Íslenski vængmaðurinn Aron Sigurðarson er að semja við danska B-deildarfélagið Horsens en þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Aron er 27 ára gamall og uppalinn í Fjölni en hann hélt út í atvinnumennsku árið 2016 og samdi við Tromsö.
Hann spilaði þar í tvö ár áður en hann samdi við Start. Hann hjálpaði liðinu að komast aftur upp í norsku úrvalsdeildina árið 2019 og var valinn leikmaður ársins.
Aron samdi við belgíska úrvalsdeildarfélagið Royal Union Saint Gilloise á síðasta ári og hjálpaði liðinu að komast upp í úrvalsdeildina á síðustu leiktíð en er nú á leið til Danmerkur.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Aron að ganga í raðir Horsens í dönsku B-deildinni og verður gengið frá öllum helstu smáatriðum á næstu dögum.
Horsens verður því með tvo Íslendinga á mála hjá sér á komandi tímabili en Ágúst Eðvald Hlynsson er samningsbundinn félaginu.
Athugasemdir