Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fim 08. febrúar 2018 16:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Evrópski boltinn
Guðmundur Snæbjörnsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Highbury leikvangurinn.
Highbury leikvangurinn.
Mynd: Getty Images
Jean-Marc Bosman.
Jean-Marc Bosman.
Mynd: Getty Images
Zlatan er meðal þeirra sem nýtt hafa sér Bosman regluna.
Zlatan er meðal þeirra sem nýtt hafa sér Bosman regluna.
Mynd: Getty Images
Fáni UEFA.
Fáni UEFA.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Cesc Fabregas, leikmaður Chelsea.
Cesc Fabregas, leikmaður Chelsea.
Mynd: Getty Images
Enskur fótboltaleikvangur.
Enskur fótboltaleikvangur.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þær knattspyrnudeildir sem flestir Íslendingar fylgjast með eru í löndum sem teljast til innri markaðar Evrópusambandsins. Ísland er sjálft hluti af innri markaðnum gegnum aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu. Kjarninn í innri markaðnum er fjórfrelsið; frjálst flæði vöru, launþega, þjónustu og fjármagns. Þó löggjafinn haldi sér að jafnaði frá utanumhaldi og leikreglum keppnisíþrótta þá kemur vissulega fyrir að þær reglur sem íþróttasamtök setja sér brjóta í bága við réttindi iðkenda.

Í Evrópskri knattspyrnu hafa lengi verið reglur sem takmarka atvinnufrelsi knattspyrnumanna. Raunar virðist algeng skoðun vera að venjuleg sjónarmið um atvinnufrelsi eigi ekki við um knattspyrnumenn. Það liggi einfaldlega í hlutarins eðli að takmörk verði að vera á sölu og kaupum þeirra. Það myndi ekki góðu hófi gegna ef hægt væri að kaupa besta leikmann andstæðinganna í hálfleik, samkeppni minnkar ef ríkustu liðin geta einfaldlega sópað til sín bestu leikmönnunum og minna fé fer í ungliðastarf þegar hægt er að kaupa fullvaxta leikmenn í stað þess að sóa áratug í brostnar vonir.

Hvað finndist svo íbúum í Highbury í Lundúnum um það ef gamla hverfisliðið þeirra væri ekki mannað af heimamönnum? Á hliðarlínunni stæði geðstirður Fransmaður og hrópaði leiðbeiningar á frönsku. Ekki til Tony Adams heldur til samlanda síns Emmanuel Petit. Gætu heimamenn sýnt slíku liði stuðning?

Straumhvörf Bosman
Í desember árið 1995 breytti hinn lítt þekkti Jean-Marc Bosman knattspyrnuheiminum til frambúðar. Bosman var knattspyrnumaður sem hafði á þeim tíma staðið í málaferlum í 5 ár vegna þess sem hann taldi ósanngjarna meðferð á sjálfum sér. Bosman er að spila með RFC Liége í Belgíu þegar samningur hans er að renna út og ákveður í kjölfarið að flytja til Frakklands til þess að spila með USL Dunkerqe. Þá kom babb í bátinn.

Bosman var ekki heimilt að yfirgefa RFC Liége og spila með Dunkerque nema ef RFC myndi samþykkja slík skipti. Fyrir slík skipti krafðist RFC þess að fá greitt um 52 milljónir króna. Dunkerque neitaði að borga svo háa fjárhæð og Bosman sat eftir í Belgíu á lægri launum en áður. Bosman höfðaði skaðabótamál sem að lokum leiddi hann til Brussel. Þar sem í forúrskurði var kveðið á um að þetta „vistarband“ væri ólögmæt takmörkun á atvinnufrelsi Bosman. Knattspyrnufélög geti ekki krafist þess að fá greitt fyrir leikmann þegar samningur við hann er runninn út. Þannig var ætlunin að veita leikmönnum aukin völd. Í knattspyrnuheiminum í dag er jafnan talað um slík leikmannaskipti sem „Bosman-skipti“ og á meðal þekktra knattspyrnumanna sem hafa notfært sér slík skipti eru Sol Campbell, Zlatan Ibrahimovic, Andrea Pirlo og Henrik Larsson.

Evrópudómstóllinn tók einnig fyrir reglu sem var í gildi hjá Knattspyrnusambandi Evrópu og nefndist „3 + 2“ reglan. Reglan fór í sér að hvert knattspyrnulið mátti aðeins spila út 3 erlendum leikmönnum og 2 erlendum leikmönnum sem höfðu „aðlagast“ sínu liði. Knattspyrnumenn töldust hafa „aðlagast“ keppnisliði sínu ef þeir höfðu spilað í landi keppnisliðsins í 5 ár og af þeim máttu 3 hafa verið í yngri flokkum. Dómstóllinn taldi að hér væri á ferð mismunun milli launþega innan Evrópusambandsins sem bryti gegn (núverandi) 45. gr. Sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSESB). Af 45. gr. SSESB eru ríki ESB skuldbundin til að afnema alla mismunun milli launþega sem byggir á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Takmarkanir kunna þó að vera á reglunni sem réttlætast af allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði. Hér taldi Evrópudómstóllinn ekki að undantekningar ættu við. Markmið reglunnar, þ.e. að vernda samkeppni milli knattspyrnuliða og styrking ungliðastarfs voru talin lögmæt með tilliti til sérkenna íþrótta en að vægari leiðir væru til boða til þess að ná þeim markmiðum. Afnám reglunnar átti eftir að valda straumhvörfum í knattspyrnuheiminum.

Af Bosman sjálfum er lítið að frétta. Þegar málaferlum hans lauk var hann orðinn einn af umdeildari knattspyrnumönnum heims og lítill áhugi á honum hjá knattspyrnufélögum. Ennþá í dag þegar hann berst í fregnir þá hrannast upp athugasemdir í kommentakerfin um hvernig hann eyðilagði knattspyrnuna. Hann rataði síðast í fréttir árið 2013 vegna heimilisofbeldis og drykkjuvandamála. Í viðtali vegna 20 ára afmælis forúrskurðar Bosman-málsins þá kom fram að hann treysti á félagslega kerfið í Belgíu til þess að ná endum saman. Í því er falin viss kaldhæðni þar sem Bosman ruddi að nokkru brautina fyrir ofurlaun knattspyrnumanna í dag.

Heimaaldir leikmenn
Árið 2005 taldi Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) að það væru blikur á lofti í knattspyrnumálum álfunnar. Félagslið hefðu ekki nægan hvata til að þjálfa unga leikmenn, lið væru farin að tapa staðbundnum sérkennum sínum og birgðu sig upp af knattspyrnumönnum. Þannig væri minni samkeppni á knattspynumótum UEFA og í innlendum deildum. Það væru auk þess merki þess að fjármunir spiluðu sífellt stærra hlutverk þegar kemur að velgengni og í þokkabót færi tækifærum uppaldra leikmanna fækkandi, með heimaliðum sínum.

Viðbrögð UEFA við þeim skaða sem samtökin vildu rekja til Bosman-málsins voru margs konar og er af nægu að taka þegar kemur að mögulegum árekstri við reglur innri markaðarins. Hér verður einblínt á regluna um „heimaalda leikmenn“ (e. home-grown player rule). Áður en reglan verður útskýrð er gott að taka fram að þrátt fyrir að regluna megi finna í mörgum knattspyrnudeildum Evrópu þá er útfærsla hennar ekki alltaf sú sama. Knattspyrnusambönd álfunnar hafa tekið hana upp og reynt að aðlaga hana að eigin þörfum. Þau knattspyrnusambönd sem eru í EES mega ekki mismuna gegn borgurum EES og hafa því sumhver sleppt því að setja reglur um heimaalda leikmenn og í staðinn látið sér nægja að setja kvóta á leikmenn sem koma frá löndum utan EES. Þegar lið keppa í Evrópudeildinni eða Meistaradeild Evrópu þá eru þau samt bundin af útfærslu UEFA á reglunni.

Í keppnum á vegum UEFA, svo sem Meistaradeild Evrópu, skal skrá 2 leikmannalista, A og B.

Á A-leikmannalista félags má skrá að hámarki 25 leikmenn. Af þeim leikmönnum skulu 8 hafa verið skráðir hjá aðildarfélagi í knattspyrnusambandi félagsins á aldurstímabilinu 15 ára til 21 árs, samfellt eða samtals í 36 mánuði (eða yfir 3 tímabil). Aldurstímabil telst frá upphafi þess keppnistímabils sem leikmaður verður 15 ára til loka þess keppnistímabils þegar leikmaður verður 21 árs. Þar af verða 4 af þessum 8 leikmönnum að hafa alist upp hjá því félagi sem í hlut á. Þannig mætti skipta heimaöldum í tvo flokka; leikmenn þjálfaðir af félagsliði sínu (e. club trained player) og leikmenn þjálfaðir af félagsliði í sama knattspyrnusambandi (e. association-trained player). Ef lið hefur innan við 8 heimaalda leikmönnum þá fækkar í A-leikmannalista fyrir hvern þann leikmann sem á skortir.

B-leikmannalisti varðar leikmenn sem verða 21 árs á almannaksárinu sem tímabilið hefst (eða yngri). Það eru engin fjöldatakmörk á þeim leikmönnum en leikmaðurinn verður að hafa verið samfellt í 2 ár hjá félaginu frá 15 ára afmæli sínu. Ef leikmaður er 16 ára dugar að hafa verið samfellt hjá félaginu frá 14 ára aldri. Umfjöllun þessarar greinar er að mestu afmörkuð við A-leikmannalista félags.

Í La Liga eru ekki reglur sem taka á leikmönnum innan EES en einungis 3 leikmenn utan EES mega spila með hverju knattspyrnuliði. Á Ítalíu, Þýskalandi, Íslandi og Danmörku miða reglurnar við að félagslið hafi innanborðs bæði leikmenn þjálfaða af félagsliðinu og leikmenn þjálfaða af félagsliði í sama knattspyrnusambandi. Í Ensku úrvalsdeildinni þurfa 8 leikmenn að vera heimaaldir en ekki er gerð krafa um að þeir hafi hlotið þjálfun hjá félagsliði sínu og nægir að leikmaðurinn hafi hlotið þjálfun hjá félagsliði í sama knattspyrnusambandi.

Cesc Fabregas telst vera heimaalinn leikmaður hjá Chelsea því hann hlaut þjálfun hjá Arsenal og getur hann fyllt í 1 af þeim 8 sætum sem eru afmörkuð fyrir heimaalda leikmenn í Úrvalsdeildinni. Því hann var ekki þjálfaður af Chelsea getur hann í Meistaradeildinni bara uppfyllt 1 af 4 sætum sem eru afmörkuð fyrir leikmenn þjálfaða af félagsliði í sama knattspyrnusambandi. Í Ensku úrvalsdeildinni ergerð krafa um að leikmenn utan EES fái atvinnuleyfi í Englandi og til þess þurfa leikmenn að uppfylla vissar kröfur.

Nú er von að lesendur spyrji sig hvort þessar reglur fái staðist frjálsa för launþega innan EES. Það má líklega slá því fram að flestir unglingar sem spili knattspyrnu geri það í heimalandi sínu. Er reglan að tryggja að félög sinni ungliðastarf og það viðhaldist virk samkeppni milli félaga eða flytja knattspyrnuliðin bara inn unga leikmenn til þess að komast fram hjá reglunni. Að sama skapi stendur liðum til boða að hafa færri leikmenn á leikmannalistanum og sleppa því að spila út heimaöldum leikmönnu.

Nokkur orð um Brexit
Erfitt er að segja til með hvernig reglur sem lúta að leikmönnum frá EES muni líta út í ensku úrvalsdeildinni þegar Bretland gengur úr ESB. Ekki er langt síðan Enska úrvalsdeildin hafnaði tillögum frá Enska Knattspyrnusambandinu um að hækka fjölda heimaaldra leikmanna úr 8 í 12 og lækka mögulegan aldur þeirra úr 21 árs í 18 ára. Á móti kemur að í Ensku 1. deildinni hefur leikmannareglum fyrir næsta tímabil verið breytt þannig að 7 heimaaldir leikmenn þurfa nú að vera í leikhópnum á leikdag og einn leikmanna þarf að hafa verið þjálfaður af eigin félagsliði. Ef hann verður ekki í leikhópnum mun fækka um einn á bekknum.

Í Englandi miðar atvinnuleyfi leikmanna frá löndum utan EES við landsliðsferil þeirra. Reglunni er ætlað að takmarka fjölda meðaljóna (e. journeyman players) í deildinni sem spila oft á kostnað enskra knattspyrnumanna og þar með árangurs enska landsliðsins á heimsvísu. Leikmenn þurfa að hafa spilað mismikið með landsliði sínu. Kröfurnar fara eftir stöðu landsliðsins á heimslista FIFA. Karlalandslið Íslands er t.d. í 20. sæti á heimslista FIFA og þyrftu leikmenn þess að hafa tekið þátt í 45 % leikja landsliðsins síðustu 24 mánuði (síðustu 12 mánuði ef leikmaðurinn er 21 árs eða yngri). Ef leikmaðurinn uppfyllir ekki það skilyrði er kölluð til dómnefnd. Hún lítur til fjárhagslegra þátta, leikferils leikmanns og hvort aðstæður hans séu sérstaks eðlis. Enska Knattspyrnusambandið taldi þegar reglurnar voru kynntar árið 2015 að um 33% þeirra erlendu leikmanna sem spiluðu í Englandi á þeim tíma hefðu ekki átt rétt á atvinnuleyfi.

Það er ólíklegt að knattspyrnumenn frá EES muni hljóta sömu meðferð og leikmenn frá löndum utan þess. Stephen Weatherhill einn helsti sérfræðingur um Evrópskan íþróttarétt hefur nefnt að „in practice it does not seem likely that the dazzling Polish winger and the imperious French sweeper would be treated in the same way as the Polish plumber and the French cleaner“. Erfitt er að staðhæfa um nokkuð en í grunninn er rétt að Bretland verður ekki lengur bundið af reglum evrópuréttar en spurningin er einfaldlega hvað mun koma í staðinn. Það togast samt á mismunandi hagsmunir þegar það kemur að enskri knattspyrnu. Enska Knattspyrnusambandið vill bæta hag enskra knattspyrnumanna, enska úrvalsdeildin vill viðhalda alþjóðlegum vinsældum sínum og unnendur íþróttarinnar vilja ekki að lið þeirra dragist aftur úr öðrum stórliðum Evrópu sökum þessara reglna um að spila út enskum knattspyrnumönnum.

Undantekning íþrótta
Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins má finna reglu sem nefnist „undantekning íþrótta“ (e. sporting exception). Undantekning íþrótta kom fyrst fram í máli Walrave og Koch frá 1974. Málið varðaði keppni á vegum Alþjóðlega hjólreiðasambandsins (UCI). Keppt var í „paced cycle racing“. Í þessum kappreiðum hjólar hjólreiðamaður í lengri tíma á eftir héra sem ekur um á mótorhjóli. Árið 1973 lögfesti UCI að hjólreiðamaður og héri þyrftu að vera samlandar þegar þeir tæku þátt í heimsmeistaramóti íþróttarinnar. Tveir hollenskir hérar sem vanir voru að keppa með hjólreiðamönnum frá öðrum löndum kærðu málið til dómstóla. Að lokum var Evrópudómstóllinn beðinn um forúrskurð. Í úrskurðinum kom fram að íþróttareglur gætu fallið innan gildissviðs evrópuréttar ef þær hefðu efnahagslegt gildi (e. economic activity). Hins vegar væru vissar íþróttareglur sem hefðu ekkert efnahagslegt gildi eða þótt það væri til staðar þá væri reglan knúin áfram af íþróttaáhuga (e. purely sporting interest). Dómstóllinn taldi að slíkar féllu utan gildissviðs evrópuréttar.

Í máli Bosman taldi dómstóllinn að „3+2“ reglan félli ekki undir undantekningu íþróttanna. Taldi dómstóllinn að ekki væri hægt að túlka regluna svo rúmt að hún hindraði með öllu réttaráhrif evrópuréttar í íþróttum. Reglan væri milli félagsliða og varðaði atvinnuferil knattspyrnuleikmanna en ekki brautargengi landsliða

Í máli Meca-Medina frá 2006 var gildi reglunnar um undantekningu íþróttanna verulega takmörkuð. Málið varðaði tvo sundmenn sem fallið höfðu á lyfjaprófi. Þar sagði dómstóllinn að þótt regla sé knúin fram af íþróttaáhuga þá leiðir það ekki til þess að fylgjendur reglunnar eða yfirvaldið sem setti regluna hafi almenna undanþágu frá evrópurétti. Undantekning íþróttanna hefur í raun verið takmörkuð verulega. Hún gildir um val á leikmönnum í landslið eða leikreglur sem hafa næstum engin efnahagsleg áhrif t.d. rangstöðureglan.

Ólíklegt er að hægt sé að réttlæta reglu UEFA um heimaalda leikmenn með tilvísun til undantekningar íþrótta. Knattspyrnulið sækjast ekki einungis eftir því að taka þátt í evrópukeppnum til þess að geta spilað meiri knattspyrnu. Orðstír og fjárhagslegur ávinningur spila þar einnig stórt hlutverk.

Það liggur í hlutarins eðli – bein og óbein mismunun
Í beitingu 45. gr. SSESB hefur Evrópudómstóllinn aðgreint á milli beinnar og óbeinnar mismununar. Bein mismunun er þegar launþegi í frjálsri för fær lakari meðferð en annar launþegi fær, fékk eða myndi fá við sambærilegar aðstæður. Bein mismunun getur verið í formi hafta á þátttöku launþega í frjálsri för. Ekki er slíka mismunun að finna í reglum um heimaalda leikmenn enda hafa allir knattspyrnuleikmenn möguleika á því að uppfylla skilyrði reglunnar.

Óbein mismunun er ekki jafn augljós og bein mismunun. Hún er talin eiga við þegar því er virðist hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun myndi koma verr við launþega í frjálsri för. Samanburður er ekki skilyrtur við raunverulegar aðstæður og dugar að ráðstöfunin sé líklegri til að hafa skaðleg áhrif á launþega í frjálsri för. Hægt er að réttlæta óbeina mismunun með hlutlægum ástæðum sem stefna að lögmætu markmiði og meðalhófi er fylgt við ráðstöfnunina.

Reglan um heimaalda leikmenn er líkleg til að hafa skaðlegri áhrif á launþega í frjálsri för og þannig mismuna þeim óbeint. Ástæðan er sú að leikmenn sem hlutu þjálfun í heimalandi síns félagsliðs hafa mögulegt forskot á aðra leikmenn. Launþegar í frjálsri för eru líklegri til að vera ekki heimaaldir af knattspyrnuliði þess lands sem þeir dvelja í. Knattspyrnumaður frá Spáni er líklegri til að spila á unglingsárum sínum á Spáni heldur en Englandi. Framkvæmdastjórnin hefur viðurkennt þá ályktun.

Það er umhugsunarvert hvort réttlæta megi mismunun sem felst í reglu UEFA um heimaalda leikmenn.

Áhugavert er hvort reglan réttlætist af hlutlægum ástæðum sem stefna að lögmætu markmið. Í dómaframkæmd hafa ýmsar ástæður geta talist réttlætt óbeina mismunun í íþróttum. Í fyrst lagi hefur verið talið að reglur sem jafna samkeppni knattspyrnufélaga og bæta þjálfun ungra leikmanna geti talist lögmætar. Í öðru lagi hefur verið talið að skiptagluggar geti talist í samræmi við evrópurétt því sein leikmannaskipti geta skapað óvissu. Í þriðja lagi er talið að reglur sem takmarka lyfjanotkun geti verið lögmætar. Í fjórða lagi hefur verið talð að greiðslur til uppeldisfélags fyrir þjálfun leikmanna geti talist lögmætt markmið. Þar sem aðalrökin fyrir reglunni um heimaalda leikmenn er að jafna samkeppni liða og bæta þjálfun ungra leikmanna þá má telja líklegt að markmið reglunnar séu lögmæt.

Það er vandasöm spurning hvort reglan um heimaalda leikmenn uppfylli markmið sín og hvort vægari úrræði séu til boða til þess að uppfylla þau. Reglan kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að stilla upp liði sem eingöngu er skipað erlendum leikmönnum og fjölmörg dæmi eru um erlenda leikmenn sem talist hafa til heimaaldra leikmanna. Erfitt er að meta áhrif reglunnar þegar að mismunandi útfærslur af reglunni má finna í ýmsum félagsdeildum álfunnar. Það er heldur ekki rými fyrir sértæka könnun á áhrifum reglunnar en vissulega má finna ýmsar rannsóknir á netinu sem athuga það nánar.

Rökstutt álit ESA frá 15. nóvember 2017
Í haust gaf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) út rökstutt álit sem varðaði körkuknattleik á Íslandi. Vissulega er körfuknattleikur ekki það sama og knattspyrna, en sömu sjónarmið ríkja þegar kemur að launþegum í frjálsri för. Bosman málið hefur einnig áhrif inni á körfuknattleiksvellinum.

Álit ESA varðaði reglu sem kölluð var „4 + 1“ reglan. Hún var á þá leið að körfuknattleiksfélagi á Íslandi var óheimilt að hafa fleiri en einn erlendan ríkisborgara á vellinum í hverjum leik. Reglan var í gildi í úrvalsdeild og 1. deild hjá báðum kynum. Hún gerði engin skil á körfuknattleiksmönnum sem komu frá löndum innan eða utan EES.

Þegar kemur að körfuknattleiksmönnum eru sömu sjónarmið við gildi og hjá knattspyrnumönnum. Ef þeir stunda körfuknattleik að atvinnu fyrir körfuknattleikslið, undir handleiðslu þjálfara liðsins og fá laun fyrir þá teljast þeir launþegar. Ef þeir eru launþegar í frjálsri för þá njóta þeir réttarverndar 28.gr EES-samingsins og ekki má mismuna þeim á grundvelli þjóðernis. Reglan hafði að geyma beina mismunun á grundvelli þjóðernis og líkt og kom fram í Bosman málinu þá eru þjóðernisrkvótar óheimilir hjá félagsliðum. Ekki var að finna tæka réttlætingu í 3. mgr. 28. gr. EES-samingsins.

Í álitinu var einnig vikið að mismunun gagnvart körfuknattleiksáhugamönnum (e. amateur basketball players), þ.e. þeim sem stunda körfubolta sem áhugamál en ekki atvinnu. Þar vék ESA að 4. gr. EES-samingsins sem bannar hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs á gildissviði samningsins. ESA vísaði til 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem kveður á um að við viss skilyrði eiga borgarar EES rétt á því að búa á yfirráðasvæði annars aðildarríkis EES og 24. gr. sömu tilskipunar sem kveður á um að ekki megi mismuna þessum borgurum eða aðstandendum þeirra á meðan þeir dvelji í gistiríkinu. ESA vék síðan aftur að því hvernig þjóðerniskvótar væru óheimilir og fælu í sér beina mismunun.

Viðbrögð Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) voru nokkuð skjót. Í bréfi formanns til aðildarfélaga KKÍ kom fram að stjórn KKÍ hefði tekið þá ákvörðun að frá keppnistímabilinu 2018/2019 verður spilað samkvæmt þeim reglum sem ESA telur að þurfi svo ekki sé verið að hefta frjálst flæði vinnuafls innan EES. Hin nýja reglugerð mun taka gildi frá og með 1. maí 2018. Höfundur þessarar greinar hefur ekki séð reglugerðina sem er í vinnslu og getur því ekki lagt efnislegt mat á hana. Einnig ber að nefna stjórn KKÍ ítrekaði að hún teldi ekki að KKÍ væri að brjóta gegn lögum með „4+1“-reglunni en vegna þess hversu óljósar reglurnar væru taldi KKÍ best að breyta regluverkinu.

Nokkur orð að lokum
Það er að mörgu að taka þegar kemur að árekstri íþrótta og evrópuréttar. Evrópudómstóllinn beitir efnislegu mati þegar kemur að takmörkunum sem réttlættar eru af nauðsynlegu eðli íþrótta. Íþróttareglur eru ekki afgreiddar sem reglur sérstaks eðlis heldur er lögmæti þeirra og meðalhóf í framkvæmd metið.

Telja má líklegt að áhrifaríkasta málið sem Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað varðandi íþróttir sé Bosman málið. Með málinu var gjörbylt skiptakerfi knattspyrnu í Evrópu. Leikmönnum var veitt meira frelsi og þjóðerniskvótar voru afnumdir. Viðbrögð UEFA við banninu hafa einnig verið áhugaverð þar sem reynt er að setja á fót reglur sem styðja við innlent knattspyrnustarf án þess að mismuna gegn erlendum leikmönnum.

Reglan um heimaalda leikmenn er ekki sérstaklega takmarkandi. Framkvæmdastjórnin hefur kosið að ganga ekki gegn reglunni en er meðvituð um að áhrif hennar virðast lítil. Knattspyrnulið geta ennþá skráð 17 leikmenn á leikmannalista sinn sem ekki eru heimaaldir. Önnur áhrif Bosman-málsins eru einnig áhugaverð. Leikmenn eru nú lengur skráðir hjá félagsliðum til þess að þeir taki ekki Bosman-skipti og erfitt er fyrir leikmenn að fara frá félagi sínu þegar hann vill spila annars staðar, t.d. þegar Nicholas Anelka vildi fara frá Arsenal til Real Madrid og fékk viðurnefnið Le sulk.

Það eru því ennþá takmarkanir á atvinnufrelsi í íþróttaheiminum en spurningin er hvort takmörkunin sé nauðsynleg íþróttinni og hversu langt megi ganga með hana.

Guðmundur Snæbjörnsson
Pistillinn birtist upphaflega á romur.is
Athugasemdir