Sævar Atli Magnússon (Leiknir R.)
Sævar Atli Magnússon sóknarmaður Leiknis R. í Inkasso-deildinni skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Njarðvík í 14. umferð deildarinnar í síðustu viku.
Sævar Atli er leikmaður 14. umferðar Inkasso-deildarinnar.
Sævar Atli er leikmaður 14. umferðar Inkasso-deildarinnar.
„Mér fannst við stjórna leiknum frá upphafi til enda. Við þorðum að spila boltanum með grasinu frá fyrstu mínútu og við fengum mjög mikið af góðum leikstöðum á síðasta þriðjung sem við hefðum klárlega getað nýtt betur," sagði Sævar Atli aðspurður út í leikinn en hann var ánægður með varnarleik liðsins.
„Við vorum rosalega solid varnarlega og mér fannst þeir aldrei líklegir til að skora fyrir utan smá kafla í byrjun seinni hálfleiks. þetta var virkilega góður liðssigur og virkilega gott að ná að halda hreinu annan leikinn í röð," sagði Sævar Atli en þetta var þriðji sigurleikur Leiknis í röð í deildinni.
Hann segist vera nokkuð sáttur með sína eigin frammistöðu í leiknum sjálfum.
„Ég var mikið í boltanum og var bæði að búa til færi fyrir liðsfélaganna og sjálfan mig. Það er svo auðvitað mjög sterkt að skora tvö mörk því ég hafði ekki gert það hingað til í sumar. Frammistaðan mín í síðustu leikjum hefur verið góð en ég var ekki nógu ánægður með mig í byrjun sumars og mér fannst ég þurfa að skipta úr þriðja gír í þann fjórða þennan seinni hluta tímabilsins," sagði hinn 19 ára Sævar Atli sem lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Leikni tímabilið 2015.
Leiknir er í 4. sæti Inkasso-deildarinnar með 24 stig, þremur stigum á eftir Þór sem situr í 2. sæti deildarinnar. Hann segir að stigasöfnun liðsins í sumar komi sér alls ekkert á óvart.
„Við erum með hrikalega góðan og breiðan hóp og erum í frábæru líkamlegu standi. Ofan á það erum við síðan drullugóðir í fótbolta. Það var eiginlega bara spurning um hvenær ekki hvort við færum loksins að tengja nokkra sigurleiki saman," sagði Sævar Atli sem segir spilamennsku liðsins í sumar hafa verið upp og ofan.
„Eins og kannski margir vita og margir töluðu um vorum við eiginlega búnir að skapa þetta mynstur að vinna tvo leiki og síðan tapa tveimur leikum og þannig það var virkilega sætt að vinna Njarðvík og ná þessum þriðja sigurleik í röð."
Fyrr í sumar hætti Stefán Gíslason þjálfari Leiknis sem þjálfari liðsins og tók við belgísku B-deildarliði. Sævar Atli viðurkennir að það hafi verið smá högg fyrir liðið.
„Þetta kom okkur svo mikið á óvart. Við vorum boðaðir á fund þegar við áttum frídag og þar var okkur tilkynnt að hann hefði tekið við starfi erlendis frá svo þetta var eiginlega þruma úr heiðskýru lofti. Siggi hefur komið virkilega vel inní þetta sem head coach enda unnu hann og Stebbi þetta virkilega vel saman í upphafi mótsins. Síðan er allt þjálfarateymið virkilega flott og þeir smellpassa saman þannig mér líst mjög vel á restina af sumrinu."
Sævar Atli skoraði níu mörk í Inkasso-deildinni síðasta sumar og í sumar er hann kominn með sjö mörk. Hann segist vera með skýr markmið um markaskorun í sumar.
„Markmiðið fyrir sumarið er að komast í þessa svokölluðu tveggja stafa tölu og ég er á fínni leið með það," sagði Sævar Atli. Að lokum var hann spurður að því hvort hann stefni á að spila í Pepsi Max-deildinni á næsta tímabili.
„Auðvitað vill maður alltaf spila á sem hæstu leveli en mér líður virkileg vel hjá Leikni og hefur alltaf liðið vel hjá Leikni enda er þetta minn uppeldisklúbbur. Núna er ég bara að fókusa á tímabilið sem er í gangi en ef við höldum áfram að spila svona vel líkt og við höfum gert í síðustu leikjum þá erum við bara komnir í þá baráttu sem við eigum heima í, sem er toppbaráttan," sagði Sævar Atli Magnússon leikmaður 14. umferðar Inkasso-deildarinnar.
Leiknir mætir Gróttu á Leiknisvelli í kvöld, leikurinn hefst klukkan 19:15.
Sjáðu einnig
Bestur í 13. umferð - Dino Gavric (Þór)
Bestur í 12. umferð - Guðmundur Karl Guðmundsson (Fjölnir)
Bestur í 11. umferð - Kenneth Hogg (Njarðvík)
Bestur í 10. umferð - Jasper Van Der Hayden (Þróttur)
Bestur í 9. umferð - Már Ægisson (Fram)
Bestur í 8. umferð - Marcao (Fram)
Bestur í 7. umferð - Gunnar Örvar Stefánsson (Magni)
Bestur í 6. umferð - Alvaro Montejo (Þór)
Bestur í 5. umferð - Nacho Heras (Leiknir R.)
Bestur í 4. umferð - Emir Dokara (Víkingur Ó.)
Bestur í 3. umferð - Axel Sigurðarson (Grótta)
Bestur í 2. umferð - Rúnar Þór Sigurgeirsson (Keflavík)
Bestur í 1. umferð - Stefán Birgir Jóhannesson (Njarðvík)
Athugasemdir