Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   lau 23. ágúst 2003 00:00
Elvar Geir Magnússon
Víkingar komnir í annað sætið
Mynd: Elvar Geir Magnússon
Mikil eftirvænting var fyrir leik Víkings og Þórs í 1.deild karla í dag. Öll umgjörð í Víkinni var til fyrirmyndar og fjölmargir áhorfendur mættu á leikinn í góða veðrinu. Fyrir þennan leik voru Þórsarar í öðru sætinu með stigi meira en Víkingur og úrslit þessa leiks skipta líklega miklu máli í lok keppninnar.

Víkingar virtust koma ákveðnari til leiks en fengu síðan á sig mark. Þórsarar fengu aukaspyrnu, Steinþór Gíslason gerði slæm mistök í vörninni og boltinn rataði á kollinn á Inga Hrannari Heimissyni sem átti glæsilegan skalla sem rataði í netið og gestirnir komnir yfir. Það er ekki hægt að segja að Víkingar hafi ekki fengið færi í fyrri hálfleiknum, Stefán Örn Arnarsson fékk sannkallað dauðafæri strax eftir markið en hitti boltann vægast sagt illa.

Þá átti Daníel Hjaltason góðan skalla að marki Þórs sem Atli Már Rúnarsson varði á stórglæsilegan hátt. Alexandre Santos bjó ekki oft til usla í vörn Víkings en gerði það eitt sinn í fyrri hálfleik svo litlu munaði að Þórsarar kæmust í 2-0. Jón B. Hermannsson átti líka gott færi í lok fyrri hálfleiks en náði ekki að skora. Víkingar voru svo stálheppnir rétt fyrir hálfleik að lenda ekki tveimur mörkum undir þegar Þórsarar skutu í slána og svo stuttu seinna var Pétur Heiðar Kristjánsson felldur innan teigs og er undirritaður ekki frá því að þar hefði Gísli dómari mátt dæma vítaspyrnu.

Víkingar voru mun betri í seinni hálfleiknum, markið lá í loftinu og Þórsarar áttu fáar teljanlegar sóknr. Víkingar áttu m.a. skot sem lenti ofan á þverslánni áður en þeir náðu að jafna en það gerði Grétar S. Sigurðsson með skalla eftir hornspyrnu. Heimamenn héldu áfram að sækja og Daníel Hjaltason kom þeim yfir með góðu skoti. Hann fékk nægt pláss til að athafna sig og gerði vel. Þórsarar misstu Jóhann Þórhallson útaf með rautt spjald en hann braut illa á Sölva Ottesen sem þurfti að fara af leikvelli í kjölfarið. Jóhann var kominn með gult spjald en fékk beint rautt fyrir brotið.

Það var svo Jón B. Hermannsson sem tryggði Víkingum 3-1 sigur með lokamarkinu. Atli í Þórsmarkinu gerði sig sekan um hrikaleg mistök eftir að Hlynur Birgisson gaf til baka á hann og sparkaði knettinum í Jón sem var vel með á nótunum. Með þessum sigri komust Víkingar tveimur stigum yfir Þór þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir en þessi tvö lið eru að bítast um annað sætið og þar með þátttökurétt í Landsbankadeildinni næsta sumar. Við skulum líta á stöðuna í deildinni og leikina sem þessi tvö lið eiga eftir.

1 Keflavík 15 11 3 1 42 : 15 27 36 
2 Víkingur 15 8 6 1 23 : 11 12 30 
3 Þór 15 8 4 3 37 : 28 9 28 
4 Stjarnan 15 5 7 3 26 : 20 6 22 
5 HK 15 5 3 7 23 : 25 -2 18 
6 Njarðvík 15 4 5 6 30 : 32 -2 17 
7 Breiðablik 15 5 2 8 18 : 23 -5 17 
8 Haukar 15 4 4 7 18 : 28 -10 16 
9 Afturelding 15 4 2 9 16 : 32 -16 14 
10 Leiftur/Dalvík 15 2 2 11 19 : 38 -19 8

Leikir sem Víkingur á eftir:
Stjarnan (ú)
Breiðablik (h)
Keflavík (ú).

Leikir sem Þór á eftir:
Haukar (h)
Stjarnan (ú)
Leiftur/Dalvík (h).


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner