Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 05. júlí 2018 17:22
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Einu sinni VAR
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Nestor Pitana dómari notast við VAR á HM.
Nestor Pitana dómari notast við VAR á HM.
Mynd: Getty Images
VAR herbergi í Rússlandi.
VAR herbergi í Rússlandi.
Mynd: Getty Images
Ísland fékk VAR víti gegn Nígeríu á HM eftir að brotið var á Alfreð Finnbogasyni.
Ísland fékk VAR víti gegn Nígeríu á HM eftir að brotið var á Alfreð Finnbogasyni.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
VAR vakti ekki mikla lukku í enska bikarnum.
VAR vakti ekki mikla lukku í enska bikarnum.
Mynd: Sky Sports
Pistillinn birtist fyrst á romur.is

Myndbandsdómgæsla (e. VAR, video assistant referee) hefur mikið verið milli tannanna á fólki frá því heimsmeistaramótið í knattspyrnu hófst í júní.

Ég hef lengi reynt að ausa vatni úr því mígleka skipi sem myndbandstækni var í fótbolta. Í vetur var útlit fyrir að framtíð vídeódómgæslunnar væri ekki gott. Fleiri jusu vatni ofan í skipið en upp úr því og ekki hjálpaði afar skrýtin tilraun til að innleiða VAR í ensku bikarkeppninni á síðasta tímabili. En með vel heppnuðu heimsmeistaramóti er VAR-skipið aftur komið á réttan kjöl og flestir eru orðnir sammála um að vídeódómgæslan sé komin til að vera. Vonandi siglir fleyið nokkuð lygnan sjó upp frá þessu.

Í upphafi síðasta tímabils var vídeódómgæsla tekin upp í ítölsku A-deildinni (í. Serie-A) og í þýsku úrvalsdeildinni (Bundesligan). Margir knattspyrnuáhugamenn höfðu óttast þennan dag. Myndbandstækni er helsti óvinur blóðheita stuðningsmannsins sem mætir á völlinn til að styðja sitt lið. Fyrir mann með talsvert rómantíska nálgun á knattspyrnu eins og ég þá leyndi sér ekki mikiðð skeptisismi á þessa nýju tækni. Hættan fannst mér vera sú að of löng hlé yrðu á leikjum og að erfitt yrði að beita jafnræðisreglunni nægilega vel. Hvenær eru mistök nægilega stór til þess að nota megi myndbandstækni?

Þá eru ónefndar áhyggjur mínar af hinu dramatúrgíska eðli knattspyrnunnar sem skemmtiefni. Hvernig er tilfinningin við að liðið þitt skorar sigurmark á 95. mínútu en allir stuðningsmenn og leikmenn liðsins verða að halda í sér fögnuðinum þar til dómarinn hefur skoðað myndbandsupptöku? Hvað með hendi guðs hjá Maradona? Þetta ódauðlega mark sem stendur með gullskrift í knattspyrnusögunni? þetta mark væri úr leik ef myndbandsdómgæslan hefði verið komið til sögunnar á þessum tíma.

En áhyggjur mínar reyndust ástæðulausar þegar ég sá hvernig tæknin virkaði.

Í fyrsta lagi er ekki hægt að dæma VAR tæknina fyrr en eftir að ákveðin reynsla er komin á kerfið. Þetta eru mistökin sem gerð voru á Englandi þegar tæknin var notuð í útsláttarkeppni í fyrsta sinn. Stuðningsmenn sem upplifa að liðið þeirra dettur út úr keppni í fyrstu umferð vegna myndbandsdómgæslu munu alltaf hafa horn í síðu myndbandsdómgæslu. Það er bara eðli þess að vera stuðningsmaður. Jafnvel þótt ákvörðunin sé hárrétt munu blóðheitir stuðningsmenn nota slíkt sem bensín á bálið og staðhæfa að lið þeirra sé ranglæti beitt.

Þess vegna er mun eðlilegra að tæknin sé prófuð fyrst í einhvers konar deildarkeppni og hægt er að skoða stöðuna eftir að stuðningsmenn allra liða hafa upplifað að myndbandsdómgæsla fellur með þeim og á móti þeim. Svo er alkunna að stuðningsmönnum finnst dómari almennt vera með andstæðingum í liði.

Reynslan af myndbandsdómgæslu á Ítalíu þykir almennt góð. Sýnt hefur verið fram á að mikilvægum röngum ákvörðunum hafi fækkað úr 5% niður í um 1%. Það er mikil bertrun. Að auki hefur dýfum fækkað og þótt maður myndi halda að heildarleiktíminn myndi minnka með myndbandsdómgæslu og leikhléum sem fylgja, þá hefur það ekki gerst. Þvert á móti hefur raunverulegur leiktími (sá tími sem boltinn er í leik) aukist, mörgum til mikillar furðu.

Réttarríki knattspyrnunnar
En í umræðu um myndbandsdómgæslu finnst mér lítið hafa farið fyrir mikilvægasta atriðinu og það er að með myndbandsdómgæslu er réttaröryggi aukið til muna. Í knattspyrnu er spilað upp á gríðarlegar fjárhæðir, sama í hvaða deild er farið og hvort sem um ræðir veðmál eða fjárhagslega hagsmuni knattspyrnufélaganna sjálfra. Og alls staðar þar sem miklar fjárhæðir eru í húfi, eru einstaklingar með óhreint mjöl í pokahorninu.

Ekki skiptir máli hversu stórt sviðið er, eða hvort hagsmunirnir sem um ræðir eru fjárhagslegir eða annars eðlis. Síðustu lögreglurassíur og sviptingar í æðstu stjórn FIFA hafa sýnt að víða er pottur brotinn. Ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að finna dæmi þess á alþjóðlegu stórmóti að áhrif var haft á dómara í annarlegum tilgangi. Nafn Brasilíu var varla þornað á heimsmeistarabikarnum sumarið 2002 áður en einn dómarinn á heimsmeistaramótinu var dæmdur í 50 leikja bann fyrir hagræðingu úrslita í heimalandinu.

Myndbandsdómgæsla er liður í því að hægt sé að hafa stóru ákvarðanirnar réttar. Þær sem mestu máli skipta og gera dómara kleift að hafa áhrif á leikinn. Knattspyrnuheimurinn má aldrei verða værukær þegar kemur að því að tryggja hlutleysi dómara með því eftirliti sem VAR gefur. Þannig tryggjum við öryggi þeirra sem spila leikinn fallega.

Því þegar allt kemur til alls, og alveg sama í hversu knattspyrnurómantískum bjarma menn líta Maradona og hendi guðs, þá var markið auðvitað kolólöglegt og hefði réttilega ekki átt að standa. Rétt skal vera rétt.

Pistillinn birtist fyrst á romur.is
Athugasemdir
banner
banner