
Alex Telles bakvörður brasilíska landsliðsins spilar ekki meira með á HM vegna meiðsla sem hann hlaut í leik liðsins gegn Kamerún á dögunum.
Telles kom inn á sem varamaður undir lok leiksins gegn Sviss í 2. umferð en hann var síðan í byrjunarliðinu gegn Kamerún. Hann þurfti hins vegar að fara af velli vegna meiðsla eftir rúman 50 mínútna leik.
Síðar kom í ljós að hann muni ekki jafna sig áður en HM lýkur.
Meiðsli hafa verið að hrjá brasilíska hópinn en Neymar meiddist í fyrstu umferð gegn Serbíu en hann var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn í kvöld síðan hann meiddist.
Neymar skoraði annað mark Brasilíu í 4-1 sigri á Suður Kóreu af vítapunktinum í kvöld og hann fagnaði því með því að hlaupa upp í stúku og faðma Telles.
Athugasemdir