Heimild: Fotbollskanalen
Jonathan Levi, leikmaður Norrköping, hefur hrósað hinum stórefnilega Ísaki Bergmanni Jóhannessyni. Ísak, sem er aðeins 17 ára, er viðloðandi aðallið sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping og hefur hrifið margan manninn.
Ísak er fæddur árið 2003 en hann kom til Norrköping frá ÍA síðastliðinn vetur.
Levi, sem gekk nýlega í raðir Norrköping frá norska félaginu Rosenborg, hrósar Ísaki í viðtali við staðarmiðilinn Norrköpings Tidningar. Hann segir: „Ég veit ekki um marga 17 ára stráka sem eru svona einbeittir og taka fótbolta svona alvarlega eins og hann."
„Hann hefur hrifið mig ótrúlega mikið. Hann er auðvitað hæfileikaríkur fótboltamaður, en hann leggur svo mikla vinnu á sig. Vanalega eru margir aðrir hlutir að heilla 17 ára unglinga."
Ísak, sem er miðjumaður, var fyrr á þessu ári valinn efnilegasti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni. Gaman verður að sjá hvort að hann fái tækifæri í þeirri deild, en stefnt er á að hefja keppni í Svíþjóð um miðjan júní.
Athugasemdir