Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 27. september 2008 17:54
Gunnar Gunnarsson
Umfjöllun: HK-ingar unnu sigur á áhugalausum Blikum
Hörður Már Magnússon skoraði fyrsta mark leiksins
Hörður Már Magnússon skoraði fyrsta mark leiksins
Mynd: Vilhjálmur Siggeirsson
Aaron Palomares átti góðan dag í liði HK
Aaron Palomares átti góðan dag í liði HK
Mynd: Vilhjálmur Siggeirsson
Marel lagaði stöðuna fyrir Blika undir lokin en það var of seint
Marel lagaði stöðuna fyrir Blika undir lokin en það var of seint
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK 2 - 1 Breiðablik
1-0 Hörður Már Magnússon ('5)
2-0 Aaron Palomares ('17)
2-1 Marel Jóhann Baldvinsson ('85)
Rautt spjald: Guðmundur Kristjánsson ('82)

Það var nágrannaslagur af bestu gerð í Kópavogi þegar Breiðablik og HK-ingar áttust við á Kópavogsvelli í lokaumferð Landsbankadeildar karla í dag. Þrátt fyrir að mikilvægi leiksins væri ákaflega lítið þar sem HK-ingar voru fyrir leikinn fallnir og Blikar að sigla algjörlega lignan sjó um miðja deild var ekki þumlungur gefinn eftir.

Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta gula spjaldinu sem kom eftir aðeins tveggja mínútna leik. Guðmann Þórisson nældi sér í það eftir tæklingu á Aaron Palomares.

HK-ingar byrjuðu miklu mun betur og á fjórðu mínútu small knötturinn í stöng Blika eftir skot frá Rúnari Má Sigurjónssyni. Þetta var góð viðvörun fyrir þá grænklæddu en þeir þurftu að hirða knöttinn úr netinu aðeins mínútu síðar.

Hörður Már Magnússon var þar að verki í kveðjuleik sínum fyrir HK en hann fékk laglega sendingu frá Stefáni Eggertssyni af hægri kantinum. Algjör óskabyrjun fyrir HK gegn erkifjendum sínum.

Blikar voru alls ekki líkir sjálfum sér en HK-ingar léku við hvurn sinn fingur og voru fullkomnlega með hugann við verkefnið. Það kom því alls ekki á óvart þegar Aaron Palomares skoraði eftir laglega sókn á 17. mínútu og staðan því orðin 2-0.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Hörður Magnússon svo þriðja mark HK en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Blikar voru satt best að segja arfaslakir og aukspyrna frá Jóhannni Berg um miðjan hálfleikinn var það næsta sem Blikar komust en skotið var auðveldlega varið af Gunnleifi í marki HK.

Hörður Magnússon fékk svo gullið tækifæri til að bæta þriðja markinu við fyrir HK rétt fyrir leikhlé þar sem hann var einn á móti markmanni Blika en Vignir gerði vel og varði.

Seinni hálfleikur byrjaði frekar rólega en Blikar fengu fyrsta hættulega færið. Jóhann Berg tók þá aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateiginn hægra megin á 58. mínútu en skot hans smaug rétt framhjá vinklinum.

Áfram héldu Blikar að reyna að minnka muninn og á 66. mínútu fékk Marel Baldvinsson sannkallað dauðafæri einn á móti Gunnleifi en besti markvörður Íslandsmótsins sýndi stórkostlega markvörslu og kom í veg fyrir að þeir grænklæddu kæmust inn í leikinn.

Rautt spjald fór á loft á 81. mínútu þegar Guðmundur Kristjánsson kastaði drullu í andlit Almir Cosic sem lá á vellinum. Vítaverður kjánaskapur hjá Guðmundi sem fékk eingöngu það sem hann átti skilið hjá dómara leiksins.

Blikar virtust hressast við að missa mann af velli því Marel Jóhann Baldvinsson minnkaði muninn á 85. mínútu eftir baráttu í teignum og spennandi lokamínútur fóru því í hönd. En HK-ingar héldu út og fögnuðu sætum sigri á grönnum sínum 2-1.

Lokastaðan í deildinni olli því báðum liðum töluverðum vonbrigðum en HK-ingar féllu niður í 1. deild og Blikar enduðu leiktíðina í áttunda sæti.

Byrjunarlið HK: Gunnleifur Gunnleifsson (M) (F), Finnur Ólafsson, Ásgrímur Albertsson, Stefán Jóhann Eggertsson, Hörður Már Magnússon, Hörður Árnason, Hörður Magnússon, Finnbogi Llorens, Aaron Palomares, Damir Muminovic, Rúnar Már Sigurjónsson.

Varamenn: Ögmundur Ólafsson (M), Goran Brajkovic, Iddi Alkhag, Hafsteinn Briem, Almir Cosic, Ólafur Júlíusson og Erdzan Beciri.

Breiðablik: Vignir Jóhannesson (M), Guðmann Þórisson, Guðmundur Kristjánsson, Finnur Orri Margeirsson, Alfreð Finnbogason, Kristinn Jónsson, Arnar Grétarsson (F), Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Nenad Zivanovic, Marel Jóhann Baldvinsson.

Varamenn: Hörður Sigurjón Bjarnason (M), Steinþór Freyr Þorsteinsson, Olgeir Sigurgeirsson, Magnús Páll Gunnarsson, Kristinn Steindórsson, Nenad Petrovic og Srdjan Gasic.

Maður leiksins: Aaron Palomares
Áhorfendur: um 1000 manns
Aðstæður. Völlurinn ljótur að sjá eftir rigningartíð að undanförnu.
Dómari: Eyjólfur Kristinsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner