Ruben Amorim þjálfari Manchester United svaraði spurningum eftir 1-1 jafntefli við West Ham á Old Trafford.
Man Utd átti góða kafla í leiknum og tók forystuna snemma í síðari hálfleik en tókst ekki að tryggja sigurinn með öðru marki. Hamrarnir jöfnuðu þess í stað eftir hornspyrnu á lokakaflanum.
„Við áttum góða kafla en okkur tókst ekki að vera góðir allan leikinn. Við áttum góða og slæma kafla í báðum hálfleikum og áttum að loka leiknum eftir að við tókum forystuna. Við vorum með stjórn á leiknum og við vissum að föst leikatriði gætu verið vandamál útaf hæðarmuninum á liðunum," sagði Amorim.
„Við áttum að halda boltanum betur eftir að við tókum forystuna og verjast ofar á vellinum. Á endanum töpuðum tveimur stigum eftir fast leikatriði sem vannst eftir langan bolta upp völlinn. Við vorum ekki nógu grimmir á seinni boltana og stjórnuðum leiknum ekki nægilega vel.
„Við komumst oft í góðar stöður en það vantaði gæðin á lokaþriðjungnum. Við verðum að vinna næsta leik."
Man Utd er í 7.-9. sæti úrvalsdeildarinnar með 22 stig eftir 14 umferðir, tveimur stigum á eftir Chelsea sem situr í Meistaradeildarsæti.
„Cunha fékk færi til að vinna leikinn og það er svekkjandi að við höfum ekki gengið frá þessu þegar við fengum tækifærin. Við vorum sterkara liðið stærsta hluta leiksins en við vorum samt ekki nægilega góðir. Við verðum að gera betur."
Man Utd heimsækir botnlið Wolves um helgina.
Athugasemdir



