mán 22. júlí 2019 17:30
Magnús Már Einarsson
Áhugaverð saga dýrasta leikmanns Aston Villa - Tveggja barna faðir 16 ára
Wesley Moraes.
Wesley Moraes.
Mynd: Getty Images
Í leik með Club Brugge.
Í leik með Club Brugge.
Mynd: Getty Images
Brasilíski framherjinn Wesley Moraes varð í sumar dýrasti leikmaðurinn í sögu Aston Villa þegar nýliðarnir punguðu út 22 milljónum punda til að fá hann í sínar raðir frá Club Brugge.

The Guardian birti um helgina áhugaverða grein um hinn 22 ára gamla Wesley.

Wesley var einungis níu ára gamall þegar faðir hans lést úr heilaæxli. Wesley eignaðist sjálfur sitt fyrsta barn 15 ára gamall og ári síðar eignaðist hann dóttur með annarri konu í Brasilíu.

Wesley fór 17 ára til Evrópu í von um að komast að hjá félagi þar og reyndi meðal annars fyrir sér með unglingaliði Atletico Madrid. Ekki fékk hann þó samning þar svo á endanum fór hann aftur til Brasilíu þar sem hann var í verksmiðjuvinnu.

Árið 2015 fékk Wesley sénsinn hjá Trencin í Slóvakíu en þar á bæ komust menn að því að annar fótur hans er 3 cm stærri en hinn.

„Þetta er áhugavert því stundum lítur út eins og Wesley sé að haltra á vellinum. Hann er hins vegar mjög fljótur. Hann er sérstakur leikmaður," segir Robert Rybnicek, framkvæmdastjóri Trencin.

Wesley stoppaði stutt við í Slóvakíu áður en Club Brugge keypti hann. Þar á bæ þurftu forráðamenn félagsins að koma betri aga á mataræði og svefninn hjá leikmanninum.

„Við fórum alltaf með honum í matvörubúðina til að kaupa nákvæmlega það sem þurfti," sagði Dévy Rigaux hjá Club Brugge.

Wesley skoraði þrettán mörk í belgísku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og nú hefur Aston Villa ákveðið að veðja á þennan stóra og stæðilega framherja.

Rigaux segist hafa séð myndir frá Brasilíu af 25 manns sem treysta á að Wesley sendi pening heim fyrir mat og nauðsynjum. Þar er um að ræða fjölskyldu og vini hans.

Wesley hefur því stóran hóp sem hann þarf að sjá um en áhugavert verður að sjá hvernig honum vegnar í ensku úrvalsdeildinni með Aston Villa.

Smelltu hér til að lesa grein The Guardian
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner