Fulham 1 - 2 Crystal Palace
0-1 Eddie Nketiah ('20)
1-1 Harry Wilson ('38)
1-2 Marc Guehi ('87)
0-1 Eddie Nketiah ('20)
1-1 Harry Wilson ('38)
1-2 Marc Guehi ('87)
Fulham og Crystal Palace áttust við í seinni leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og ríkti jafnræði í fyrri hálfleik. Palace byrjaði leikinn betur og tók forystuna á 20. mínútu þegar Eddie Nketiah gerði vel að klára með marki eftir laglega sókn. Adam Wharton átti stóran þátt í markinu og fær stoðsendingu skráða á sig fyrir að hafa átt lokasendinguna eftir gott spil.
Fulham tók völdin á vellinum eftir þetta og reyndi að svara fyrir sig en Dean Henderson gerði vel að verja frá fyrrum Arsenal-mönnunum Emile Smith Rowe og Alex Iwobi, áður en Harry Wilson skoraði gullfallegt jöfnunarmark.
Wilson gerði mjög vel að klára með frábæru utanfótarskoti rétt utan vítateigs eftir gott samspil við Raúl Jiménez. Iwobi átti einnig þátt í undirbúningnum.
Fulham byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og kom boltanum í netið snemma, en markið var dæmt af vegna rangstöðu eftir athugun í VAR-herberginu. Samuel Chukwueze var óheppinn að vera afar naumlega rangstæður í aðdragandanum.
Fulham var sterkari aðilinn þar til Palace tók yfirhöndina á lokakaflanum og náði að gera sigurmark undir lokin. Miðvörðurinn Marc Guéhi skoraði með skalla eftir hornspyrnu og höfðu heimamenn ekki tíma til að jafna aftur, svo lokatölur urðu 1-2.
Palace er að gera frábæra hluti undir stjórn Oliver Glasner og situr í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 26 stig eftir 15 umferðir - sjö stigum á eftir toppliði Arsenal.
Athugasemdir



