Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mið 02. maí 2018 17:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Eru eigendur íþróttafélaga á Íslandi nægilega upplýstir?
Magnús Freyr Erlingsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Magnús Freyr Erlingsson.
Magnús Freyr Erlingsson.
Mynd: Úr einkasafni
Úr leik í Pepsi-deildinni.
Úr leik í Pepsi-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik í fyrstu umferðinni.
Úr leik í fyrstu umferðinni.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum og þar af leiðandi koma þær oft til tals þegar ég á í spjalli við annað fólk. Sjálfur æfði ég fótbolta og körfubolta á mínum yngri árum, á unglingsárunum var mér gert að velja á milliþessara tveggja íþrótta. Valið var erfitt og ég hef oft hugsað til baka hvort að ég hafi gert rétt með því að velja körfuboltann. Ég æfði körfubolta í nokkur ár eftir það eða þar til ég var um 18 ára. Það var sennilega unglingaveikin sem náði mér að lokum og ég tók félagslífið fram yfir íþróttina. Ég er félaginu mínu ævinlega þakklátur fyrir þessi ár, og öllu því frábæra fólki sem ég kynntist á þessum tíma. En þrátt fyrir að ég hafi hætt að æfa, hef ég ekki hætt að hafa skoðanir á liðinu mínu. Liðið sem hefur skapað svona margar sterkar minningar fyrir mig, bæði súrar og sætar. Oft á tíðum hafa þessar skoðanir snúið að hlutum sem ég hef minna vit á, eins og hvaða leikmenn mér finnist eigi að spila eða hver eigi að þjálfa liðin. En ég hef líka skoðanir á hlutum sem ég hef vit á, hlutum sem snúa að mér og öðrum sem stuðningsfólki liðsins.

Liðið sem ég kalla mitt er Knattspyrnufélag Reykjavíkur, einnig þekkt sem KR. Sigurhefðin er sterk þar á bænum og liðið hefur í gegnum tíðina oftast verið að keppa um titla, þrátt fyrir nokkrar lægðir. Það er því engin spurning að það er mikil pressa á því fólki sem stýrir þar skútunni, væntingarnar eru alltaf miklar. Mikið af þessu góða fólki sem starfar í kringum KR, gerir það í sjálfboðastarfi. Það skal engin deila um að virðið sem þessi sjálfboðavinna hefur skilað í gegnum tíðina og verður vart metin til fjár. Ég hef hinsvegar tekið eftir því, í tilfelli KR, að það er oft sama fólkið sem að sinnir mörgum af þessum störfum til lengri tíma. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort að skortur á endurnýjun í stjórnum hafi hingað til, og geti í framtíðinni, haft neikvæð áhrif á þróun og vöxt félagsins. Ef sama fólkið situr of lengi við stjórnvölin, er þá ekki hætta á að þau staðni í starfi og félagið með því? Ég tek hér KR sem dæmi því það er félagið sem stendur mér næst og ég þekki það vel. Í KR hefur uppbygging á mannvirkjum ekki verið mikil síðastliðna tvo áratugi. Sömu húsin, sama fólkið, dræm mæting og andrúmsloftið í kringum klúbbinn hefur ekki verið jafn slæmt í langan tíma. Það má hins vegar ekki líta fram hjá því að síðastliðna mánuði hefur átt sér stað nokkur endurnýjun innan ákveðinna deilda félagsins og margir spennandi hlutir í deiglunni.

Það hefur verið þó nokkur umræða um markaðsmál í íslenskum íþróttum síðastliðin ár og þau oft tengd við þá dræmu mætingu sem hér áður var nefnd. Lið í tveim efstu deildum knattspyrnunnar hafa t.d. stofnað hagsmunasamtök sem kallast Íslenskur Toppfótbolti (ÍT). Stefna ÍT er að félögin fái meira vægi í málefnum sem KSÍ hefur einhliða séð um hingað til, t.d. sölu á sjónvarpsréttindum. Dræm aðsókn hefur verið á leiki í efstu deild í fótbolta og mér hefur fundist hagsmunaaðilar eyða mestum tíma í að benda á hvorn annan í stað þess að líta inn á við. Fólk hefur mjög mismunandi skoðanir á því hver orsökin séu fyrir þessari lélegu mætingu og sjálfsagt er ekki hægt að rekja það til eins ákveðins þáttar. Það eru samt flestir sammála um að upplifunin af því að fara á leik í Pepsi deildinni er ekki góð og kemst ekki nálægt því sem gerist í efstu deild nágrannalanda okkar. Það er því ljóst að vegferðin sem íþróttafélögin okkar hafa verið á síðastliðin ár er ekki að skila tilætluðum árangri. Ég tel að þetta stafi mikið til af stöðnun og skorti á nýjungum í kringum markaðssetningu félaganna. Þessi skortur á nýjungum helst e.t.v. í hendur við þá litlu endurnýjun sem er í sjálfboðastörfum innan félaganna. Tvö lið í Pepsi deildinni, KA og Breiðablik, hafa gripið til þess að ráða til sín markaðs- og viðburðastjóra í fullt starf til að mæta þessum vanda. Það verður virkilega áhugavert að fylgjast með því hvernig þeim mun vegna í þeim málum.

KR fylgir, eins og mörg önnur íþróttafélög á Íslandi, svokölluðu frjálsu félagaformi. Ekki eru til heildarlög um þetta félagaform, aðeins óskráðar meginreglur. Samkvæmt þessum meginreglum eru það lög félagsins sem gildasem regluverk. Út frá lögum KR má túlka það sem svo að félagið sé í eigu stuðningsmanna þess hverju sinni, þ.a.s. skráðra félagsmanna á ári hverju. Allir skráðir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi hverrar deildar og geta þar komið skoðunum sínum á framfæri, sem og kosið fólk í stjórn. Það kemur mér því á óvart að engar upplýsingar um fjárhag eða útgjöld félagsins eru aðgengilegar félagsmönnum, hvorki á vef félagsins né annars staðar. Þegar ég byrjaði að rita þessa grein óskaði ég því eftir ársreikningumfrá bókara félagsins, en mér hefur ekki orðið erindi sem erfiði í þeim málum. Þessi skortur á gegnsæi veldur því að ég sem félagsmaður get ekki tekið vel upplýsta ákvörðun þegar ég ráðstafa mínu atkvæði á aðalfundi.

Félagaformið sem nefnt var hér á undan gerir það að verkum að engir einstaklingar eða fyrirtæki hafa beinan fjárhagslegan ávinning af velgengni íþróttafélaga á Íslandi, eigendur þess geta ekki hagnast persónulega. Þetta er gott fyrirkomulag að sumu leyti, en það eru líkavankantar á því. Til dæmis byggist hvatinn til þátttöku aðildarmeðlima í stjórnun félagsinsí einu og öllu á tilfinningalegri umbun, ef félaginu gengur velgleðst fólk og ef félaginu gengur illa líður fólkinu illa. Skortur á fjárhagslegum ávinningi getur gert það að verkum að hæfasta fólkið bjóði ekki fram krafta sína í ólaunuð störf innan félaganna. Það segir sig því sjálft, ef hæfasta fólkið fæst ekki til starfa mun þróun og vöxtur félaganna vera í samræmi við það. Til þess að sporna við þessum vanda þarf ekki endilega að breyta félagaforminu eða eignarhaldinu á félögunum. Með því að greiða fyrir stjórnarsetu í félögunum aukast líkurnar á að hæft fólk sækist í störfin og samkeppni um stöðurnar ætti einnig aukast.

Velta íslenskra íþróttafélaga getur verið töluvert mikil á ári hverju. Ef þessum fjármunum er ráðstafað á óskilvirkan hátt, en árangur liðsins inn á vellinum er ásættanlegur, má færa rök fyrir því stjórnarmenn muni ekki sætaábyrgð. Ef það er velgengni inn á vellinumsem stýrir því hvernig aðildarmeðlimir ráðstafa atkvæðum sínum á aðalfundi, þá er ekkert sem mælir með því að kjósa nýtt fólk inn þegar vel gengur. Það þarf því að auka gagnsæi í fjármálum félaganna og bæta töluvert aðgengi aðildarmeðlima að upplýsingum um útgjöld félaganna.

Ég tel að ef við ætlum að ná betri árangri, innan sem utan vallar, verðum við að endurhugsaumgenginna í kringum íþróttafélög á Íslandi. Ef að við ætlum aðhalda núverandi félagaformi verðum við að tryggja endurnýjun innan stjórna þeirra, fjármál félaganna verða að vera uppi á borðum og aðhaldið við stjórnendur þeirra verður að vera meira. Ábyrgðin liggur hjá okkur, eigendum félaganna, að breyta til hins betra. Næstu ár verða mikil sóknarfæri fyrir Íslensk íþróttafélög, við verðum að tryggja að þeim sé stýrt af besta fólkinu og að fjármunum félaganna sé ráðstafað á sem skilvirkastan hátt.
Athugasemdir
banner
banner