
„Mér líst bara vel á þetta. Það er gott að fá góða leiki," sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, aðstoðarþjálfari Vals, eftir að dregið var í 16-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í dag.
Stórleikurinn í 16-liða úrslitunum verður leikur Vals og Þróttar í Laugardalnum en bæði þessi lið eru með sex stig eftir fyrstu tvo leikina í Bestu deildinni.
Stórleikurinn í 16-liða úrslitunum verður leikur Vals og Þróttar í Laugardalnum en bæði þessi lið eru með sex stig eftir fyrstu tvo leikina í Bestu deildinni.
„Auðvitað hefðum við viljað heimaleik en það er gott að mæta góðu liði. Þróttur er með eitt af betri liðum landsins og við fáum hörkuleik í fyrsta leik í bikar."
„Við vildum fá heimaleik en það er stutt fyrir okkur að fara. Það er búið að henda upp flottri stúku og aðstæðurnar eru góðar."
Í liði Þróttar eru tveir uppaldir Valsarar, Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Katla Tryggvadóttir. Þær voru báðar í yngri flokkum Vals en skiptu svo yfir í Þrótt í meistaraflokki þar sem þær eru í stórum hlutverkum þrátt fyrir ungan aldur. Það var erfitt fyrir þær að brjótast inn í lið Vals á þeim tíma sem þær voru að stíga upp í meistaraflokk og því skiptu þær til að spila. Það má segja að þær séu tvær af sterkustu leikmönnum Bestu deildarinnar í augnablikinu eftir að hafa fengið góða reynslu með Þrótti.
Adda segist ekki svekkt með að þær séu ekki í Val, hún sé frekar ánægð fyrir þeirra hönd að þær hafi fengið tækifærið hjá Þrótti og nýtt sér það.
„Þær eru frábærir leikmenn sem hafa staðið sig vel síðustu árin með Þrótti. Það er gaman að mæta þeim. Ég er ánægð fyrir þeirra hönd að þær séu að standa sig vel í Þrótti. Nik (Chamberlain) hefur gert ofboðslega vel með þessa leikmenn. Ég samgleðst þeim frekar en að hugsa eitthvað um að þær séu ekki í Val. Auðvitað vill maður alltaf fá góða leikmenn til okkar en þetta var þeirra ákvörðun. Þær eru að standa sig vel og ég er glöð fyrir þeirra hönd."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan en þar ræðir Adda meðal annars meira um tímabilið hjá Val og leikinn sem er framundan gegn Þrótti í bikarnum.
Athugasemdir