Síðustu leikjum dagsins er lokið hjá Íslendingunum okkar sem leika erlendis og var Kristall Máni Ingason í aðalhlutverki í óvæntum sigri Sönderjyske á útivelli gegn FC Kaupmannahöfn.
Kristall Máni skoraði seinna mark Sönderjyske í uppbótartíma fyrri hálfleiks og urðu lokatölur 0-2. Heimamenn í FCK sóttu án afláts í seinni hálfleik en tókst ekki að skora gegn þéttum varnarmúr Sönderjyske.
Viktor Bjarki Daðason byrjaði á bekknum en fékk að spila síðasta hálftímann í liði FCK. Þetta er þriðji tapleikurinn í síðustu fjórum deildarleikjum Kaupmannahafnar og situr liðið í fimmta sæti með 28 stig eftir 18 umferðir, einu stigi á eftir Sönderjyske.
Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Sönderjyske á meðan Rúnar Þór Sigurgeirsson var fjarverandi vegna meiðsla. Rúnar Alex Rúnarsson var á bekknum hjá FCK.
Danijel Dejan Djuric kom þá inn af bekknum í stórsigri hjá Istra í króatíska boltanum. Danijel fékk að spila síðustu 10 mínúturnar á meðan Logi Hrafn Róbertsson sat á bekknum. Istra er í baráttu um Evrópusæti í króatísku deildinni, með 23 stig eftir 16 umferðir.
Í hollenska boltanum vann Íslendingalið Álasunds stórsigur á útivelli gegn Bryne. Liðin eru að keppast í umspili um sæti í efstu deild.
Davíð Snær Jóhannsson kom inn af bekknum í fjögurra marka sigri á meðan Ólafur Guðmundsson sat á tréverkinu. Álasund er því með níu tær áfram í Eliteserien, liðið þarf að tapa með fimm mörkum eða meira í heimaleiknum til að falla niður um deild.
Davíð Kristján Ólafsson var þá ónotaður varamaður í 2-2 jafntefli hjá Cracovia gegn Lech Poznan í efstu deild í Póllandi. Gísli Gottskálk Þórðarson var ekki með Lech Poznan vegna meiðsla.
Nökkvi Þeyr Þórisson var svo ónotaður varamaður í sigri hjá Sparta Rotterdam í efstu deild í Hollandi þar sem liðið er í Evrópubaráttu. Að lokum var Brynjar Ingi Bjarnason fjarverandi í jafntefli Greuther Fürth í Þýskalandi vegna meiðsla.
Kaupmannahöfn 0 - 2 Sönderjyske
0-1 L. Qamili ('43)
0-2 Kristall Máni Ingason ('45+2)
Osijek 1 - 5 Istra 1961
Bryne 0 - 4 Aalesund
Cracovia 2 - 2 Lech Poznan
Nurnberg 2 - 2 Greuther Furth
Sparta Rotterdam 1 - 0 NAC Breda
Athugasemdir

