Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
banner
   sun 01. september 2024 21:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Undirbúningur Breiðabliks ekki ákjósanlegur - Löng frestun á flugi og menn með í maganum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var alls ekki ákjósanlegur undirbúningur hjá Breiðabliki fyrir leik liðsins gegn KA í dag. Blikar voru mættir á Reykjavíkurflugvöll snemma í dag, voru mættir upp í vél sem ætlaði í loftið um klukkan átta.

Það kom í ljós að gluggahitari í vélinni var ekki í lagi og þar sem gert var ráð fyrir miklum kulda á leiðinni norður var ekki hægt að fara með þeirri vél.

Lestu um leikinn: KA 2 -  3 Breiðablik

Blikar biðu á flugvellinum í talsverða stund í óvissu um hvenær næsta vél færi, en fengu svo að vita ekki yrði flogið fyrr en í hádeginu. Menn gátu því farið aftur til síns heima og voru mættir aftur á flugvöllinn í hádeginu.

Farið var með þotu þar sem flugið í morgun var ekki það eina sem fór ekki um helgina og margir áttu eftir að komast norður. Blikar voru mættir upp úr klukkan 14:00 til Akureyrar.

Í aðdraganda leiksins fengu einnig nokkrir leikmenn Breiðabliks í magann, fengu hreinlega niðurgang. Kristinn Jónsson var einn þeirra en hann þurfti að biðja um skiptingu í seinni hálfleik.

Það kom þó ekki í veg fyrir að Blikar næðu að halda frábæru gengi sínu áfram, þeir mættu KA mönnum sem höfðu ekki tapað í tíu deildarleikjum og unnu 2-3 útisigur. Breiðablik er í toppsæti deildarinnar, þremur stigum á undan Víkingi sem á leik til góða.
Athugasemdir
banner
banner