Það er svokallað 'silly season' í gangi í íslenska fótboltanum núna. Félög og leikmenn eru að skoða í kringum sig á markaðnum. Við á Fótbolta.net höfum gaman að því að taka stöðuna en hér fyrir neðan má sjá lista yfir leikmenn úr Bestu deild karla sem gætu verið á leið í atvinnumennsku.
Víkingur R.
Valdimar Þór Ingimundarson er sagður vilja komast aftur að erlendis og það ætti ekki að vera mikið vandamál eftir tímabilið sem hann átti. Möguleiki er að tækifæri opnist fyrir Daða Berg Jónsson og Svein Gísla Þorkelsson erlendis, og þá er áhugi á Daníel Hafsteinssyni, Helga Guðjónssyni og Karli Friðleifi Gunnarssyni eftir frammistöðu þeirra síðastliðið sumar.
Valur
Lúkas Logi Heimisson átti fínt tímabil með Valsmönnum og félög erlendis gætu verið með augastað á honum. Heyrst hefur að Jónatan Ingi Jónsson gæti fært sig um set en það er þá líklegra að það verði skipti innanlands.
Stjarnan
Af leikmönnum Stjörnunnar er Örvar Eggertsson líklegastur til að fara í atvinnumennsku. Hann átti frábært tímabil og hefur líkamlega burði til að spila til dæmis í neðri deildum Englands.
Breiðablik
Ágúst Orri Þorsteinsson hefur spilað mjög vel með Breiðabliki í Evrópukeppni og það er að skapa umtal í kringum hann. Hugur Þorleifs Úlfarssonar er sagður leita aftur út og þá er möguleiki að Valgeir Valgeirsson fari aftur í atvinnumennsku.
Fram
Þorri Stefán Þorbjörnsson hefur vakið áhuga félaga erlendis en meðal annars hefur komið áhugi frá Englandi á honum. Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Fram, átti frábært tímabil og félög í Skandinavíu gætu horft til hans.
FH
Sigurður Bjartur Hallsson átti frábært tímabil með FH og gæti verið á leið út. Kjartan Kári Halldórsson er sömuleiðis á lista hjá félögum erlendis.
KA
Mikael Breki Þórðarson, ungur leikmaður, KA, hefur verið að vekja áhuga erlendis frá.
ÍA
Haukur Andri Haraldsson átti kannski ekki tímabilið sem fótboltaáhugamenn bjuggust við frá honum en hann er samt sem áður undir smásjá hjá félögum í Skandinavíu. Gabríel Snær Gunnarsson, sonur Gunnars Heiðars Þorvaldssonar, gæti líka tekið stökkið út en sænska félagið Elfsborg hefur sýnt honum mikinn áhuga.
ÍBV
Oliver Heiðarsson er auðvitað á leið út til Króatíu og þá er Hermann Þór Ragnarsson annar kraftmikill leikmaður sem gæti hafa heillað félög erlendis með frammistöðu sinni í sumar.
KR
Alexander Rafn Pálmason, einn efnilegasti leikmaður okkar Íslendinga, er á leið út til Danmerkur og þá eru félög erlendis að skoða sóknarmanninn Eið Gauta Sæbjörnsson. Júlíus Mar Júlíusson var í sumar undir smásjá erlendra félaga.
Úr liðunum sem komu upp eða féllu
Hrannar Snær Magnússon, leikmaður Aftureldingar, átti frábært tímabil í Bestu deildinni og er áhugi á honum erlendis frá. Hann fór nýverið á reynslu til Kalmar í Svíþjóð og er með samningstilboð frá norska úrvalsdeildarfélaginu Kristiansund. Kári Sigfússon, leikmaður Keflavíkur, er þá orðaður við félög frá Finnlandi og Noregi.
Einar Freyr Halldórsson, ungur miðjumaður Þórs, hefur vakið mikla athygli frá félögum erlendis og fengið tilboð, en það bendir allt til þess að hann verði áfram hjá Þór. Á meðal félaga sem hafa sýnt honum áhuga er norska félagið Brann þar sem Freyr Alexandersson er við stjórnvölinn en hann fór þangað til reynslu á dögunum.
Athugasemdir


