Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   fös 03. ágúst 2018 09:45
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Í ökkla eða eyra Hamren
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Rétti kosturinn?
Rétti kosturinn?
Mynd: Getty Images
Hamren við stjórnvölinn hjá sænska landsliðinu.
Hamren við stjórnvölinn hjá sænska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Þau hafa verið ansi misjöfn viðbrögðin við þeim fréttum að Erik Hamren, fyrrum landsliðsþjálfari Svía, sé vel á veg kominn í viðræðum við KSÍ um að taka við íslenska landsliðinu. Annað hvort eru menn mjög spenntir eða telja að það yrðu mistök að ráða Hamren.

Það er ljóst að ef Hamren verður fyrir valinu yrði ráðningin klárlega umdeild.

Eftir fréttir gærdagsins hef ég rætt við Íslendinga sem hafa búið í Svíþjóð og heyrt viðbrögð Íslendinga sem eru búsettir þar í dag. Viðbrögðin þaðan hafa verið frekar neikvæð. Sænskur blaðamaður segir að Hamren sé hreinlega óvinsæll í Svíþjóð og honum sé í nöp við fjölmiðla, eigi erfitt með að höndla þá og komi hlutunum illa frá sér.

(Að því sögðu var reyndar samband Lalla okkar Lagerback við sænska fjölmiðla á sínum tíma ekki það besta.. maður veit ekki hvernig maður á að lesa í þann punkt)

Hamren er sagður mjög ólíkur Lalla og að hann hafi átt í erfiðleikum með að mynda liðsheild. Hafi gefið Zlatan frumkvæði og a endanum lent á vegg með sænska liðið. Mikael Lustig sagði frá því í viðtali hvernig hann þurfti að taka ábyrgð á tapleik án þess að Hamren kom honum til varnar.

„Aldrei Hamrén. Hann er alltof soft fyrir starfið. Frekar Magnus Pehrsson, en ég held að hann sé ekki tilbúinn í þetta heldur. Svíi er ekki bara Svíi frekar en að allir íslenskir þjálfarar geti gert það sem HH hefur gert," skrifaði Björn Sigurbjörnsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Kristianstad í Svíþjóð, á Twitter.

Smári Jökull Jónsson, sem skrifað hefur íþróttafréttir á Vísi, er ekki heldur spenntur fyrir Hamren. Hann var búsettur í Svíþjóð þegar Hamren var landsliðsþjálfari Svía.

„Mér líst svo engan veginn vel á þetta, vonandi að ég hafi rangt fyrir mér ef af verður. Heillar mig ekki. Hann og Lars eru mjög ólíkar týpur, bæði hvað varðar leikstíl og karakter. Ekkert eitt nafn hefur heillað mig meira en annað af þeim sem hafa verið í deiglunni. Hamrén samt einna minnst," sagði Smári á Twitter.

Eftir árangur Lars Lagerback með Ísland er eðlilegt að horft sé til Svíþjóðar. Margir eru ánægðir með að rætt sé við Hamren um að taka nú við. Meðlimir Tólfunnar fóru fögrum orðum um Hamren og hans ferilskrá í hlaðvarpsþætti sem tekinn var upp í vikunni. Hann var settur efstur á óskalistann.

„Held að þetta sé virkilega skynsöm og spennandi ráðning," skrifaði Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, fréttaritari Fótbolta.net, á Twitter og Jón Kristjánsson fótboltaþjálfari skrifaði:

„Frábær þjálfari,fékk þann heiður að vera með honum í viku hjá Rosenborg. Er mikill Íslandsvinur og á nokkuð um vini hér."

Já viðbrögðin við þessum fréttum eru svo sannarlega misjöfn. En ljóst er að ef Hamren tekur við landsliðinu er hann að fara í gríðarlega erfitt verkefni. Samanburðurinn við Lagerback verður alltaf í umræðunni og landsliðshópurinn er að ganga í gegnum kaflaskil. Meðalaldurinn er orðinn ansi hár, lykilmenn að hverfa á braut og arftakar í vissar stöður vallarins ekki sjáanlegir. Svo þarf að taka símtal í Ragga Sig.

Það eru fróðlegar vikur framundan. Fyrsti leikur nýs landsliðsþjálfara verður eftir 35 daga, gegn Sviss ytra í Þjóðadeildinni. Tíminn flýgur.
Athugasemdir
banner
banner