ekki verður rætt meira um hér. Við enduðum í sjöunda sæti og áttum mörg tækifæri til að koma okkur í betri stöðu en klikkuðum oft á ögurstundu.
Duttum út fyrir Víking í 16 liða úrslitum og var það svekkjandi eftir að hafa sigrað FH í 32 liða úrslitum. Í þeim leik var það Stjáni Finnboga aka Benjamin Button sem stal senunni með því að verja 3 víti í vítakeppninni. Annað eftirminnilegt atvik frá sumrinu var þegar Stjáni el capitano endaði tvisvar á spítala og í bæði skiptin frétti konan hans það þegar hún sat heima með tebolla og horfði á fréttirnar.
Við viljum þakka nokkrum vel völdum aðilum fyrir að sjá vel um okkur englabossana í Árbænum. Í fyrsta lagi dömunum sem sáu um matinn eftir leiki og mættu Valur og KR taka það sér til fyrirmyndar. Ekki má gleyma stuðningsmönnum (þá sérstaklega stuðningsmanni nr.1 Svabba) og öðrum áhorfendum sem komu í Lautina og megi næstu sumur verða skemmtileg, árangursrík og færa ykkur enn meiri gleði í hjörtu. Síðast en alls ekki síst Svenna nuddara sem sá um að japanska stríðsvélin fór að malla, Gumma Óla fyrir að dekra við okkur og nenna að gera allt sem við báðum hann um, Guðmanni Hauks fyrir að redda okkur heita og kalda karinu og elsku dúllunum sem þvoðu af okkur skítugu fötin í sumar.
Viljum einnig þakka Pepsí-mörkunum fyrir góða og sanngjarna umfjöllun um alla leiki sumarsins. Sérstaklega umfjöllunina eftir lokaleikinn í Grindavík.
Við viljum tileinka alla sigurleiki okkar Jóni Ellerti Tryggvasyni þeim mikla meistara sem lést á síðasta ári.
Að lokum ætlum við félagarnir að setja nokkra punkta sem vonandi gleðja ykkar stóru hjörtu á leið inn í dimman veturinn.
• Ingimundur gaf boltann af eigin sögn 6 sinnum í sumar
• Bjöggi Takefusa náði að vinna einn golfhring í sumar og tapaði þar að leiðandi einvíginu
• Þórir „tönn“ Hannesson fór á allar útihátíðir í sumar.
• Ásgeir Börkur er orðin mjúkur maður og hefur ákveðið að stofna boy-band
• Ungir náðu aldrei að vinna gamla
• K.G. Breiðdal er apple-tv sjúkur.
• Haukur Ingi gaf aldrei boltann á æfingu
• Tómas Joð fagnaði meira en sumir þegar við unnum Selfoss
• Samt unnum við eiginlega ekki Selfoss, dómarinn vann leikinn og völlurinn var ömurlegur
• Gummi Óli sló völlinn ekkert í 3 vikur í sumar og minnkaði hann um helming fyrir FH leikinn
• Davíð Ásbjörns aka He-man átti ekki roð í Hemma Hreiðars á Fylkisballinu
• Við eigum eftir að sakna Jóa Þórhalls í klefanum, Jói þetta er ekki djók
• Bjarni Þórður er kennari og verðandi siðfræðingur, í alvöru?
Með ástarkveðju úr Lautinni
Árni Freyr Guðnason og Magnús Þórir Matthíasson
Leikmenn Fylkis
Athugasemdir