Lentu 2 -0 undir í Vesturbænum en jöfnuðu
KR 2 - 2 Haukar
1-0 Björgólfur Takefusa KR ('17)
2-0 Guðjón Baldvinsson KR ('31)
2-1 Úlfar Hrafn Pálsson Haukar ('78)
2-2 Pétur Ásbjörn Sæmundsson KR ('88)
1-0 Björgólfur Takefusa KR ('17)
2-0 Guðjón Baldvinsson KR ('31)
2-1 Úlfar Hrafn Pálsson Haukar ('78)
2-2 Pétur Ásbjörn Sæmundsson KR ('88)
KR og Haukar áttust við í Vesturbænum í kvöld í fyrstu umferð Pepsí deildar karla í knattspyrnu. Liðunum er spáð ólíku gengi í deildinni í sumar. KR er af flestum taldnir vera það lið sem ætti að hampa titlinum í lok móts á meðan flestir spá því að Haukar fari aftur beint niður í fyrstu deild. En Haukar voru í kvöld að spila sinn fyrsta leik í efstu deild í 31 ár.
Leikurinn einkenndist stærstan hluta af yfirburðum KR. Það voru ekki nema 30 sekúndur liðnar af leiknum er Gunnar Örn Jónsson þaut upp kantinn og komst í gott færi en því miður fyrir KR að þá nýttu þeir það ekki. Hauka menn lágu aftarlega á vellinum og KR yfirspiluðu þá algjörlega. Þeir áttu fjölda sókna og fengu bara í fyrri hálfleik 9 hornspyrnur.
Það var síðan á 17.mínútu er afmælisbarnið Björgólfur Takefusa skoraði mark eftir góða sendingu frá Gunnari Erni Jónssyni. Virkilega vel gert hjá Björgólfi sem fagnaði í dag 30 ára afmælinu sínu.
Annað mark KR kom síðan á 31. Mínútu en þar var Guðjón Baldvinsson á ferðinni en hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu sem Bjarni Guðjónsson tók. Aðdragandinn að hornspyrnunni var sá að Óskar Örn Hauksson átti skalla þar sem boltinn fór í jörðina og upp aftur og þar þurfti Daði Lárusson að taka á honum stóra sínum til að blaka boltanum yfir.
Til marks um hversu mikill munur var á liðunum stærsta hluta leiksins að þá áttu Haukar sitt fyrsta skot að marki ekki fyrr en á 26.mínútu leiksins.
Það var ekki margt sem benti til þess að Haukar myndu fá eitthvað úr þessum leik þegar liðin gengu aftur inn á völlinn í seinni hálfleik og KR hélt sínu frábæra spili áfram framan af seinni hálfleik. En á 56.mínútu áttu Haukar þó dauðafæri þegar Sam Mantom var virkilega óheppinn að skora ekki þegar hann var átti góðan skalla að marki KR. Við þessa sókn var eins og Haukar lifnuðu til lífsins og þeir fóru að spila fótbolta en voru samt slakari en KR.
Á 66. mínútu munaði litlu að Björgólfur myndi bæta við þriðja markinu því að hann átti stórglæsilegt skot utan af velli sem fór í samskeytin og boltinn barst í kjölfarið til Guðjóns Baldvinssonar sem skallaði boltann framhjá. Stuttu seinna eða aðeins tveim mínútum seinna átti Óskar Örn Hauksson skot í slánna.
En á 72. mínútu varð þvílíkur viðsnúningur í leiknum að sá sem þetta ritar hefur varla séð annað eins. Haukar gerðu þriðju og síðustu breytinguna á liði sínu og inn á kom leikmaður að nafni Úlfar Hrafn Pálsson og hann átti eftir að koma við sögu í leiknum. Það virtist slökkna á leikmönnum KR og það var eins og þeir teldu að sigurinn væri kominn í hús en Haukar voru því ekki sammála og tóku völdin á vellinum.
Það skilaði árangri á 78. mínútu var fyrrnefndur varamaður Úlfar Hrafn Pálsson á ferðinni og minnkaði hann muninn fyrir Hauka. Það hefði átt að nægja til þess að vekja KR aftur til lífsins en gerði það ekki.
Því Haukar héldu áfram að keyra á KR og náðu undirtökunum á vellinum og hið ótrúlega gerðist að þeir jöfnuðu leikinn á 88.mínútu með marki frá Pétri Ásbirni Sæmundssyni.
Haukar voru ekki hættur og hefðu jafnvel getað bætt við þriðja markinu á síðustu mínútunum en náðu því ekki. Því endaði leikurinn með 2 – 2 jafntefli.
Það verður að segjast eins og er að jafntefli er ekki kannski sanngjörnustu úrslitin því að KR hefði átt að vera búnir gera út um leikinn með öllum þeim færum sem þeir fengu og spilamennskunni sem þeir sýndu fyrstu 75 mínúturnar.
En Haukar sýndu gjörsamlegan frábæran karakter með því að koma til baka og jafna leikinn eftir að hafa lent 2-0 undir. Það eru ekki mörg lið sem hafa gert það á móti KR í Vesturbænum. KR-ingar geta nagað sig í handarbökin fyrir að hafa glutrað niður unnum leik en Haukar geta ekki verið annað en hrikalega ánæðir.
Spjöld: Hilmar Geir Eiðsson (gult) og Arnar Gunnlaugsson (gult)
Lið KR: Lars Ivar Moldsked, Bjarni Eggerts Guðjónsson, Skúli Jón Friðgeirsson, Baldur Sigurðsson, Óskar Örn Hauksson, Björgólfur Hideaki Takefusa, Viktor Bjarki Arnarsson, Mark Richard Rutgers, Gunnar Örn Jónsson, Guðjón Baldvinsson, Jordao Da Encarnacao T. Diogo
Varamenn: Þórður Ingason, Kjartan Henry Finnbogason, Gunnar Kristjánsson, Egill Jónsson, Ingólfur Sigurðsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson, Eggert Rafn Einarsson
Lið Hauka: Daði Lárusson, Kristján Ómar Björnsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Hilmar Trausti Arnarsson, Hilmar Geir Eiðsson, Þórhallur Dan Jóhannsson, Arnar Bergmann Gunnlaugsson, Guðmundur Viðar Mete, Pétur Ásbjörn Sæmundsson, Kristján Óli Sigurðsson, Sam Mantom
Varamenn: Úlfar Hrafn Pálsson,Hilmar Rafn Emilsson, Gunnar Ásgeirsson, Ísak Örn Einarsson, Jónmundur Grétarsson, Daníel Einarsson, Amir Mehica
Dómari: Þóroddur Hjaltalín (ágætur)
Áhorfendur: 2112. Flottar aðstæður til knattspyrnuiðkunar
Maður leiksins: Gunnar Örn Jónsson