Tómas Bent Magnússon lék allan leikinn á miðsvæði Hearts sem vann Skotlandsmeistara Celtic, 2-1, í skosku úrvalsdeildinni í dag.
Eyjamaðurinn hefur fest sæti sitt á miðsvæðinu í síðustu leikjum en hann gekk í raðir félagsins frá Val í sumar.
Hann lék allan leikinn gegn meisturunum í Celtic í dag og kom mjög vel frá sínu.
Hearts er á toppnum í deildinni með 35 stig, þremur meira en Celtic eftir sextán leiki.
Elías Rafn Ólafsson stóð í markinu hjá Midtjylland sem gerði grátlegt 3-3 jafntefli við Viborg í dönsku úrvalsdeildinni. Midtjylland lenti 2-0 undir í leiknum en meistararnir komu til baka með þremur mörkum í síðari hálfleik.
Allt stefndi í magnaðan endurkomusigur en heimamenn í Viborg jöfnuðu í uppbótartíma. Midtjylland er því áfram í öðru sæti með 36 stig en AGF er nú komið með fjögurra stiga forystu á toppnum.
Andri Fannar Baldursson spilaði á miðjunni hjá Kasimpasa sem gerði markalaust jafntefli við Kocaelspor í tyrknesku deildinni. Kasimpasa er í 14. sæti með 14 stig.
Kristian Nökkvi Hlynsson byrjaði hjá Twente sem gerði 1-1 jafntefli við Utrecht í hollensku deildinni. Kolbeinn Birgir Finnsson var ónotaður varamaður hjá Utrecht. Twente er í 8. sæti með 21 stig en Utrecht í 7. sæti með 22 stig.
Jón Dagur Þorsteinsson kom inn af bekknum í 2-0 tapi Herthu Berlín gegn Magdeburg í þýsku B-deildinni. Hertha er í 7. sæti með 26 stig.
Hörður Björgvin Magnússon var einn af bestu mönnum Levadiakos í 1-1 jafntefli gegn Asteras Tripolis í grísku úrvalsdeildinni. Undir lok leiks fékk hann færi til þess að tryggja Levadiakos öll stigin en skalli hans fór rétt yfir markið.
Levadiakos er í 4. sæti deildarinnar með 22 stig eftir þrettán umferðir.
Athugasemdir




