Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 04. ágúst 2021 10:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Íslenska byltingin á Ítalíu: Getur reynst íslenskum fótbolta vel
Arnór Sigurðsson bættist í hóp Íslendinga á Ítalíu í síðustu viku.
Arnór Sigurðsson bættist í hóp Íslendinga á Ítalíu í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður.
Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óttar Magnús Karlsson.
Óttar Magnús Karlsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jakob Franz Pálsson í leik með Venezia.
Jakob Franz Pálsson í leik með Venezia.
Mynd: Heimasíða Venezia
Þórir Jóhann Helgason samdi á dögunum við Lecce. Núna eru tveir Íslendingar þar.
Þórir Jóhann Helgason samdi á dögunum við Lecce. Núna eru tveir Íslendingar þar.
Mynd: Lecce
Andri Fannar fær vonandi mörg tækifæri með aðalliði Bologna á næstu leiktíð.
Andri Fannar fær vonandi mörg tækifæri með aðalliði Bologna á næstu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á síðustu mánuðum hefur ítalski markaðurinn galopnast fyrir íslenska fótboltamenn.

Fremst þar í röðinni er Venezia, nýliðar í ítölsku úrvalsdeildinni. Félagið fékk í síðustu viku Arnór Sigurðsson lánaðan frá CSKA Moskvu í Rússlandi. Núna eru fimm Íslendingar á mála hjá liðinu, og fleiri á leiðinni.

Óttar Magnús Karlsson og Bjarki Steinn Bjarkason spila með aðalliðinu.

Jakob Franz Pálsson fór á láni til félagsins frá Þór í febrúar og var síðan keyptur í sumar. Valur lánaði Kristófer Jónsson í Venezia á dögunum en þeir koma til með að spila með unglinga- og varaliði félagsins. Hilmir Rafn Mikaelsson kemur þá til með að ganga til liðs við félagið frá Fjölni á næstunni.

Hver er ástæðan fyrir því að félag frá Feneyjum er farið að líta til íslenskra leikmanna allt í einu? Fótbolti.net hafði samband við umboðsmanninn Magnús Agnar Magnússon, sem starfar fyrir umboðsskrifstofuna Stellar Nordic. Allir íslensku leikmenn Venezia eru á vegum Stellar Nordic.

„Eigum við ekki að vona að þeir hafi gert sína vinnu að skoða leikmennina? Í framhaldinu hafa þeir samband við mig og Bjarka (Gunnlaugsson), og vilja fá leikmennina. Hvort sem það er Venezia eða önnur félög, þegar þau hafa fengið leikmenn sem þau eru ánægð með þá spyrja þau um fleiri leikmenn og fleiri stöður. Þá myndast traust og tengsl; þeir kíkja á leikmennina, finnst þeir góðir, svo fá þeir þá og vilja fá fleiri. Þetta er einhvers konar samblanda af mörgu," segir Magnús Agnar.

Venezia kom til okkar
Magnús Agnar segir að Venezia sé með gott njósnateymi. Það er augljóst að þetta njósnateymi er núna með augu á íslenska markaðnum þar sem er að finna ódýrari leikmenn en á mörgum öðrum stöðum.

„Venezia er í eigu bandarískra aðila sem eru aðeins meira 'open-minded' en hjá mörgum öðrum félögum. Það hefur gerst líka, síðustu 24 mánuði, að ítölsku félögin hafa verið spennt fyrir leikmönnum á Norðurlöndum."

Félögin á Ítalíu voru fyrir nokkrum árum síðan að leita meira til Norður-Afríku, til Króatíu og til landanna í kring að leikmönnum. Núna er það Ísland og Norðurlöndin sem heilla.

„Ítalía hentar vel fyrir okkur vel, varðandi leikstíl og annað. Auðvitað hefur það áhrif líka að íslensku leikmennirnir eru ódýrari," segir umboðsmaðurinn.

„Þeir (Venezia) eru með gott njósnateymi. Þegar þeir taka Jakob Franz, þá eru það þeir sem koma til okkar. Þeir taka Bjarka Stein og Óttar Magnús, þeir koma til okkar. Þeir eru með njósnadeild sem skoðar leikmenn, meðal annars út frá tölum."

Gott skref fyrir leikmennina og íslenskan fótbolta
Að fara til Ítalíu er spennandi skref fyrir unga íslenska leikmenn þar sem þeir fór að æfa við frábærar aðstæður. Ef leikmenn standa sig vel, þá geta þeir fengið tækifæri með aðalliðinu eins og sést hefur í tilfelli Andra Fannars Baldurssonar hjá Bologna.

„Jakob Franz hefur tekið gríðarlega framförum frá því hann fór. Þetta er frábært tækifæri fyrir strákana. Þetta er ekkert á móti Þór Akureyri eða þjálfurum almennt á Íslandi, en það gefur augaleið að þú tekur meiri framförum ef þú ert að æfa við bestu mögulegu aðstæður - heldur en á Íslandi, sérstaklega fyrir norðan. Ég held að það sé frábært fyrir þá að æfa við betri aðstæður, æfa með betri leikmönnum og spila á móti betri leikmönnum. Svo er spurning bara: Tekurðu tækifærið, tekurðu augnablikið?"

Með bandaríska eigendur, þá er mikið verið að skoða tölfræði og alls konar jöfnur og breytur, en eigendurnir í Venezia líta einnig mikið á karakter leikmanna.

„Þeir líta mikið á persónuleikann og það fólk sem vinnur hjá þeim spáir mikið í það. Ég held að þetta geti reynst íslenskum fótbolta mjög vel. Það hafa alltaf ungir og efnilegir strákar farið út. Það er ekkert nýtt. Það sem er nýtt í þessu er að við erum að fara á fleiri staði. Það var alltaf bara England eða Noregur. Núna eru þeir allt í einu að fara til Ítalíu og á fleiri staði líka. Ítalía reyndist Herði Björgvini mjög vel, hefur reynst Andra Fannari mjög vel, er að gera fínt fyrir Bjarka Stein og Mikael Egil Ellertsson - klárlega. Þetta er eitthvað sem er að virka."

„Við erum búnir að opna dyr sem skapar fleiri möguleika fyrir okkur. Núna er aðeins meira í boði," segir Magnús Agnar sem er með leikmenn í fleiri löndum. Má þar nefna Guðlaug Victor Pálsson í Schalke í Þýskalandi og Rúnar Már Sigurjónsson í Cluj í Rúmeníu.

Að lokum var Aggi, eins og hann er kallaður, beðinn um að taka saman í stuttu máli af hverju ítalski markaðurinn hefur opnast fyrir Íslendinga.

„Ítalarnir hafa ávallt haft áhuga á Dönum og Svíum. Fjármagnið á Ítalíu er ekki það mikið og núna í Covid eru þeir farnir að skoða leikmenn í öðrum löndum, markaði sem þeir voru ekki að skoða áður. Þar sjá þeir leikmenn sem eru flottir."

Ítölsk félög eru jafnframt að finna öfluga íslenska leikmenn út frá tölfræði en karakter íslenskra leikmanna er jafnframt mjög góður. „Tölfræðin hjálpar við að skoða staðreyndir, en þú getur ekki bara tekið ákvörðun út frá tölfræði. Þú verður líka að þekkja persónuleika leikmannsins og bakgrunn hans. Íslenskir leikmenn eru sjálfstæðir og duglegir, og ekki eigin hagsmunaseggir; þeir eru liðsmenn."

Íslenskir leikmenn á Ítalíu:
Andri Fannar Baldursson (Bologna)
Hlynur Freyr Karlsson (Bologna)
Gísli Gottskálk Þórðarson (Bologna)
Ari Sigurpálsson (Bologna)
Birkir Jakob Jónsson (Atalanta)
Óliver Steinar Guðmundsson (Atalanta)
Arnór Sigurðsson (Venezia)
Bjarki Steinn Bjarkason (Venezia)
Jakob Franz Pálsson (Venezia)
Kristófer Jónsson (Venezia)
Óttar Magnús Karlsson (Venezia)
Mikael Egill Ellertsson (Spal)
Sveinn Aron Guðjohnsen (Spezia)
Hjörtur Hermannsson (Pisa)
Brynjar Ingi Bjarnason (Lecce)
Þórir Jóhann Helgason (Lecce)

Það munu 2-3 nöfn bætast við þennan lista á næstu dögum.

Sjá einnig:
Nýr markaður fyrir íslensku félögin sem borgar betur
Athugasemdir
banner
banner