Man Utd og Dortmund vinna að skiptidíl - Osimhen til Chelsea?
   þri 05. júlí 2022 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óskar Hrafn: Það vinnur allavega ekki á móti okkur
watermark Óskar Hrafn
Óskar Hrafn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Oliver er aðeins tæpur
Oliver er aðeins tæpur
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
watermark Ég á von á því að ferðirnar hjálpi okkur upp á framhaldið að gera
Ég á von á því að ferðirnar hjálpi okkur upp á framhaldið að gera
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Sölvi Snær glímir við beinmar í ökkla.
Sölvi Snær glímir við beinmar í ökkla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Galdur er farinn til FCK
Galdur er farinn til FCK
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á fimmtudag mætir Breiðablik andorrska liðinu UE Santa Coloma í 1. umferð Sambandsdeildarinnar. Um er að ræða fyrri leik liðanna og fer hann fram á þjóðarleikvanginum í Andorra: Estadi Naciona - Andorra la Vella.

Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, í dag. Blikar ferðuðust út í gær, flugu til Barcelona og fóru með rútu til Andorra í dag.

Þarf að taka andstæðinginn alvarlega
„Mér líst mjög vel á þessa leiki og við erum fullir tilhlökkunar að mæta þeim. Við vitum svo sem ekkert rosalega mikið um þetta lið, miklar mannabreytingar frá því í fyrra, mér taldist til að það væru hátt í tuttugu menn inn og tuttugu menn út. Það er því mikið búið að breytast."

„Við sáum æfingaleik með þem um daginn, þeir eru bara lið - eins og öll önnur lið - sem þarf að taka alvarlega. Við eigum kannski að vera betra liðið á pappírunum en við sáum það hjá Víkingunum í forkeppni Meistaradeildarinnar að það er alls engin ávísun á að vinna leiki. Við þurfum að mæta auðmjúkir í þetta verkefni og gefa allt í leikinn."


Rúmir tveir mánuðir í að tímabilið byrji í Andorra
Tímabilið í Andorra byrjar í september og endar í maí. Liðin sem taka þátt í Evrópukeppnum eru því þessar síðustu vikur að spila æfingaleiki.

„Þessi lið eru að þreyja þorrann með æfingaleikjum og í rauninni bara innbyrðist æfingaleikjum. Deildinni lauk í lok maí þannig þeir eru að byrja aftur eftir sumarfrí. Þeir eru því kannski ekki í allra besta leikforminu og því er það þeim mun mikilvægara að byrja leikina af fullum krafti."

Andstæðingar Víkings með meiri reynslu í Evrópu
Er mikill munur á Santa Coloma og Inter d'Escaldes sem Víkingur mætti?

„Það sem maður veit er að Inter er reynslumeira lið þegar kemur að Evrópukeppnum, er rútíneraðara Evrópulið, hafa spilað fleiri leiki og eru kannski enn klókari en þetta Santa Coloma lið. Þetta er ekki sama Santa Coloma lið og Breiðablik mætti 2013 og Valur mætti 2018 [sem var FC Santa Coloma]. Þetta er hitt liðið. Við búumst við þeim góðum í því að hægja á tempóinu, góðum í að tefja leikinn, vel skipulagt lið sem kann að verjast og eru með fínan senter sem mun refsa okkur ef við missum einbeitinguna."

Inter vann andorrsku deildina á síðasta tímabili en UE Santa Coloma endaði í öðru sæti.

Hefur meiri stjórn þegar spilað er á gervigrasi
Það eru einungis gervigrasvellir í Andorra og er spilað á sama velli og íslenska karlalandsliðið spilaði á snemma árs 2019 í undankeppni EM. Blikar eru vanir því að spila á gervigrasi á sínum heimavelli.

„Það vinnur allavega ekki á móti okkur en aftur á móti eru þeir líka vanir því að spila á gervigrasi. Þú hefur kannski aðeins meiri stjórn á undirbúningnum fyrir leikinn. Við fundum það í Vestmannaeyjum á laugardaginn að þegar þú kemur á skraufaþurran grasvöll sem hefur ekki verið sleginn í nokkrar vikur þá breytist fótboltinn. Það verður erfiðara að gera það sem þú ert vanur að gera. En um leið að þú ferð á gervigras, sama hvar það er í veröldinni, þá geturu verið tiltölulega viss um að boltinn getur flotið hratt þannig það verður allavega tempó í leiknum og ég held að það vinni með okkur."

Fyrsta markmiðið að vinna á fimmtudag
Eruð þið með það sem markmið að vinna báða leikina í einvíginu eða snýst þetta bara um að fara áfram úr einvíginu?

„Við mætum í alla leiki til þess að vinna og að sjálfsögðu er fyrsta markmiðið að vinna leikinn á fimmtudaginn og svo höldum við bara áfram. Við ætlum að vinna leikinn á fimmtudaginn og fara áfram í þessu einvígi. Það er alveg ljóst."

Góður nætursvefn og hópurinn þjappast saman
Blikar flugu út í gær og ferðast svo í dag til Andorra og æfa seinni partinn. Er hentugara að vera fleiri daga en færri úti?

„Kosturinn við það að hafa farið út í gær er sá að við fljúgum um daginn til Barcelona og það er enginn skerrtur nætursvefn hjá leikmönnum sem er auðvitað bara frábært. Menn vöknuðu í gær á heimilum sínum og náðu aftur fullum svefni. Það er frábært að hafa tök á því að vera saman í þennan tíma, það þjappar hópnum saman og gefur mönnum mikið. Þetta er sterkur hópur og þéttur. Við fundum það í fyrra að þessar Evrópuferðir þjöppuðu hópnum saman, hristu hópnum enn betur saman og gerðu böndin milli manna sterkari. Ég á von á því að ferðirnar hjálpi okkur upp á framhaldið að gera."

Oliver tæpur fyrir leikinn
Eru allir klárir í slaginn fyrir leikinn á fimmtudaginn?

„Það eru í raun og veru allir klárir í slaginn nema Sölvi [Snær Guðbjargarson] og Pétur [Theódór Árnason]. Það er smá spurningamerki með Oliver, hann æfir í dag og það mun koma í ljós hvort hann sé alveg búinn að jafna sig á sínum meiðslum - stífnaði aftan í læri á móti Skaganum."

Óvíst hversu lengi Sölvi verður frá
Galdur Guðmundsson er farinn til Kaupmannahafnar. Horfiði á endurkoma Sölva úr meiðslum sem mann inn í hópinn fyrir Galdur?

„Við vonumst auðvitað bara til þess að Sölvi komist sem fyrst aftur inn á völlinn. Hann var kominn á mjög gott skrið áður en hann meiddist, er okkur mikilvægur. Það er algjör óvissa hversu lengi hann verður frá, er með beinmar í ökkla og það getur tekið langan tíma að jafna sig og erfitt að setja fingur á það hvenær hann verður klár. Við ætlum ekki að setja pressu á hann að koma inn og leysa stöðuna hans Galdurs akkúrat núna. Við ætlum að vinna með það sem við höfum, svo auðvitað skoðum við í kringum okkur og sjáum hvort það sé einhver sem getur styrkt liðið. Það verða að vera leikmenn sem styrkja okkur."

Loðinn og þurr Hásteinsvöllur
Þú nefndir aðeins þurran og ósleginn Hásteinsvöll áðan. Varstu ósáttur við aðstæður á laugardaginn?

„Þetta er bara eins og þetta er. Völlurinn var þurr, loðinn og erfiður - boltinn gekk hægt. En þegar á öllu er á botninn á hvolft þá fengum við nóg af færum til að vinna þennan leik," sagði Óskar.

Leikurinn á fimmtudag hefst klukkan 15:00 á íslenskum tíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner