Hlusta á tilboð í Mateta næsta sumar - Mainoo efstur á óskalista Napoli - Ungur Þjóðverji á blaði hjá Liverpool og Man Utd
   fim 04. desember 2025 22:02
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalski bikarinn: Lazio sló Milan úr leik - Bologna vann
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það fóru tveir leikir fram í ítalska bikarnum í kvöld þar sem Lazio mætti AC Milan í stórleik kvöldsins.

Staðan var markalaus í hálfleik á Ólympíuleikvanginum í Róm en það ríkti þokkalegt jafnræði á milli liðanna.

Þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var allt enn í járnum og fékk Lazio hornspyrnu. Nuno Tavares spyrnti boltanum í teiginn og náði Mattia Zaccagni mjög góðum skalla sem endaði í netinu.

Milan tókst ekki að svara fyrir sig svo lokatölur urðu 1-0 fyrir Lazio og er stórveldi Milan úr leik í bikarnum.

Fyrr í kvöld hafði Bologna betur gegn Parma þrátt fyrir að hafa lent undir snemma leiks.

Heimamenn í Bologna voru sterkari aðilinn og jafnaði Jonathan Rowe metin fyrir leikhlé.

Í rólegum síðari hálfleik tókst Bologna ekki að gera sigurmarkið fyrr en á lokamínútunum. Þar var Santiago Castro á ferðinni eftir að hafa komið inn af bekknum.

Þessi úrslit þýða að Bologna tekur á móti Lazio í 8-liða úrslitum.

Lazio 1 - 0 Milan
1-0 Mattia Zaccagni ('80 )

Bologna 2 - 1 Parma
0-1 Adrian Benedyczak ('13 )
1-1 Jonathan Rowe ('38 )
2-1 Santiago Castro ('89 )
Athugasemdir
banner
banner