Wales 1 - 2 Ísland
0-1 Hildur Antonsdóttir ('29 )
0-2 Diljá Ýr Zomers ('79 )
1-2 Elise Hughes ('94 )
Ísland tryggði sér 3. sætið í riðlinum í Þjóðadeildinni í kvöld með góðum sigri á Wales ytra.
Lestu um leikinn: Wales 1 - 2 Ísland
Heimakonur byrjuðu leikinn betur en Ísland komst yfir þvert gegn gangi leiksins þegar Hildur Antonsdóttir kom boltanum í netið af miklu harðfylgi.
Sædís Rún Heiðarsdóttir átti þá góða fyrirgjöf og Hlín Eiríksdóttir stýrði boltanum í átt að Hildi sem kom á ferðinni og potaði boltanum í netið.
Hlín kom boltanum í netið eftir tæplega klukkutíma leik með hælnum en hún átti erfitt með að fóta sig í aðdragandanum og fékk boltann í höndina og markið dæmt af.
Diljá Ýr Zomers kom inn á sem varamaður stuttu síðar og gulltryggði sigur Íslands með glæsilegu marki. Hún átti skot rétt fyrir utan vítateiginn og boltinn hafnaði í netinu.
Elise Hughes náði inn sárabótamarki fyrir Wales í uppbótatíma þegar hún skallaði boltann í netið.
Ísland hefur því tryggt sér umspilssæti um áframhaldandi veru í A deild en Wales er fallið niður í B deild.