Flestum er kunnugt um misjafna hegðun sumra foreldra á íþróttamótum barna sinna. Flestir foreldrar kunna að haga sér á íþróttamótum barnanna enda snýst þetta um börnin en ekki þá.
Reiðir foreldrar
Sem keppandi á nokkrum stórum fótboltamótum á Íslandi hef ég oft heyrt foreldra hrauna yfir dómara og jafnframt leikmenn. Það er hræðilegt að fólk kalli einhver ljót orð yfir 9 ára leikmenn á Orkumótinu í Vestmannaeyjum. Foreldrarnir eru samt mest að kalla á dómarana.
Ég hef dæmt nokkra leiki á N1 mótinu á Akureyri og get sagt að foreldrar verða að hugsa sinn gang. Dómarar gera mistök rétt eins og annað fólk en það þýðir ekki að það megi kalla þá ljótum orðum fyrir það.
Eflaust eru sumir foreldrar með leiðindi í öðrum íþróttum en fótbolta en ég þekki það ekki nógu vel þar sem ég hef mest keppt og dæmt leiki í fótbolta. Ég held líka að foreldrarnir séu reiðastir á fótboltamótum, það eru fjölmennustu mótin og mikið undir.
Lærum að vera hvetjandi
Foreldrar eiga það til að skarast inn í leikinn. Oft halda þeir að þeir séu þjálfararnir og segja til um hvað börnin þeirra eiga að gera í miðjum leik. Það er allt í lagi að vera hvetjandi og gíra leikmennina upp en mér finnst að þjálfararnir eigi að segja til um hvað leikmennirnir eiga að gera inni á vellinum.
Foreldrar eiga að vera fyrirmyndir barnanna og eiga að virða dómarann og leikmennina. Fyrir stuttu var ég aðstoðardómari á Stefnumóti 3. flokki kvenna í fótbolta. Þar sátu flottir Haukaforeldrar fyrir aftan mig og studdu liðið sitt allan leikinn. Þeir voru ekkert að væla í dómurum eða leikmönnum, heldur hvöttuliðið sitt og fögnuðu mörkunum þeirra skemmtilega. Þetta er það sem fótboltinn snýst um.
Ég vildi segja mína skoðun á þessu máli því það er með góðu móti hægt að bæta þetta. Lærum að hafa stjórn á okkur fyrir framan börnin og verum hvetjandi á réttan hátt. Fótbolti er svo skemmtileg íþrótt og við eigum að njóta hennar.
Höfundur er nemandi í 1. bekk í Menntaskólanum á Akureyri og áhugamaður um knattspyrnu.
Athugasemdir