Lucas Paqueta fékk eitt fáránlegasta rauða spjald í sögu ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi þegar West Ham mætti Liverpool.
Paqueta fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili fyrir mótmæli. Dómarinn reyndi hvað hann gat til að gefa honum séns en það var eins og Paqueta vildi ekkert heitar en að fá rautt spjald.
Paqueta fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili fyrir mótmæli. Dómarinn reyndi hvað hann gat til að gefa honum séns en það var eins og Paqueta vildi ekkert heitar en að fá rautt spjald.
Paqueta fór svo á samfélagsmiðla eftir leikinn og gagnrýndi enska fótboltasambandið en nýverið lauk ákærumáli gagnvart honum þar sem hann var sakaður um brot á veðmálareglum. Var hann meðal annars sakaður um að fá viljandi gul spjöld en Paqueta var að lokum sýknaður í þessu máli.
„Kannski er þessi fáránlega hegðun bara spegilmynd af öllu sem ég hef þurft að þola og virðist þurfa að halda áfram að þola. Fyrirgefið ef ég er ekki fullkominn," sagði Paqueta og gagnrýndi enska sambandið fyrir að veita sér ekki sálfræðimeðferð.
Rætt var um þetta rauða spjald í Enski boltinn hlaðvarpinu.
„Þetta er eitt furðulegasta rauða spjald sem maður hefur séð frá því að maður byrjaði að fylgjast með ensku úrvalsdeildinni. Maðurinn fær gula spjaldið fyrir tuð og er að biðja um rauða spjaldið," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson.
„Er ekki Bowen fyrirliði liðsins? Það er ótrúlegt að enginn hafi komið þarna og rifið hann í burtu," sagði Magnús Haukur Harðarson.
„Mér finnst þetta rauða spjald miklu verra en það sem Idrissa Gueye gerir (þegar hann slær liðsfélaga). Hitt er stundarbrjálæði en þetta er bara galið. Það er galið að horfa á þetta. Dómarinn er mjög þolinmóður," sagði Maggi jafnframt.
Þetta leit ekki vel út fyrir Paqueta svona stuttu eftir að ákærumálið kláraðist þar sem hann var einmitt sakaður um að fá viljandi gul spjöld svo menn myndu vinna veðmál á því.
„Maður hugsaði strax veðmálasvindl þar sem hann hefur verið undir rannsókn," sagði Haraldur Örn Haraldsson.
„Þetta er allavega með því fáránlega sem maður hefur séð," sagði Guðmundur Aðalsteinn.
Hægt er að hlusta á alla umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir



