sun 09. júní 2019 21:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjóðadeildin gæti hjálpað Íslandi að komast á EM
Hvernig Þjóðadeildin tengist undankeppninni
Icelandair
Ísland fagnar marki gegn Albaníu á laugardag. Ísland vann leikinn 1-0.
Ísland fagnar marki gegn Albaníu á laugardag. Ísland vann leikinn 1-0.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Portúgal vann Þjóðadeildina.
Portúgal vann Þjóðadeildina.
Mynd: Getty Images
Úr leik Íslands og Sviss í Þjóðadeildinni.
Úr leik Íslands og Sviss í Þjóðadeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Portúgal er fyrsta liðið sem vinnur Þjóðadeildina. Portúgal lagði Holland að velli í úrslitaleiknum í kvöld.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Þjóðadeildin keppni á milli landsliða í Evrópu sem hóf göngu sína í fyrra. Þessi nýja keppni tók við af vináttulandsleikjum og er keppninni skipt upp í fjórar deildir með 55 landsliðum, A-D.

A er þar efsti styrkleikaflokkur og D sá lægsti.

Ísland var A-styrkleikaflokki og lenti þar í riðli með Belgíu og Sviss. Ísland tapaði öllum leikjum sínum og mun því leika í B-deild Þjóðadeildarinnar þegar hún hefur aftur göngu sína aftur í september 2020.

Tenging við undankeppni EM
Þjóðadeildin er með tengingu við undankeppni EM 2020 og skiptir Þjóðadeildin miklu máli hvað undankeppnina varðar.

Undankeppnin fyrir EM 2020 virkar þannig að það eru 10 riðlar og komast efstu tvö liðin úr riðlunum 10 áfram á mótið. Það var þannig í síðustu undankeppni að liðin með góðan árangur í þriðja sæti fóru í umspil en það er ekki þannig núna.

Þjóðadeildin ræður því nefnilega hvaða lið fara í umspil. Það verða fjögur sæti laus á Evrópumótið þegar riðlakeppni undankeppninnar er búin og mun staða liða í Þjóðadeildinni ráða því hvaða lið fara í umspilið.

Fjögur lið úr hverri deild Þjóðadeildarinnar fara í undanúrslit og úrslit um sætin fjögur sem eftir eru í mars á næsta ári. Ef lið sem vinnur deildina hefur þegar tryggt sér sæti á EM mun það lið fyrir neðan sem á ekki öruggt sæti koma í staðinn.

Ísland er í riðli í undankeppninni með Frakklandi, Tyrklandi, Albaníu, Moldavíu og Andorra. Þó Ísland endi ekki í einu af efstu tveimur sætunum í riðlinum eru góðar líkur á því að liðið fari í umspil - þó það sé auðvitað best að enda bara í efstu tveimur sætunum. Ástæðan fyrir því að það séu góðar líkur á því að Íslandi fari áfram í umspil er sú að við vorum í A-deild Þjóðadeildarinnar og má búast við því að flest liðin sem voru þar fari beint á EM.

Ísland endaði í 12. sæti Þjóðadeildarinnar. Fyrir ofan okkur voru: Portúgal, Holland, England, Sviss, Belgía, Frakkland, Spánn, Ítalía, Króatía, Pólland og Þýskaland.

Segjum sem svo að Ísland endi í þriðja sæti í sínum riðli, en átta af liðunum úr A-deild Þjóðadeildarinnar fari beint á EM með því að lenda í efstu tveimur sætunum í sínum riðli. Ef það gerist þá fer Ísland í umspilið sem eitt af liðunum fjórum úr A-deild Þjóðadeildarinnar.

Ef þetta gerist, að átta lið úr A-deild Þjóðadeildarinnar fari beint á EM, þá mun Ísland etja kappi við hin liðin úr A-deild Þjóðadeildarinnar sem fór ekki beint á EM. Það verða leikin undanúrslit og úrslitaleikur þar sem sigurvegarinn fer á EM. Hin liðin sitja eftir.

Ef fleiri en átta lið úr A-deild Þjóðadeildarinnar komast beint á EM þá verða lið úr B-deildinni tekin upp í undanúrslitin í A-deild.

Þjóðadeildarfyrirkomulagið verður til þess að eitt af slakari liðum Evrópu mun leika á EM, þ.e.a.s. lið úr D-deild Þjóðadeildarinnar. Þau fjögur lið sem unnu sína riðla í D-deildinni og eru örugg í umspilið eru: Georgía, Norður-Makedónía, Kosóvó og Hvíta-Rússland.

Þetta mun allt saman koma betur í ljós eftir að undankeppninni lýkur. Ísland er með sex stig eftir þrjá leiki í undankeppninni og mætir Tyrklandi á Laugardalsvelli á þriðjudagskvöld.

EM alls staðar
EM 2020 verður haldið víðs vegar um Evrópu. Leikstaðirnir eru: London, Bakú, München, Róm, Sankti Pétursborg, Amsterdam, Bilbao, Búkarest, Búdapest, Kaupmannahöfn, Dublin og Glasgow.

Undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikurinn mun fara fram á Wembley í Englandi.

Nánar má lesa um málið hérna.

Ef þú botnar ekki alveg í því sem skrifað var hér að ofan þá er hægt að horfa á útskýringamyndband frá UEFA hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner