Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fim 07. júlí 2022 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég er komin til baka, ég er orðin ég sjálf"
Icelandair
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði.
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara á landsliðsæfingu.
Sara á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn í nóvember á síðasta ári; soninn Ragnar Frank.

Sara hefur lagt mikið á sig til að koma til baka eftir barnsburðinn og kemur hún til með að leiða íslenska landsliðið út í fyrsta leik á EM á sunnudaginn.

Sara var í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net á þriðjudaginn þar sem hún ræddi um endurkomuna á fótboltavöllinn. Var hún þar spurð hvernig hefði verið að mæta aftur fyrst út á völl eftir fæðinguna.

„Það var ótrúlega góð tilfinning að fá að sparka í bolta aftur. Ég man að á fyrstu æfingunni var ég ekki alveg ég sjálf. Ég átti í vandræðum með langa bolta, ég var smá stressuð að ég myndi togna í nára - ég var aðeins hikandi, skiljanlega. Þegar leið á, þá leið mér alltaf betur og betur," sagði Sara.

„Fyrst var eins og maður hafi verið í ‘slow-motion’ en eftir einhverjar tvær vikur þá hringi ég í Árna (Vilhjálmsson, sem er kærasti og barnsfaðir Söru). Ég sagði við hann: ‘Ég er komin til baka, ég er orðin ég sjálf’. Það er geggjuð tilfinning."

Sú tilfinning er enn til staðar
Það var mikilvægt fyrir Söru að finna þá tilfinningu; að hún væri aftur að finna sitt gamla form.

„Um leið og ég fann að ég var ég sjálf aftur á fótboltaæfingum þá hugsaði að ég væri ekki tilbúin að gefa þetta upp á bátinn," segir fyrirliðinn.

Hvað er það sem gerir það að verkum að hún er ekki tilbúin að gefa fótboltann upp á bátinn?

„Ég er enn jafn spennt að spila fótbolta og þegar ég var lítill krakki. Ég er pirruð að tapa og glöð að vinna; tilfinningin sem fótboltinn gefur mér yfir höfuð. Þegar maður missir þessa tilfinningu þá er hægt að kveðja,” segir Sara.
Sara er komin aftur - Fyrirliðinn fer yfir síðastliðin tvö ár
Athugasemdir
banner