KA2, sem er að mestu skipað leikmönnum úr 2. flokki félagsins, vann óvæntan 2-1 sigur á Lengjudeildarmeisturum Þórs í Kjarnafæðismótinu í gær.
Þórsarar unnu sér sæti í Bestu deild karla á nýafstöðnu tímabili og voru mun betri aðilinn í leiknum en náðu ekki að hafa betur gegn nágrönnum sínum.
Bjarki Fannar Helgason og Snorri Kristinsson skoruðu mörk KA2 en Peter Helgason minnkaði muninn fyrir Þór undir lok leiks með marki úr vítaspyrnu.
Lasse Egelund, aðstoðarþjálfari KA2, sá rauða spjaldið undir lok leiksins.
Höttur/Huginn vann 5-0 stórsigur á Hömrunum í B-deildinni. Bjarki Nóel Brynjarsson skoraði þrennu og þá gerði Steinþór Aðalsteinsson tvö.
Í kvennaflokki vann Þór/KA 8-1 stórsigur á Dalvík en Dalvíkingar komust óvænt yfir í leiknum áður en Bestu-deildarliðið tók við sér og valtaði yfir nágranna sína.
Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði tvö en þær María Dögg Jóhannsdóttir, Hildur Anna Birgisdóttir, Amalía Árnadóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Sygin Elmarsdóttir og Eva Dolina skoruðu eitt mark hvor.
Athugasemdir



