Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mán 07. október 2019 08:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Djúp fótboltalægð yfir Eystrasaltinu
Elvar Geir skrifar frá Liepaja
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Frá Ríga í Lettlandi.
Frá Ríga í Lettlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Það er fótboltakrísa hjá Eystrasaltslöndunum. Eistland og Lettland eru bæði stigalaus á botni sinna riðla í undankeppni EM karla. Litháen er einnig á botninum í sínum riðli, með aðeins eitt stig.

Vinsælasta íþróttagrein heims er ekki að ná sömu vinsældum í Eystrasaltinu og hún hefur víðast annarstaðar.

Á ferðum mínum um Eistland hefur reynst erfitt að finna staði sem sýna fótboltann í beinni. Sportbarirnir eru gjarnari á að sýna skíðaíþróttir og körfubolta.

Fótbolti er heldur ekki meðal efstu íþróttagreina á blaðinu yfir þær vinsælustu í Lettlandi. Í Litháen er talsverður fótboltaáhugi en hann snýr aðallega að áhorfi á erlendar fótboltadeildir.

Mætingin á deildakeppnirnar í löndunum er ekki ýkja merkileg og þar hefur spilling og hagræðing úrslita, sem hefur verið vandamál í þessum löndum, allt annað en hjálpað. Svartur blettur á íþróttinni og fótboltaáhugamenn hafa lítinn áhuga á að mæta á leiki þar sem úrslitin eru ákveðin fyrirfram.

Félagsliðin ná ekki að gera sig gildandi í alþjóðlegum mótum og dapur árangur landsliðanna stuðlar alls ekki að því að kveikja áhuga.

Útlitið er það slæmt að UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, reynir að bregðast við með því að opna veskið. Stórlaxarnir hjá UEFA vilja að fótboltinn sé númer eitt um alla álfuna.

Sambandið hefur sett gríðarlegan pening í endurnýjun á þjóðarleikvangi Lettlands og ætla einnig að styrkja hin Eystrasaltslöndin á svipaðan hátt. Þá hafa peningar verið settir í uppbyggingarverkefni í löndunum til að fá ungt fólk í ríkari mæli til að velja fótboltann.

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, fundaði með þáverandi forseta Lettlands og formanni knattspyrnusambands landsins á síðasta ári. Segja má að þeir hafi lagt drög að viðbragðsáætlun.

Fróðlegt verður að sjá hvort það takist að blása upp í vinsældum fótboltans í Eystrasaltslöndunum en þeim hefur gengið bölvanlega að framleiða stjörnur í íþróttinni síðustu ár.

Þegar kvennafótboltinn er skoðaður er þróunin í sömu átt. Landsliðin eru öll á niðurleið og það þarf að fletta langt niður til að finna þau. Lettland er í 92. sæti á heimslista FIFA (var númer 82 árið 2017), Eistland er í 97. sæti (var númer 77 árið 2017) og Litháen í 107. sæti (var númer 86 árið 2017).

Lettland og Ísland mætast á þriðjudag í undankeppni EM kvenna. Það er óhætt að tala um algjöran skyldusigur hjá Íslandi.
Athugasemdir
banner